Sauðfjár- og nautgriparækt á Nýja-Sjálandi nánast kolefnishlutlaus
Rannsókn tækniháskólans í Auckland sýna að sauðfjár- og nautgripabændur á Nýja-Sjálandi eru nú mjög nálægt því að hafa kolefnisjafnað sinn búskap.
Rannsóknin var leidd af Bradley Case, sem er reyndur fyrirlesari við vistfræðistofnun háskólans. Þar er áætlað að trjágróður á beitarlandi bænda sauðfjár- og nautgripabænda bindi á milli 63–118% af því kolefni sem losnar við þessa landbúnaðarframleiðslu. Að meðaltali er kolefnisbindingin talin nema um 90% af losun þessara landbúnaðargreina.
Rannsóknin var fjármögnuð af „Beef and lamb New Zealand“ og rýnd af Fionu Carswell og Adam Forbes, æðsta vísindamanni í landnýtingarrannsóknum við háskólann í Canterbury. Segir Bradley Case að niðurstaða rannsóknarinnar sýni að full ástæða sé til að viðurkenna þá kolefnisbindingu sem fram fer á jörðum bænda.
Íslendingar með hlutfallslega fátt fé miðað við Nýsjálendinga
Sauðfjárbúskapur er mjög öflugur á Nýja-Sjálandi. Árið 2014 var talið að rúmlega 6 kindur væru á hvern íbúa í landinu, eða um 29 milljónir fjár. Í júní 2019 voru 26,7 milljónir fjár á Nýja-Sjálandi. Samsvarandi tala fyrir Ísland í dag þýddi að hér væru um 2,2 milljónir fjár, en ekki rétt rúmlega 400 þúsund eins og nú er.
22 kindur á íbúa þegar mest var
Mestur var sauðfjárfjöldinn á Nýja-Sjálandi 1982, um 70 milljónir, eða rúmlega 22 kindur á íbúa miðað við íbúafjölda á þeim tíma (3.156.000). Sauðfjárrækt hefur dregist mikið saman frá 1982 samfara aukinni nautgriparækt og mjólkurframleiðslu.
Þess má geta að Nýja-Sjáland er rúmlega tvöfalt stærra en Ísland, eða um 268 þúsund ferkílómetrar og íbúar í dag eru rúmlega 4,8 milljónir. Fjárfjöldi í dag samsvarar því tæplega 6 kindum á íbúa.