Rauðgrönótt kvíga fæddist á Syðri-Gróf 2 í Flóahreppi
Nýlega kom í bæinn mjög falleg hvít kvíga á bænum Syðri-Gróf 2 í Flóahreppi þar sem Elísabet Thorsteinsson og Axel Páll Einarsson eru bændur. Þau eiga börnin Lilju Maríu (9 ára) og Pál Axel (6 ára) og eiga svo von á öðrum strák í maí.
Á bænum eru 28 árskýr, 110 ær og 17 hross. Kvígan, sem hefur fengið nafið Ungfrú, er undan Mjallhvít 0684 og Kláus 14031.
„Við höldum mikið upp á þennan lit og hafa alltaf verið grönóttar kýr í fjósinu. Ungfrú er rauðgrönótt en áberandi mikið hvít eins og móðir sín. Okkur þykir gaman að geta viðhaldið þessum fallega lit í kúastofninum. Árið 2015 fór naut á nautastöðina frá okkur sem var svartgrönótt sem vakti mikla lukku litaglaðra bænda. Hann hét Grani. Það sem einkennir þessar kýr er að þær eru mjög skapgóðar,“ segir Elísabet.