Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri RML.
Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri RML.
Fréttir 18. apríl 2017

Ráðgjöf til bænda – nýjar áskoranir í breyttu umhverfi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er ungt fyrirtæki sem var stofnað árið 2013 við sameiningu allrar leiðbeiningaþjónustu búnaðarsambandanna og Bændasamtaka Íslands.

Fyrirtækið er í eigu Bænda­samtakanna og rekur það tólf starfsstöðvar vítt og breitt um landið. Þrátt fyrir að RML sé ungt að árum byggir ráðgjafarstarfið á sterkum grunni sem mótast hefur á áratuga langri reynslu áðurnefndra félaga.

Vignir Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að RML annist ráðgjöf og þjónustu til bænda á mjög breiðum grunni og geti aðkoma þeirra verið að nær öllum þáttum búrekstrarins.

„Starfsfólk er um 45 en nokkur fjöldi þess starfar í hlutastörfum og er býsna algengt að starfsfólkið starfi líka sem bændur eða hafi allavega mjög sterka tengingu við landbúnaðinn og búsetu í dreifbýli. Megnið af starfsfólki RML eru háskólamenntaðir einstaklingar sem flestir hafa hlotið menntun sína hjá Landbúnaðarháskóla Íslands en jafnframt eru nokkrir sem hafa menntun erlendis frá og þá einna helst á Norðurlöndunum.“

Aðkoma að öllum þáttum búrekstrar

„Kynbótastarfið er veigamikill þáttur í okkar ráðgjafarstarfsemi. Annars vegar snýr sú vinna að sameiginlegum verkefnum, svo sem utanumhaldi og þjónustu við skýrsluhald. Afurðir allra gripa, til dæmis gæði og magn mjólk- og kjötafurða, eru skráðar í sameiginlega gagnagrunna sem svo nýtast í kynbótastarfinu meðal annars við val á úrvalsgripum sem vænlegir þykja til að bæta bústofninn með tilliti til þeirra þátta sem aukið geta verðmæti afurðanna. Hins vegar er einstaklingsráðgjöf til bænda sem snýr að leiðbeiningum við val á ásetningsgripum og gerð pörunaráætlana.

Umfangsmikið starf fer fram í sauðfjárræktinni á hverju hausti þegar bændur er heimsóttir og lömb eru í þúsundavís mæld og stiguð eftir kúnstarinnar reglum. Á hverju ári eru um 70 til 75 þúsund lömb skoðuð. Bændur nýta sér svo þetta faglega mat ráðunautanna til að velja gripi til lífs með það að markmiði að bæta bústofninn.“

Áhersla á magn og gæði

„Í nautgriparæktinni hefur aðal­áherslan verið á að auka gæði og magn mjólkurafurða af hverjum grip. Nautakjötsframleiðslan hefur vissulega verið mikilvæg líka og aukin áhersla er nú á að bæta afurðir og afkomu í þeirri grein.

RML býður bændum upp á gerð pörunaráætlana eða sæðingaráætlana. Þessi þjónusta felst í því að ráðleggja bændum hvaða sæðinganaut skuli velja á hverja kú út frá kynbótaeiginleikum gripanna. Sæðingaráætlanir njóta vaxandi vinsælda meðal bænda enda má segja að það sé kostnaðarsamt að nýta ekki alla þá möguleika sem gefast til að flýta framförum í þeim gripum sem búin byggja afkomu sína á. Pörunaráætlanir í sauðfjárrækt eru einnig í boði en notkun á þeim leiðir til markvissara ræktunarstarfs í hjörðinni,“ segir Vignir.

Jarðrækt og áburðaráætlanir

„Ráðgjöf í jarðrækt og nýtingu fóðurs er einnig mikilvægur þáttur í okkar starfsemi. Áburðarkaup og heyöflun eru mjög fyrirferðarmiklir útgjaldaliðir í rekstri hefðbundins búskapar. Því skiptir verulega miklu máli að vanda vel til þessara þátta. Hér má nefna gerð áburðaráætlana sem sparað geta verulegar fjárhæðir í innkaupum og/eða aukið uppskerumagn og gæði fóðursins  sem er einn mikilvægasti þátturinn í því að ná hámarksafurðum og hagkvæmni í rekstri. Örfá prósent í betri nýtingu áburða geta talið í tugum og hundruðum þúsunda sparnaði og hagkvæmni á einu búi. Vaxandi eftirspurn er eftir gerð fóðuráætlana. Það á þó fyrst og fremst við meðal kúabænda. Hér getur verið eftir miklum fjárhagslegum ávinningi að slægjast  fyrir bóndann en ráðgjöfin felst í því að tekin eru sýni úr fóðurbirgðum búsins, heyforða, og þau greind með tilliti til næringarefnainnihalds. Í kjölfarið er gerð áætlun um notkun á kjarnfóðri, val á tegund og magni, með það að markmiði að auka verðmæti, fitu og prótein og magn mjólkurinnar á sem hagkvæmastan hátt.“

Nýsköpunarráðgjöf

Vignir segir að ráðunautar sinni rekstrarráðgjöf og áætlanagerð, nýsköpunarráðgjöf auk ráðgjafar á sviði bútækni og aðbúnaðar búfjár. „Hjá RML geta bændur fengið heildstæða ráðgjöf um reksturinn. Markmið starfsins er að greina og meta stöðu núverandi reksturs viðkomandi rekstraraðila og benda á styrkleika og veikleika í rekstri og jafnframt að veita heildstæða ráðgjöf til að ná enn betri árangri í núverandi rekstri. Á sama hátt er markmiðið að benda á nýja möguleika ef vilji er til þess að takast á við nýja atvinnustarfsemi eða þróa aðra atvinnustarfsemi samhliða þeim rekstri sem fyrir er á viðkomandi lögbýli. Vaxandi áhersla er á ráðgjöf tengda bútækni og aðbúnaði enda kröfur sífellt að aukast um velferð dýra.“

Kaflaskil í fjármögnun

Frá og með síðustu áramótum urðu kaflaskil í fjármögnun starfsemi RML. Bændur höfðu til þess tíma greitt búnaðargjald og rann hluti þess til reksturs RML. Nú hefur búnaðargjald verði aflagt en tekjur af því voru um þriðjungur heildartekna RML.

„Í Rammasamningi BÍ og ríkisins eru markaðir fjármunir til að koma til móts við þann hluta búnaðargjalds sem áður rann til leiðbeiningaþjónustu. Það framlag mun hins vegar lækka jafnt og þétt út samningstímann þar til það núllast út á tíu árum. Um þriðjungur af heildartekjum félagsins mun þar með falla út á þessu tímabili en því þarf þá að mæta með auknum sértekjum eigi félagið að halda úti sambærilegu umfangi. Það er því mikil áskorun fyrir okkur sem störfum hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins að bjóða upp á þjónustu og ráðgjöf sem er í senn áhugaverð og árangursrík og sem bændur sjá sér hag í að nýta sér.  Við þurfum og munum á næstu misserum leggja enn meiri áherslu á að kynna það mikla og faglega starf sem unnið er hjá RML og vonum að það mælist vel fyrir hjá okkar viðskiptavinum,“ segir Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri RML.

Skylt efni: Matvæla

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...