Samræmt söfnunarkerfi
Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu sem flokkast í áhættuflokk 1, með það að markmiði að koma þessum málum í viðeigandi úrvinnslu eða förgun.
Verkefnið er sett af stað af frumkvæði matvælaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis í samstarfi við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA sem og úrskurði EFTA dómstólsins um að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum varðandi frágang á þessum dýra- leifum. Gert er ráð fyrir að tillagan verði tilbúin í byrjun sumars.
Í tilkynningu frá ráðuneytunum kemur fram að aukaafurðir úr dýrum flokkist í þrjá áhættuflokka sem segja til um meðhöndlun svo tryggja megi öryggi lokaafurðar og leyfilega notkun hennar. Blandist efni úr áhættuflokkunum saman falli öll blandan í sama áhættuflokk og áhættamesta efnið í blöndunni er flokkað í. Almenna reglan sé sú að ábyrgðin á frágangi dýraleifa sem úrgangs liggi hjá þeim rekstraraðilum þar sem úrgangurinn fellur til.
Sveitarstjórnir bera svo ábyrgð á fyrirkomulagi söfnunar á þessum úrgangi og viðeigandi farvegi, auk þess að þurfa að sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir dýraleifarnar. Sérstakar reglur gilda um hræ af dýrum sem felld eru að fyrirskipun stjórnvalda til að hindra útbreiðslu sjúkdóma og ber ríkið þá ábyrgð.
Tillagan verður unnin í samstarfi við finnska ráðgjafarfyrirtækið GMM með fyrirmyndir frá Finnlandi og Noregi.