Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Setning Búnaðarþings 2018
Mynd / smh
Fréttir 5. mars 2018

Setning Búnaðarþings 2018

Höfundur: smh

Búnaðarþing 2018 var sett í morgun í Súlnasal á Hótel Sögu. Búnaðarþing er styttra en venjulega að þessu sinni, samkvæmt nýju fyrirkomulagi, og stendur aðeins yfir mánudag og þriðjudag. Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra sagði í ræðu sinni að mótvægisaðgerðir væru nauðsynlegar vegna EFTA-dóms.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti setningarræðu og ræddi þar meðal annars sanngjörn starfsskilyrði, sem væri málefni sem brynni á bændum um þessar mundir, og fór yfir möguleg viðbrögð við EFTA-dómnum frá því í nóvember síðastliðnum.

Tollvernd mikilvægur hluti af landbúnaðarstefnunni

Sindri sagði að staða tollverndar í landbúnaði tengdist sanngjörnum starfsskilyrðum. „Nú er hún með þeim hætti að stjórnvöld hafa fellt niður tolla – stundum einhliða – á öllum vörum nema matvörum sem jafnframt eru framleiddar hér innanlands. Um ekkert annað er því að semja ef til stendur að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir.

Tollvernd er mikilvægur hluti af landbúnaðarstefnunni og gera verður kröfu til þess að hún skili árangri þar sem henni er beitt. Tollar eru að hluta til föst krónutala. Upphæðir hafa í mörgum tilvikum ekki breyst í meira en 20 ár og þar af leiðandi rýrnað verulega að verðgildi. Hátt gengi krónunnar undanfarin misseri kemur síðan þar til viðbótar. Verndin er því bitlaus og nær ekki þeim markmiðum sem hún þarf að ná.

Vissulega taka sumir tollar einnig mið af innflutningsverði en það er fjarri því almenn regla.  Tollum er ætlað að jafna samkeppnisstöðu miðað við þær framleiðsluaðstæður sem eru fyrir hendi en nú er það ekki raunin. Fara þarf yfir álagningu tolla í heild og tryggja að þeir skili því sem þeim er ætlað.

Þá verður að nefna gildistöku tollasamnings við ESB sem undirritaður var í september 2015. Samningurinn tekur gildi 1. maí nk. en verður að fullu kominn til framkvæmda í byrjun árs 2021. Kvótar ESB fyrir tollfrjálsan innflutning hingað til lands munu fimmfaldast á tímabilinu, en kvótar Íslands á markað ESB munu á sama tíma ríflega þrefaldast.

Stjórnvöld settu á fót starfshóp sem skilaði tillögum um viðbrögð við áhrifum samningsins, en þær tillögur virðast hafa stungist djúpt í skúffur ráðuneytisins. Þær hafa að minnsta kosti, lítt eða ekki komist til framkvæmda. Það verður að breytast. Það þarf að taka tillit til hagsmuna heildarinnar, ekki bara hagsmuna heildsala, sem æði oft eru dulbúnir sem hagsmunir neytenda,“ sagði Sindri.

Niðurstaða EFTA-dómstólsins veldur verulegum áhyggjum

Þá vék Sindri talinu að dómi EFTA-dómstólsins frá því í nóvember síðastliðnum, þar sem gildandi skilyrði fyrir innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum, væri brot á EES-samningnum. „Þessi skilyrði voru tekin upp þegar íslensk stjórnvöld innleiddu matvælalöggjöf Evrópusambandsins árið 2009. Málið spratt upphaflega af kvörtun Samtaka verslunarinnar til ESA 2011.  Við meðferð þess lögðu íslensk stjórnvöld fram margvísleg gögn þess efnis að takmarkanirnar sem deilt var um væru eðlilegar með vísan til 13. greinar EES-samningsins. Hún fjallar um heimild til takmörkunar á viðskiptafrelsi í því skyni að vernda heilsu manna og dýra.

Niðurstaða dómstólsins var eftir sem áður að taka með engu mið af 13. greininni í niðurstöðunni. Talið var að hún ætti ekki við.

