Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sauðfé – allt nýtt nema jarmið
Á faglegum nótum 23. september 2016

Sauðfé – allt nýtt nema jarmið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sauðfé er fyrsta dýrið sem maðurinn elur sér til matar og hefur fylgt honum í ellefu aldir og í dag telur sauðfé í heiminum rúman milljarð. Leiddar hafa verið að því líkur að án sauðkindarinnar hefði íslenska þjóðin ekki lifað af harðindi fyrri alda.

Samkvæmt tölfræði Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAOSTAD, mun alið sauðfé í heiminum telja rúman milljarð. Mestur er heildarfjöldi þess í Kína, tæpir 200 milljón hausar, og tæp 20% af heildarfjöldanum. Indland er í öðru sæti þegar kemur að fjölda sauðfjár, um 80 milljón, Ástralía fylgir fast á eftir með tæplega 80 milljón ær. Súdan og Íran eru í fjórða og fimmta sæti með um 53 milljónir fjár hvort land. Næst koma Nígería með um 36 milljónir, Nýja-Sjáland 32 milljónir, Bretlandseyjar 31 milljón og Pakistan og Eþíópía bæði með um rúmlega 26 milljónir fjár. Reyndar er ekki alveg að marka tölurnar frá Nígeríu, Pakistan og Eþíópíu þar sem sauðfé og geitur eru taldar saman.

Vetrarfóðrað sauðfé á Íslandi veturinn 2015 til 2016 var 474 þúsund en í sumarbeit 2016 um ein milljón fjár.

Lambakjötsneysla er útbreidd um allan heim. Mest er hún af magni í Kína, löndunum við Persaflóa og í Mið-Austurlöndum, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Grikklandi, Úrúgvæ, Bretlandseyjum og Írlandi. Neysla á lambakjöti í Bandaríkjunum er innan við 500 grömm á mann á ári.

Meðalneysla kindakjöts á mann á ári er mest í Mongólíu og á Íslandi, um 20 kíló.

Heimsverslun með lambakjöt

Kína, Ástralía og Nýja-Sjáland voru þau lönd í heiminum sem framleiddu mest af lambakjöti árið 2013.

Ástralía og Nýja-Sjáland eru langstærstu útflytjendur lambakjöts í heiminum með um 68% markaðshlutdeild samanlagt. Bretlandseyjar eru þriðji stærsti útflytjandinn með um 9% markaðarins. Því næst koma Írland, Spánn og Úrúgvæ. Útflutningur á lambakjöti frá Íslandi árið 2015 var 2620 tonn en 5445 tonn af sauðfjárafurðum í heild.

Helstu innflytjendur lambakjöts í heiminum eru Kína, Frakkland, Bretlandseyjar, Bandaríkin og Sádi-Arabía. Sé litið á Evrópusambandið sem heild er það í öðru sæti sem stærsti innflytjandi lambakjöts í heiminum.

Spár gera ráð fyrir að ræktun, viðskipti og neysla á lambakjöti í heiminum eigi eftir að aukast á næstu áratugum.

Ættkvíslin Ovis

Sauðkindur eru ferfætt klauf- og jórturdýr sem fylgt hafa manninn í rúm tíu þúsund ár og fyrsta dýrið sem maðurinn elur sér til matar. Sauðfé er annað húsdýrið á eftir hundinum og fyrstu grasbítarnir sem maðurinn hóf ræktun á.

Fræðimenn eru ekki á sama máli um uppruna alinna sauðkinda. Sumir telja að upprunans sé að leita í villifé sem lifði á Balkanskaga og austur í Kákasus en aðrir að hlutur amerísku kynjanna sé þar meiri en almennt er viðurkennt. Fornleifarannsóknir benda til að frumfé hafi verið hyrnt, lágfætt og með rauðleita ull með svörtum og hvítum strípum og ljósan kvið.

Í dag er sauðfé skipt í átta tegundir sem allar teljast til ættkvíslarinnar Ovis.

