Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Starfsfólk Ístex að huga að spuna á nýju spunavélinni Kátínu.
Starfsfólk Ístex að huga að spuna á nýju spunavélinni Kátínu.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 3. júní 2024

Nýtt handprjónaband seldist upp á 30 sekúndum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ístex hóf nýverið sölu á handprjónabandinu Fjallalopa, sem er hið fyrsta í sögu félagsins undir Lopa-vörumerkinu sem er úr íslenskri ull. Fyrstu þrjú tonnin sem framleidd voru seldust upp á 30 sekúndum.

Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex.
Mynd / smh

Sigurður Sævar Gunnarsson framkvæmdastjóri segir að fyrstu viðtökur hafi verið frábærar og framhaldið lofi góðu. Fjallalopi sé fíngerður lopi sem henti vel í léttar flíkur, en hann hafi verið í þróun í þrjú ár. „Eitt markmiðið með framleiðslu á honum er að nýta betur mislitan annan flokk. Margir Fjallalopalitirnir eru í grunninn byggðir á mislitri ull. Þetta er þá lambsull, mislitur annar flokkur. Frekari framleiðsla á lopanum er áætluð í júní og júlí þannig að til verði góður lager fyrir haustið og veturinn.“

Fleiri prjónauppskriftir fyrir nýjan Fjallalopa

„Védís Jónsdóttir hannaði 28 fallega Fjallalopaliti. Við gerðum fyrstu framleiðslulotu á öllum litum í lok febrúar og mars,“ heldur Sigurður áfram. „Jafnframt höfum við verið að kynna bandið nú í vor á sýningum í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Þá munum við vera með bandið á Prjónagleðinni á Blönduósi 7.–9. júní. Nú er verið á fullu að hanna fleiri prjónauppskriftir og spennandi að sjá hugmyndaríkt og öflugt fólk koma með nýjar hugmyndir fyrir nýjan Fjallalopa. Prjónastofur hér eru einnig að þróa vörur úr honum.“

Védís Jónsdóttir á sýningu í Chicago í vor. Á myndinni má sjá flíkur úr nýjustu bók hennar, Skýjaborgir Lopi 43, ullarteppi og Fjallalopa.

Ullarmagn dróst ekki saman

Að sögn Sigurðar er sala á handprjónabandi enn að aukast og nú sé fimm prósenta aukning á milli ára í magni. „Hins vegar hefur taktur í pöntunum breyst svolítið. Nú er viðskiptavinur að leggja inn minni pantanir með fleiri litum en áður. Á móti kemur að það er oftar pantað. Þess vegna er það mikilvægt fyrir okkur að stækka lager til að eiga fleiri liti til taks til að afhenda sem hraðast.“

Þrátt fyrir fækkun sauðfjár varð ekki samdráttur í ullarinnleggi nú. „Ullarmagn dróst ekki saman á milli ára, sem eru góð tíðindi miðað við minnkun undanfarinna sjö ára. Enn er nóg ull fyrir framleiðslu á Lopavörunum, en aukin verkefni við annars flokks ull hefur hjálpað til við að vinna á móti minnkun fyrri ára. Þá hefur góð flokkun bænda í annars flokks sauðaliti hjálpað mikið til.

Sængursala tvöfaldaðist á seinasta ári og í raun fjórfaldaðist frá maí í fyrra á Íslandi þegar byrjað var með markaðsátak. Við búumst við frekari vexti á Íslandi og viljum gefa í á ákveðnum markaðssvæðum erlendis. Þá eru í þróun nýjar vörur sem stefnt er að byrja að selja síðar á árinu,“ segir Sigurður.

Þetta er nýja vélin sem nýtt er til að færa band frá hönkum yfir í kóna.
Sjálfbærni til verðmætasköpunar

„Sjálfbærni- og umhverfismál skipta Ístex miklu máli, þar sem það er nokkuð sem skiptir marga viðskipavini okkar talsverðu máli,“ segir Sigurður og útskýrir að með slíkri nálgun megi auka verðmæti íslenskrar ullar. „Sjálfbærniímynd Ístex er nátengd íslenskum bændum og hugtakinu um fjölskyldubúskap. Við það bætist að ull er náttúrulegt efni sem er meira og meira notað í fataframleiðslu og prjónaskap. Eins og landinn veit þá inniheldur ullin engin örplastefni, þarf minni þvott vegna bakteríumótstöðu og hefur þann eiginleika að anda og geta tekið til sín mikinn raka.

Við höfum nú þegar Oekotex 100-vottun um að engin af okkar vörum innihaldi hættuleg efni og Woolmark-vottun um að við notum nýja ull.

Nú í vor var okkur boðið að kynna nýjar vörulínur á tveimur virtum efnissýningum þar sem sjálfbærni var til umfjöllunar; í München í Þýskalandi og í Portland í Bandaríkjunum.“

Græn fjárfesting í þvottastöðinni

Á síðast ári lauk Ístex við stærstu grænu fjárfestingu í sögu félagsins. „Gamalli þurrklínu í þvottastöð á Blönduósi var breytt í stóra sjálfvirka þeytivindu og örbylgjuofn sem er rafknúið,“ segir Sigurður.

„Nýja þurrklínan sparar um fimm milljónir á ári í rekstrarkostnað með að spara um 120 til 130 tonn af brennsluolíu. Þetta samsvarar um 350 til 385 tonnum af CO2, eða rúmlega helmingi af öllum CO2 útblæstri Ístex. Með þessu losnum við líka við lyktarmengun og sót sem myndaðist við bruna á olíu á Blönduósi. Eftir þessar breytingar er Ístex ein af fáum ullarþvottastöðvum í heiminum sem gefa ekki frá sér CO2.

Jafnframt var sett upp skráningarkerfi um olíunotkun og CO2 útblástur fyrir allan akstur við ullarsöfnun í kringum landið. Helsta niðurstaða seinasta árs er að keyrðir voru um 54.000 kílómetrar sem losuðu um 55 tonn af CO2. Þessi gögn eru síðan notuð til að leita leiða til að spara og jafna út CO2 útblástur. Við vinnum með Laufinu til að halda utan um sjálfbærni- og umhverfismál félagsins.“

Ný framleiðslutæki

Ístex hefur nýverið ráðist í fleiri stórar fjárfestingar fyrir verksmiðjuna í Mosfellsbæ. „Við fengum þá okkar fyrstu nýju spunavél frá 1986. Þetta bæði eykur framleiðsluöryggi okkar og framleiðslugetu. Þá var fjárfest í vél sem færir band á hönkum yfir á kóna. Þessi vél gerir okkur kleift að nota gömlu dokkuvélina mun meira, sér í lagi á þynnri bandtegundum líkt og Léttlopa, Einbandi og nú Fjallalopa. Í raun lykilatriði svo hægt sé að bjóða upp á nýja bandtegund framleidda á Íslandi,“ segir Sigurður.

Hann segist að lokum vilja benda bændum á að opnað hafi verið á hlutafjárkaup fyrir þá í Ístex á genginu níu í gegnum ullarviðskipti líkt og gert var fyrir tveimur árum í gegnum Bændatorgið.

Umsvif Ístex hafa farið vaxandi undanfarin ár og starfa þar nú um 85 manns, þar af þriðjungur starfsfólks nýbúar frá 16 mismunandi löndum.

Skylt efni: Ístex

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...