Niðurstaða sem þessi veldur verulegum áhyggjum af því  hvort að EES-ríkin séu raunverulega á jafnréttisgrundvelli gagnvart Evrópusambandinu. Í sáttmála ESB eru sambærilegar heimildir og 13. grein EES-samningsins sem ekki hefur verið hnekkt. Þessi staða er verulegt umhugsunarefni fyrir stjórnvöld og fyllsta ástæða til að ræða við Evrópusambandið um raunverulega þýðingu þessara varnagla. Að óbreyttu virðast þeir lítils virði.

Vísindamenn hafa bent á að afnám ofangreindra takmarkana muni þýða verulega aukna áhættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra,“ sagði Sindri.

Hann sagði miklu máli skipta hver næstu skref stjórnvalda yrðu í málinu og Bændasamtökin teldu besta kostinn í stöðunni að tafarlaust verði óskað eftir viðræðum við Evrópusambandið látið á það reyna hvort hægt verði að halda núgildandi löggjöf áfram, með samningum þess efnis. Full rök standi til þess þó að EFTA-dómstóllinn hafi því miður ekki tekið tillit til þeirra.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að Ísland þurfi einhvers konar aðlögun að þeim breytingum sem EFTA-dómurinn mun hafa í för með sér.

Mótvægisaðgerðir nauðsynlegar vegna EFTA-dóms

Því næst flutti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ræðu. Hann sagði það ljúft og skylt að geta svarað nýlegum erindum frá Bændasamtökum Íslands við setningu Búnaðarþings. Vísaði Kristján þar til óska um aðgerðir vegna EFTA-dómsins áðurnefndan og aðgerða vegna aukinna tollfrjálsra kvóta á búvörum frá Evrópusambandinu. Sagði Kristján að nauðsynlegt væri að grípa til mótvægisaðgerða við væntanlegar breytingar vegna EFTA-dómsins. „Í ljósi þessa er undirbúningur mótvægisaðgerða á byrjunarstigi og ljóst að það mun taka tíma að koma þeim í framkvæmd. Því er augljóst í mínum huga að við getum ekki ráðist í þessar breytingar í dag eða á morgun – við þurfum einhvers konar aðlögun að þeim breytingum og er sú vinna farin af stað.

Þannig er í gangi vinna við að sækja til ESA svokallaðar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjöti af alifuglum og eggjum en þess má geta að Norðurlöndin hafa fengið slíkar tryggingar. Einnig munum við leggja ríka áherslu á öryggi matvæla og að vernd búfjárstofna sé tryggð. Þá hefur verið komið á samstarfi við þýsku áhættumatsstofnunina BfR, Bundesinstitut für Risikobewertung, sem mun veita ráðgjöf um sýnatöku á markaði og aðgerðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu á kampýlóbakter og salmonellu,“ sagði Kristján.  

Varðandi tollabreytingarnar sagði Kristján að sjálfsagt sé að taka hugmyndir Bændasamtaka Íslands til skoðunar. „Ég segi hins vegar að ykkur hér í dag að þessir samningar fela í sér mikil tækifæri fyrir bæði neytendur en ekki síður íslenskan landbúnað, sagði Kristján. Hann bætti því við að hann hefði skilning á því að hluti íslenskra bænda upplifði óvissu og óöryggi  um sína framleiðslu, en ekki megi vanmeta sóknarfæri sem íslenskur landbúnaður fær til að koma vörum sínum á erlendan markað. Þetta sé lykilatriði að hans mati.

Handhafar Landbúnaðarverðlauna 2017. Hofdalabændur til vinstri og bændurnir frá Nesi hægra megin við Kristján Þór Júlíusson ráðherra.

Hofdalabúið og Nes fengu Landbúnaðarverðlaunin

Þá var komið að veitingu Landbúnaðarverðlauna fyrir árið 2017. Að þessu sinni voru veittar tvær viðurkenningar; Hofdalabúið á Syðri-Hofdölum í Skagafirði og Nes í Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi.

Verðlaunin eru þakklætis – og virðingarvottur frá landbúnaðarráðherra til bænda og íslensks landbúnaðar. Landbúnaðarverðlaunin hafa verið veitt í 20 ár og alltaf  við setningu Búnaðarþings.

Þingstörf eftir hádegi

Eftir hádegi hófust þingstörf og standa fram til 16:30 í dag og halda svo áfram á morgun, en lokafundur á Búnaðarþingi verður klukkan 17.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...