Samdráttur í kornræktinni
Höfundur: smh
Allt útlit er fyrir að nokkur samdráttur verði í kornræktinni á Íslandi á þessu ári.
Bændablaðið leitaði til ráðunauta á helstu kornræktarsvæðum landsins og kannaði í gegnum þá hug kornbænda til komandi sumars.
Ýmsir áhrifaþættir varðandi ákvörðun um samdrátt
Óli Kristinn Ottósson, kúa- og kornbóndi á Eystra-Seljalandi undir Eyjafjöllum, segir að hann ætli verulega að draga saman seglin. Í fyrra voru 100 hektarar undir kornrækt hjá Óla Kristni en í ár verða þeir ekki nema 16. Nokkrar ástæður eru fyrir samdrættinum, helstar þó að álftir og gæsir hafa verið gríðarlega ágengar á síðustu árum. Svo hafa forsendur fyrir sölu á korni hér innanlands brugðist vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði, að sögn Óla Kristins, þannig að eftir stendur lítið nema tapið.
„Mér finnst svakalega lélegt að við kúabændur séum ekki styrktir til jafns við svínabændur á alla hektarana. Álftin hefur verið stórtækust hér og í fyrra hugsa ég að hún hafi tekið alveg af tíu hekturum hjá mér í restina.“
Að sögn Óla Kristins ætla sumir nágranna hans að hætta alveg og enn aðrir minnka töluvert við sig – og rækta í raun kornið bara til að ná hálminum.
Annars staðar á Suðurlandi virðist sömuleiðis ætla að verða einhver samdráttur – sérstaklega vestan Eyjafjalla – og svo í Skagafirði.
Almennt eru bændur um hálfum mánuði seinna á ferðinni með sáningu vegna tíðarfars.
Sjá nánar um stöðu og horfur á helstu kornræktarsvæðunum á blaðsíðu 28 í nýju tölublaði Bændablaðsins.