Nánasti afkomandi frumkindarinnar kallast O. vignei og finnst í Kákasusfjöllum. Síberískar villikindur sem stundum kallast snjókindur flokkast sem O. nivicola, evrópskar villikindur kallast O. musimon, en asískar O. orientalis. Villt fé sem finnst í norðvesturhluta Bandaríkjanna kallast O. dalli og stórhyrndar villikindur í Norður-Ameríku O. canadensis. Í afskekktu héraði í Nepal finnst sjaldgæf tegund fjallakinda sem kallast O. ammon.

Tamið sauðfé, O. aries, sem við þekkjum best, skiptist í fjölda sauðfjárkynja. Dæmi um sauðfjárkyn eru Acipayam-fé í Tyrklandi, Arapwa á Nýja Sjálandi, Bond í Ástralíu, Kikta í Ungverjalandi, Dalfé í Svíþjóð, Hanzhong í Kína, Rahmany í Egyptalandi, Van Rooy í Suður-Afríku og íslenska fjárkynið.

Nytjar af sauðfé

Rannsóknir benda til að sauðfé hafi fyrst verið haldið 9.500 árum fyrir upphaf okkar tímatals á svæði sem í dag er Íran og Írak. Beinaleifar sýna að skipuleg ræktun og kynbætur á sauðfé hefjast 2.500 árum síðar af kornyrkjumönnum í fjallahéruðum Kúrdistan. Útbreiðsla sauðfjár er hröð eftir það og stuttrófufé orðið algengt og víða undirstaða dýrahalds í Mið- og Norður-Evrópu tólf hundruð árum fyrir Krist.

Tamið sauðfé barst til Suður-,  Mið- og Norður-Ameríku og til Ástralíu og Nýja-Sjálands við landnám Evrópubúa þar. Elstu minjar um sauðfjárhald í Noregi eru frá því um 3000 fyrir Krist.

Sauðfé er í dag ræktað í nánast öllum löndum heims og nytjar af því eru margvísleg en aðallega kjöt, mjólk og ull. Auk þess sem sauðatað er nýtt sem eldiviður, gæran til sauma og bein og horn í skrautmuni.

Ull af sauðfé er mest nýtta dýraafurð til vefnaðar í heiminum enda verið ómetanlegt efni í fatnað í köldu loftslagi. Rómverjar töldu sauðkindina standa öðrum húsdýrum framar vegna ullarinnar.

Ærin Dolly

Vel er við hæfi að fyrsti grasbíturinn sem gerður var að húsdýri hafi einnig verið fyrsta skepnan sem var klónuð. Árið 1996 bar ær fyrsta klónaða lambinu og fékk það nafnið Dolly í höfuðið á sveitasöngkonunni Dolly Parton. Ástæðan nafnsins mun vera sú að fruman sem kindin Dolly er klónuð af mun hafa verið tekin úr júgri og á þeim tíma munu fáar konur hafa státað af jafn framstæðum og myndarlegum mjólkurkirtlum og söngkonan góða.

Ánni Dolly var lógað 2003 eftir alvarleg veikindi. Hún bar samtals sex lömbum eftir að hafa verið þrisvar sinnum tvílembd.

Líffræði og atferli

Sauðfé er fremur smávaxið húsdýr. Mörg kyn eru annaðhvort hyrnd eða kollótt og stjórnast það 100% af erfðum. Hornin eru yfirleitt tvö en geta verið fjögur og jafnvel fleiri en í sumum tilfellum vantar þau alveg og kallast slíkt fé kollótt. Kindur með mjög lítil horn kallast hnýflóttar.

Litur ullarinnar er breytilegur eftir kynjum og allt frá því að vera hvítur yfir í dökkmórauður og svartur.

