Orð verði gjörðir tafarlaust
Í sögulegu samkomulagi sem hartnær 200 þjóðir heims náðu á COP28-loftslagsráðstefnunni er fjallað um jarðefnaeldsneyti.
Lengi var tekist á um endanlegt orðalag samkomulagsins en miklu þótti skipta að orðið jarðefnaeldsneyti næði inn í það, jafnvel þótt ekki sé talað um að hætta notkun þess, heldur er um að ræða að ríki heims leggi sig fram um að færa sig úr jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa með skipulögðum hætti. Þetta þykir risastórt skref fram á við þótt margir hafi viljað ganga enn lengra. Þá einkum varðandi að hætta alveg notkun jarðefnaeldsneytis í skrefum en mörg ríki, vísindamenn og félagasamtök höfðu knúið á um slíkt. Stærstu losunarríki heims, Kína og Bandaríkin, samþykktu að uppfæra langtímastefnu sína í orkumálum.
1,5 °C enn innan seilingar
Sultan al-Jaber, forseti þingsins, sagði sáttmálann grunn að miklum umskiptum, þar væru ýmis nýmæli og vísindi höfð að leiðarljósi. Fyrst og fremst væri enn innan seilingar að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 °C og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Hann minnti þó á að orð væru annað en gjörðir og undir það tók Simon Stiell, yfirmaður loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum, sem hvatti öll stjórnvöld og fyrirtæki til að umbreyta orðum í aðgerðir tafarlaust.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fagnaði samkomulaginu og sagði markmið Evrópu um að þrefalda endurnýjanlega orku og tvöfalda orkunýtingu fyrir árið 2030 væru nú sameiginlegt markmið alls heimsins.
Guterres svartsýnn
„Hvort sem ykkur líkar það betur eða verr er óhjákvæmilegt að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Við skulum vona að það verði ekki of seint,“ skrifaði António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á Twitter eftir að samkomulagið var í höfn.