Raunhæfar eða óraunhæfar kröfur til loftslagsmála?
Umræðan um úrbætur í losun „eiturefna“ út í loftslagið og náttúruna er alltaf háværari og háværari með hverju ári sem líður. Í síðustu viku funduðu G20-ríkin og enduðu á sameiginlegri yfirlýsingu um stuðning sinn við Parísarsamkomulagið frá 2015 um að halda hækkun meðalhitastigs jarðar undir 2 gráðum og að reyna að takmarka hana við 1,5 gráður.
Til að ná 1,5 gráðu markmiðinu þurfa öll ríki að draga úr útblæstri kolefnis um næstum helming fyrir árið 2030. Sumum finnst þessi markmið illvinnandi og næstum ógerleg og hafa ekki trú á að þetta takist (þ.á m. er Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands).
Loftlagsráðstefna Sameinu þjóðanna COP21
Um 50 manna sendinefnd frá Íslandi sat ráðstefnu SÞ í Glasgow nú um mánaðamótin. Það vakti furðu mína hversu margir hefðu verið þarna fyrir Íslands hönd, en samkvæmt mínum heimildum er CO2 losun Íslendinga alls 0,00014% af losun í heiminum öllum. Miðað við að 50 manns séu á þessari ráðstefnu til að verja eða afsaka okkar 0.00014% losun og ef önnur lönd eru með sambærilegan fjölda fulltrúa miðað við % í losun, ætti þessi fundur að vera ansi fjölmennur. Sennilega ekki óábyrgt að segja eða áætla tölu á milli 400- til 700.000 manns (ef einhver nennir að reikna út frá jöfnu sem sett væri upp svona: 0,00014% = 50 manns þá væri fjöldi Bandaríkjamanna sem menga 20,2% á fundinum XXX margir). Svona margir fljúgandi út á fund í svona mikið margmenni í vaxandi Covid-19 bylgju.
Talandi um Covid þá er vaxandi smitfjöldi orðinn áhyggjuefni eina ferðina enn. Fróðlegt væri að fá að vita hvort einhver af þessum 50 Íslendingum hafi náð að krækja í Covid-smit á fjölmenna fundinum í Skotlandi og borið með sér yfir hafið.
Vissulega geta Íslendingar verið stoltir af árangri
Fáar þjóðir í heiminum eru að kaupa eins marga vistvæna bíla og Íslendingar. Þann 1. október voru tæplega 15.000 nýir bílar seldir það sem af er ári á Íslandi og af þeim um 2/3 vistvænir (1/5 100% rafmagnsbílar).
Íslendingar eru hvattir áfram í að versla vistvæna bíla af því að bensí og dísilbílar menga svo mikið. Þrátt fyrir alla þessa mengun frá bílunum okkar er ekki nema 6% af þessari 0,00014% losun CO2 á Íslandi frá bílunum okkar (sem gerir 0,000084% á alheimslistanum).
Það sem vantar að mínu mati er meiri áhersla á að skila til baka út í andrúmsloftið betri loftgæðum með gróðursetningum samanber verkefnið „Bændur græða landið“, eða að planta trjám í staðinn fyrir það sem bensín- og dísilmótorar menga.
Mörg verkefni í skógrækt fjársvelt og fá litla athygli
Rafmagnsbílar er ekki raunhæf lausn við að skipta út öllum bílaflotanum. Það eru heldur ekki í boði rafmagnstæki eða annar vistvænn kostur sem hentar öllum. Það dugar ekki að skammast yfir notkun á dísil- og bensínmótorum án þess að benda á raunhæfar lausnir í staðinn. Umræðan er orðin of öfgafull og neikvæð í landi sem legu sinnar vegna getur ekki enn komist hjá því að vera með stóran hluta vinnuvéla og flutningsmáta sem knúin er af jarðeldsneytismótorum.
Til að mæta þessu væri hæglega hægt að vinna á móti menguninni með því að planta trjám og græða upp land til að kolefnisjafna notkunina á þessum mótorum.
Tel mig vita að bæði frjáls áhugamannasamtök, einstaklingar og opinberar stofnanir sem stunda skógrækt, fái ekki þann stuðning, athygli og fjármögnun sem þeir ættu skilið í baráttunni við loftslagsvandann. Samt eru þessir hópar að vinna gegn loftslagsvanda með sinni gróðursetningu.