Hæð og þyngd gripa er mismunandi eftir kyni og sauðfjárkynjum. Fullvaxnir hrútar geta verið frá 35 og upp í 180 kíló en ær frá 30 og upp í rúm 100 kíló. Fjöldi tanna í fullvöxnu fé er 32. Fé notar framtennur í neðri góm til að bíta gras en jaxlana til að tyggja það. Kindur eru á beit frá sólarupprás til sólseturs en hvíla sig oft yfir daginn til að jórtra og melta fæðuna. Sauðfé hefur engar framtennur í efri góm.

Kindur hafa góða heyrn og gott þefskyn og finna lykt með nefinu og litlum þefkirtlum sem eru neðan við augun á þeim.

Sjónsviðið er vítt og spannar frá 280 að 320 gráðum og geta þær því séð aftur fyrir sig án þess að snúa höfðinu. Dýpt sjónarinnar er líka góð en þær sjá illa í myrkri. Talið er að kindur sjái svartan, hvítan og brúnan lit og geti greint milli rauðra, grænna og gulra litatóna.

Líkt og hjá flestum hjarðdýrum er eitt karldýr ríkjandi yfir hópi kvendýra og innan hópsins er rík goggunarröð. Kindur í hópum strjúka sér iðulega saman og er það talið auka samheldni hjarðarinnar og gefa til kynna stöðu einstakra dýra innan hópsins. Villt sauðfé fylgir forystudýrinu af tryggð og heldur sig við hópinn sem ferðast milli beitilanda eftir árstíma og sækir á sömu svæðin ár eftir ár.

Eitt af sérkennum íslenska fjárins er að það hefur nánast enga hjarðhegðun.

Kjörbeitiland fyrir sauðfé er þar sem gróðurfar er fjölbreytt en þar sem féð bítur gróðurinn mjög nærri sverðinum er hætt við ofbeit þar sem gróður er viðkvæmur.

Sauðfé er fótvisst og hefur tilhneigingu til að leita upp í móti sé það áreitt eða komi að því styggð.

Meðganga og burður

Hrútar nota lyktarskynið til að vita hvenær kindur eru blæsma og fýla oft grön við slíkt tækifæri. Erlendar rannsóknir benda til að um 8% hrúta sýni samkynhneigð, einkum í hrútahópum, en oftast virðist atferlið tímabundið því að flestir þeirra sinna ám með eðlilegum hætti þegar að fengitíma kemur.

Fengitími flestra sauðfjárkynja er árstíðabundinn. Hjá villtu sauðfé verða gimbrar kynþroska sex til átta mánaða gamlar en lambhrútar fjögurra til sex mánaða. Kynþroski getur tekið lengri tíma hjá öldu fé og dæmi um að það verði ekki kynþroska fyrr en á tuttugasta mánuði.

Gangferill áa er 15 til 19 dagar en venjulega 16 til 17 dagar hjá íslenskum ám. Hrútar berjast sín á milli um fengitímann með því að taka tilhlaup og stangast kröftuglega og vinnur yfirleitt hrúturinn með stærstu hornin.

Meðganga tekur tæpa fimm mánuði og burður einn til þrjá klukkutíma og eru ær yfirleitt ein- eða tvílemdar þrátt fyrir að þrí-, fjór- fimm- og upp í áttlembdar ær þekkist. Eftir að ær karar lamb stendur það fljótlega á fætur og fer á spena og er farið að fylgja móðurinni innan við klukkustund eftir burð.

Líftími villts sauðfjár er að jafnaði tíu til tólf ár en vitað er um kindur sem hafa náð ríflega tuttugu ára aldri. Líf eða endingartími eldisfjár er yfirleitt lægri.

Fé í trúarbrögðum

Hauskúpur af hrútum fundust við uppgröft á 9.000 ára gömlum mannvistarleifum í Çatal Höyük í Tyrklandi og af egypskum steinristum að dæma var guðinn Amon Ra með hrútshöfuð.

Hermes sonur Seifs og Maiu var sendiboði guðanna og guð frjósemi í grískri goðafræði. Hann var verndari búfénaðar og sérstaklega sauðfjár.

