Sauðfé fækkað í haust
Matvælastofnun hefur samið við bændur á sauðfjárbúi í Þverárhlíð í Borgarfirði um að fækka fénu niður í nokkra tugi.
Mikil umræða hefur verið um sauðfjárhald á umræddum bæ í Þverárhlíð undanfarin misseri þar sem vakin hefur verið athygli á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum að aðbúnaður dýranna sé ekki til fyrirmyndar. Aðkoma Matvælastofnunar (MAST) hefur verið gagnrýnd og stofnunin vænd um að sinna ekki skyldum sínum. Af því tilefni sendi MAST frá sér fréttatilkynningu þar sem tekið er fram að stofnunin fylgist vel með málinu og fari starfsmenn oft í eftirlit til að fylgja eftir kröfum um úrbætur.
Þar segir að séð sé til þess að kindurnar fái nægt fóður og heilnæmt vatn. Jafnframt séu lömbin merkt, ám og lömbum gefin ormalyf og lömb meðhöndluð við skitu ef þörf er á. Þá sé féð fært í annað hólf að því loknu. Stofnunin hefur gert kröfu um að ábúendur ráði til sín þrjá starfsmenn til að tryggja velferð dýranna. Jafnframt hafa ábúendur samþykkt með skriflegum hætti kröfu MAST um að fækka fénu niður í nokkra tugi í haust.