Nytjaréttur viðurkenndur
Í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða segir að byggja þurfi upp traust til að ná góðri sátt á milli allra sem koma að friðlýstum svæðum, þar með talið þeirra sem hafa umsjón með friðlýstum svæðum, landeigenda og þeirra sem nýta sér þau í atvinnuskyni. Í skýrslunni er nýtingarréttur sem nytjaréttar hafa innan friðlýstra svæða viðurkenndur.
Í inngangi nýrrar skýrslu umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytisins, Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði, kemur fram að á Íslandi eru rúmlega 130 friðlýst svæði og þar af þrír þjóðgarðar og að heildarflatarmál friðlýstra svæða sé um 23.500 ferkílómetrar. Einnig að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafi sett sér þau markmið að efla friðlýst svæði á Íslandi, auk þess sem þær hafa lagt áherslu á aukna vernd miðhálendisins í stefnuskrám sínum.
Mikilvægi bænda viðurkennt
Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður, sem sat í nefndinni sem samdi skýrsluna ásamt Árna Finnssyni og Sveinbirni Halldórssyni, segist líta svo á að hún hafi setið í nefndinni sem talsmaður bænda og sveitarfélaga.
„Hljómgrunnurinn í nefndinni var góður og nefndarmenn gerðu sé grein fyrir mikilvægi bænda í samhenginu og að mínu mati er ríkjandi jákvæðni gagnvart okkur. Í allri vinnunni kom mjög skýrt fram að mikilvægi heimamanna væri ótvírætt og að vinna þyrfti friðanir í samvinnu við sveitarfélögin.“
Guðrún bendir á að Vatnajökulsþjóðgarði sé stýrt af fjórum svæðisráðum og stjórn. „Í hverju svæðisráði og stjórn eru fulltrúar sveitarfélaga auk fulltrúa ýmissa hagsmunashópa, s.s. umhverfisverndarsamtaka, útivistarfélaga og ferðaþjónustunnar. Nytjaréttarhafar eiga þar engan fulltrúa þrátt fyrir að það sé eini hagsmunahópurinn sem hefur lögvarinn rétt á nýtingu. Ég hef ekki fengið skýringu á því hvers vegna svo sé.“
Guðrún segir að ef horft sé til þeirra lykilþátta sem settir eru fram í tengslum við áskoranir og tækifæri sem tengjast friðlýsingu þá fjallar einn þeirra um mikilvægi trausts og annar um aðkomu nærsamfélaga, sem er að hennar mati viðkenning á stöðu heimamanna.
„Traust á milli hinna ýmsu hagaðila og stjórnvalda hefur á stundum ekki verið nægjanlegt vegna áforma um friðlýsingar eða innleiðingar á regluverki, gjaldtöku eða uppbyggingu innviða.
Vinna þarf að því að byggja upp traust til að ná góðri sátt á milli allra sem koma að friðlýstum svæðum, þar með talið þeirra sem hafa umsjón með friðlýstum svæðum, landeigenda, þeirra sem nýta sér þau í atvinnuskyni, þeirra sem vilja njóta svæðanna, þeirra sem eiga þar óbein eignaréttindi og annarra hagaðila.“
Virða ber lögvarinn rétt
Annað sem er mikilvægt í skýrslunni að sögn Guðrúnar og snýr að bændum er að í henni kemur fram að virða beri rétt nytjarréttarhafa við friðun lands enda oft skapast talsvert ströggl um orðalag þrátt fyrir óbeinan nytjarétt og úrskurð óbyggðanefndar um það.
„Samspil ákvæða náttúruverndarlaga og annarrar löggjafar á því sviði er oft og tíðum óljóst. Á þetta t.d. við um sérlög um Vatnajökulsþjóðgarð, Þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndarsvæði Mývatns og Laxár og verndarsvæði Breiðafjarðar. Jarðvangar heyra ekki undir lög um náttúruvernd heldur heyra undir verkefni íslensku UNESCO nefndarinnar og ráðuneyti menningarmála.
Vinna þarf að því að samræma og endurskoða löggjöf á sviði náttúruverndar. Skoða ætti kosti og galla þess að fella jarðvanga undir svið umhverfismála á landsvísu.“
Þar segir einnig: „Friðlýsingarskilmálar geta verið íþyngjandi. Huga þarf að málefnalegum rökum fyrir ákvæðum skilmálanna.
Mikilvægt er að huga vel að orðalagi friðlýsingarskilmála. Ef markmiðum friðlýsingar er ekki beint að því að banna ákveðnar athafnir sem fjallað er um í skilmálunum gæti texti skilmálanna vísað í almenn lög um takmarkanir þessara athafna í stað þess að tiltaka að athafnirnar séu óheimilar.“
Þá segir enn fremur: „Með nytjarétti er átt við rétt til grasnytja og veiðinytja, þann rétt hafa bændur sem hafa rétt til að nýta upprekstur á afrétti. Vegna þessa réttar hafa bændur víða um land sinnt svæðunum vel með margs konar innviðauppbyggingu og landgræðslu.“
Mikið starf óunnið
Samkvæmt lögum á tillaga að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýst svæði að liggja fyrir innan tólf mánaða frá gildistöku friðlýsingar.
Á Íslandi eru rúmlega 130 friðlýst svæði. Í skýrslunni kemur fram að haustið 2022 sé búið að gera stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir 33 friðlýst svæði og að fjórar þeirra séu fallnar úr gildi, níu eru í vinnslu en að slíkar áætlanir séu ekki til staðar fyrir 76 svæði.
Guðrún segir að í vinnu nefndarinnar hafi komið í ljós að það hafi verið gerð margs konar mistök þegar hugmyndin um hálendisþjóðgarðinn var sett fram og að það hefði þurft að standa öðruvísi að framkvæmdinni svo um hana gæti ríkt sátt.
„Nefndin lét framkvæma skoðanakönnun í tengslum við skýrsluna og studdist nefndin við hana við gerð skýrslunnar en þar kom fram að 51% svarenda telja að friðlýsa eigi fleiri svæði, 66% eru fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum og 49% eru fylgjandi gjaldtöku fyrir aðgengi að helstu ferðamannastöðum á friðlýstum svæðum og þjóðgörðum. Þá telja 36% almennt vel staðið að verndun náttúru Íslands.“
Í skoðanakönnuninni kom einnig fram að 64% svarenda eru fylgjandi því að bæta eigi vegi og aðgengi inn á hálendið.