Samkvæmt Gamla testamentinu er sauðfé í mikilvægu hlutverki við fórnarathafnir gyðinga eins og þegar páskalambinu er fórnað. Í Mósebókunum er oft minnst á lömb í tengslum við fórnir og þar segir meðal annars: „Þeir skulu taka dálítið af blóðinu og rjóða því á báða dyrastafina og dyratréð í húsunum þar sem þeir eta lambið.“ (12:7) „Drottinn sagði við Móse og Aron: „Þetta er ákvæðið um páskalambið: Enginn útlendingur má eta neitt af því“ (12:43). „Öðru lambinu skaltu fórna að morgni en hinu um sólsetur.“ (29:39) Orðið lamb kemur einnig oft fyrir í líkingamáli Opinberunarbókarinnar. „Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðunni og það hafði tvö horn lík lambshornum en það talaði eins og dreki.“ (13:11). „Þetta eru þeir sem ekki hafa saurgast með konum. Þeir eru skírlífir. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir úr hópi manna sem frumgróði handa Guði og lambinu.“ (14:4).

Angnus Dei stendur fyrir lamb Guðs eða Jesú Krist. Hrúturinn er eitt að stjörnumerkjum dýrahringsins og oft finnst úlfur í sauðargæru.

Sauðfé á Íslandi

Við landnám fluttu nýbúar á Íslandi með sér búfé til landsins og þar á meðal sauðfé. Í fyrstu er talið að sauðfé hafi verið fátt í landinu og það gengið sjálfala allt árið. Íslenska sauðfjárkynið heyrir til norðurevrópska stuttrófufjárins og skyldast landkynjum í Noregi, Færeyjum og eyjunum norðan Skotlands.

Þótt fé af öðrum kynjum hafi verið flutt inn frá Danmörku, Skotlandi og Þýskalandi á 18., 19. og 20. öld urðu áhrif þess á eiginleika íslenska fjárins lítil sem engin.

Þrátt fyrir að 80 til 85% íslenska fjárins sé hvítt er litafjölbreytni í stofninum mikil. Má þar nefna liti og litasamsetningar eins og gulan, svartan, gráan og dökkgráan, mórauðan, grámórauðan og golsótt. Kindur geta verið móbotnóttar, svarhálsóttar, flekkóttar, blesóttar, móarnóttar, golbílóttar, mókrúnóttar, móarnhosóttar og svarleisóttar.

Ull íslenska landnámskynsins er gerð úr tveimur hárgerðum, þeli og togi. Togið er breytilegra en þelið og það því oft lengra. Tóvinna var víða til sveita aðalvetrarstarf fólks. Fyrst var ullin þvegin en síðan táin, kembd og spunnin á snældu. Úr bandinu var prjónaður eða ofinn klæðnaður og teppi.

Milli 70 og 75% fjárins er hyrnt og jafnvel ferhyrnt sem er orðið sjaldgæft í heiminum.

Þungi íslenskra áa er 60 til 70 kíló en hrúta 90 til 100 kíló. Íslenskt fé verður snemma kynþroska, er frjósamt og fæðir hver ær 1,8 lömb að meðaltali og marglembingar að sex lömbum þekkt. Fé af Þoku- og Lóustofnum er þekkt fyrir mjög mikla frjósemi.

Forystufé

Forystuféð barst til landsins með landnámsmönnum. Slíkt fé er eingöngu til hér á landi en fyrr á tímum var það sennilega til víðar. Hér hefur það viðhaldist vegna þess að hér voru not fyrir sérstæða eiginleika þess í beitarbúskapnum. Í dag skilur þetta forystufé sig það mikið frá hefðbundnu íslensku fé að réttast er að skilgreina það sem sérstakt fjárkyn.

Veðurspár, heilastappa og endagörn

Þakkirnar sem sauðkindin hefur fengið fyrir að hafa haldið lífinu í þjóðinni í harðærum gegnum aldirnar er samheiti yfir heimsku og aulahátt. Enginn vill vera kallaður sauður, vera kindarlegur eða hrútheimskur.

