Sama stjórn heldur áfram hjá Samtökum smáframleiðenda matvæla
Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) héldu sinn fyrsta aðalfund þann 21. apríl í gegnum fjarfundabúnað. Samþykktir eru óbreyttar eftir fundinn og fékk stjórnin umboð á fundinum til að halda áfram.
Að sögn framkvæmdastjóra samtakanna, Oddnýjar Önnu Björnsdóttur, gekk fundurinn snurðulaust fyrir sig, en fundarstjórn var í höndum Sveins Margeirssonar. Hún fór á fundinum yfir skýrslu um störf samtakanna og rekstrarreikning frá stofnun í nóvember síðastliðnum og fram að fundardegi, en hún er aðgengileg á nýjum vef samtakanna. Á fundinum fór hún einnig yfir vefinn; innihald hans og virkni.
Félagsgjöld fyrir árið 2020 eru 10.000 krónur fyrir fulla aðild og 5.000 fyrir auka aðild eins og samþykkt var á stofnfundinum.
Stjórn SSFM skipa áfam þau Karen Jónsdóttir formaður og Svava Hrönn Guðmundsdóttir varaformaður og meðstjórnendurnir Guðný Harðardóttir, Þórhildur M. Jónsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson og verður stjórn áfram ólaunuð. Í varastjórn sitja einnig áfram þau Ólafur Loftsson fyrsti varamaður og Auður B. Ólafsdóttir annar varamaður.