Samið verði um framkvæmdir og fjármögnun fráveitumála
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, hefur skorað á umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttur, að semja við sveitarstjórn Skútustaðahrepps um framkvæmdir og fjármögnun fráveitumála í sveitinni.
Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Fjöreggs fyrr í þessum mánuði er jafnframt bent á að brýnt sé að tryggja fé og aðstöðu til að bæta vöktun og efla rannsóknir á verndarsvæðinu.
Markmið Fjöreggs eru verndun náttúru og umhverfis Mývatnssveitar, sjálfbær umgengni sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja.
Félagið vinnur að markmiðum sínum með fræðslu, hvatningu og umræðu um náttúruverndarmál.
Fyrsta málþing Fjöreggs var um fráveitumál en einnig hafa verið haldin málþing um jarðvarmavirkjanir og sambýli ferðamanna og íbúa í sveitinni, auk fjölda fræðslufunda um lífríkið og ástand þess, aðkomu almennings að skipulagsmálum og fleiri mál tengd markmiðum félagsins.