Þrátt fyrir þessa neikvæðni hefur skepnan verið einstaklega vel nýtt og það ekki eingöngu til matar. Garnir og milta voru notaðar til að spá í veður og fyrir fólki, auk þess sem garnirnar voru þurrkaðar og notaðar í fiðlu- og hörpustrengi og sem rokksnúrur og smokkar utan um bjúgu. Margir trúðu að lungu, steikt eða soðin, og étin á tóman maga væru óbrigðult ráð móti áfengissýki. Hlandblaðran úr hrútum var notuð til að spá fyrir veðri og úr henni voru búnar til skjóður og stundum var hún þurrkuð og gerð að leikfangi. Tólgarkerti eru búin til úr bræddum mör.

Til matar þótti hjartað, nýrun og lifrin herramannsmatur og lifrarpylsa var búin til með því að setja hakkaða lifur í vinstrina og sjóða. Úr heilanum var búin til heilastappa. Lungun voru hökkuð og ásamt mör sett í langa, e.k. pylsu, síðan reykt og kallað grjúpán. Mör var og er enn notaður í slátur- og bjúgnagerð og var vömbin saumuð utan um slátrið. Blóðmör er að miklu leyti búinn til úr blóði og blóðgrautur er gerður úr blóði, hveiti og vatni. Hrútspungar og kindajúgur voru sett í súr og borðuð.

Endagörnin var rist upp og skafin og síðan saumuð inn í þind ásamt lundunum sem eru neðan á hryggnum. Ristillinn var notaður í lundabagga. Ruslabaggi var gerður úr görnum, milta, brisi og afgöngum sem sett voru í þind og hún saumuð saman. Ruslabaggar voru ætlaðir hundum en fólk borðaði þá ef ekkert annað var á boðstólum.

Í dag er margt af þessu kallað þorramatur.

Sauðatað var og er enn notað sem áburður á tún en hætt er að nota það sem eldivið eins og áður var gert. Eitthvað mun enn vera um að kjöt sé taðreykt.

Fjármörk og nöfn sauðfjár

Allt fé á Íslandi er plötumerkt í eyru auk þess sem það er eyrnamarkað með því að ákveðin fjármörk eru skorin í eyrun, annað eða bæði. Fjármörk eru þekkt á öllum Norðurlöndum og hafa borist hingað með landnámsmönnum. Þeirra er getið í Grágás og kallast þar einkunnir og þar segir; „er mælt í lögum vorum að hver maður sá er sauði á eða búfé, er skyldur að hafa eina einkunn á öllu kvikfé sínu.“

Íslensku fjármörkin eru 70 og hafa líklega verið fleiri fyrr á tímum en þykja misgóð. Dæmi um mörk eru stýft á báðum, andfjaðrað, fjöður, gagnstigað, geirstýft, lögg, sýlt, sýlt í blaðstýft, tvífjaðrað og þrístigað.
Brennimörk á hornum voru einnig þekkt.

Misjafnt er hvort menn gefi kindunum sínum nafn en dæmi eru um fjárglögga bændur sem þekkja allar ærnar sínar með nafni og vísa nöfnin oft til útlitseinkenna fjárins eins og í eftirfarandi nafnavísu.

Flegða, Héla, Frenja, Dröfn,
Flekka, Sauðarhyrna,
Gletta, Hnúða, Gráleit, Sjöfn,
Gullbrá, Fjóla, Birna.

Bláleit, Hekla, Blökk, Dilkhvít
Bjartleit, Ófríð, Næpa,
Svanhvít, Drífa, Sóley, Hít,
Selja, Bússa, Læpa.

Sauðaþjófar

Sá glæpur sem verstur þótti í íslenska bændasamfélaginu var sauðaþjófnaður enda voru verðmæti í gripunum og fólk byggði lífsafkomu sína á þeim eins og kemur fram í heitum eins og búpeningur, búfé, fjár- og peningshús.

