Reisa á tíu nýjar vindmyllur fyrir fimm milljarða króna
„Ef af þessu yrði þá er þetta auðvitað heilmikil framkvæmd, áætlun upp á 5 milljarða, þannig að enginn fer af stað með slíkt nema með vönduðum undirbúningi,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, en nú stendur til að setja upp vindmyllugarð í Þykkvabænum á vegum fyrirtækisins Biokraft.
„Íbúafundur í Þykkvabænum 8. desember var auðvitað liður í því. Umræður á fundinum voru m.a. um mögulegt staðarval, umhverfisáhrif, stærð fjárfestingar, nýtingu raforkunnar og áhrif á atvinnu- og efnahagslíf á svæðinu. Það sem flestum finnst skipta mjög miklu máli er hvort þessi fjárfesting myndi skila íbúum á svæðinu bættum kjörum. En það er auðvitað ljóst að ekkert fer af stað nema íbúar séu þessu almennt fylgjandi og sjái í þessu framfarir.“
Fyrirtækið setti upp tvær myllur í Þykkvabænum í sumar sem hafa gefist mjög vel og framleiða rafmagn inn á landskerfið. Orkuframleiðsla nýju vindmyllanna verður þrjátíu og fimm megawött, eða hundrað og fimmtíu gígavattsundir á ári.
„Vindmyllurnar verða miklu stærri en núverandi myllur, eða allt að áttatíu og fimm metra háar og vænghafið verður um hundrað og tólf metrar. Vegna stærðar verkefnisins þarf það að fara í umhverfismat. Við vonumst til að allar nýju vindmyllurnar verði komnar upp 2017,“ segir Snorri Sturluson, framkvæmdastjóri verkefnisins.