Sauðburður í október í Hörgársveit
„Nei, ég átti nú alls ekki von á sauðburði í október en svona getur þetta stundum verið í sveitinni, þetta er bara skemmtilegt og gefur lífinu lit,“ segir Birgitta Lúðvíksdóttir, sauðfjárbóndi á bænum Möðruvöllum 3 í Hörgársveit, en ærin Dúdda bar þar nýlega tveimur fallegum lömbum.
„Þegar við vorum að fara yfir ærnar nýlega þá átti þessi ær að fá lit fyrir sláturfé. Hún var geld í vor og átti þess vegna ekki að fá líf. Ég tók undir hana og fann að það var komið mikið júgur. Ég hélt samt að hún mundi ekki bera fyrr en eftir viku til hálfan mánuð. Þegar við fórum í fjárhúsið daginn eftir þá var hún að bera. Það var bara haus sem kom og hann var orðinn bólginn og kaldur, en lambið á lífi. Ég komst inn með hálsinum og náði öðrum fætinum og tók það þannig út.
Við vorum smá tíma að koma því af stað, en það tókst. Ég þurfti að ná í hitt lambið, því hausinn lá niður með. Það tókst vel og þeim heilsast vel en lömbin eru bæði gimbrar,“ segir Birgitta alsæl í sveitinni sinni.