Sauðaþjófar voru til dæmis þeir sem stálu fé og ráku í sínar afréttir og mörkuðu upp á nýtt. Stundum var um fátækt fólk að ræða sem fór um í rökkri og rak annarra manna fé heim til síns bæjar. Útigangsmenn áttu til að verða sauðaþjófar og eru til frægar sögur af slíkum þjófnaði. Einnig var um hreina græðgi að ræða. Í desember 1681 var stórtækur sauðaþjófur á ferð á Melum í Hrútafirði og 50 kindum stolið. Sauðaþjófurinn kom víðar við í sömu ferð og rændi fé á fleiri bæjum í innanverðum Hrútafirði.

Í sögu sem kallast Þjófurinn og tunglið segir frá sauðaþjóf sem settist niður á afviknum stað með feitt sauðarlæri sem hann hafði stolið og ætlaði hann að snæða það í makindum. Tunglið skein skært og engin ský voru á lofti. Þjófurinn ávarpaði þá tunglið með þessum ósvífnisorðum og rétti um leið upp á móti því hnífinn með ketbita á oddinum.

Viltu, tungl,
þér á munn
þennan bita feitan?

Þá svaraði honum aftur rödd af himni:

Viltu, hvinn,
þér á kinn
þenna lykil heitan?

Í sama bili féll glóandi lykill úr háloftunum niður á kinn þjófsins og brenndi þar á hann brennimark. Sagt er að af þessu hafi sá siður verið tekinn upp sem algengur var á fyrri öldum að brennimerkja þjófa.

Sauðaþjófnaður virðist enn stundaður því í ágúst 2010 var greint frá því í Ríkisútvarpinu að sauðaþjófar hafi verið á ferð á Vesturlandi. Í fréttinni segir að lögregla rannsaki málið en hafi úr fáum vísbendingum að moða. „Nýlega hafa fundist ræflar af tveimur lömbum, og sýna ummerkin að þau hafa verið skorin, bestu bitarnir teknir og hræin skilin eftir. Vitað er um tvö dæmi, annað í Norðurárdal, hitt í Dölum. Lögreglu grunar að ferðamenn hafi verið að verki. Ekki hefur verið staðfest að um sama mann sé að ræða, en þó er það talið líklegt enda stutt á milli ódæðanna í tíma og rúmi.“

Sums staðar á Íslandi var því trúað, að ef unglingar söfnuðu hagalögðum, vofði sú hætta yfir, að þeir yrðu sauðaþjófar.

Að lokum er vert að muna að misjafn er sauður í mörgu fé og öllum kindum er eitthvað til annmarka.

Vilja fá Gömlu Þingborg gefins
Fréttir 17. desember 2024

Vilja fá Gömlu Þingborg gefins

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að selja „Gömlu Þingborg“ svonefndu, sem...

Ullarvörur og námskeiðahald
Fréttir 17. desember 2024

Ullarvörur og námskeiðahald

Ullarverið er nafn á nýrri verslun með ullartengdar vörur í verksmiðjuhúsnæði í ...

Borað eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli
Fréttir 17. desember 2024

Borað eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli

Sveitarfélagið Árborg er nú að láta bora eftir köldu vatni í Ingólfsfjalli til a...

Gjaldfrjáls skólaganga
Fréttir 17. desember 2024

Gjaldfrjáls skólaganga

Leikskóli verður gjaldfrjáls fyrir öll börn í sveitarfélaginu Eyja- og Miklaholt...

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk
Fréttir 13. desember 2024

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk

Matvælasvindl er vaxandi vandamál í heiminum. Engin mál tengd meintum matarsviku...

Kortleggja ræktarlönd
Fréttir 13. desember 2024

Kortleggja ræktarlönd

Matvælaráðuneytið ætlar að ráðast í kortlagningu á gæðum ræktarlands á Íslandi.

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði
Fréttir 12. desember 2024

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði

Um áramót taka gildi umtalsverðar hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda. Ge...

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga
Fréttir 12. desember 2024

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga

Loftslagsráð segir að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða o...