Síams-tvíkelfingur í fjósinu á Syðri-Hömrum í Ásahreppi
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Síams-tvíkelfingur kom í heiminn í fjósinu á Syðri-Hömrum í Ásahreppi hjá Jóni Þorsteinssyni bónda og fjölskyldu föstudagskvöldið 10. apríl eftir fjögurra klukkustunda keisaraskurð á kúnni Nótt.
Kálfurinn var lifandi fram að burði en drapst rétt áður en keisaraskurðurinn hófst. Kristín Þórhallsdóttir, dýralæknir hjá Dýralæknamiðstöðinni á Hellu, framkvæmdi skurðinn.
„Þetta er einn búkur með tvo hausa, tvo hala og tvær hryggjarsúlur. Búkurinn er mjög afmyndaður en dýrið er aðeins með fjóra fætur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég lendi í svona með kú,“ segir Kristín. Hún fékk að hirða kálfinn og ætlar að nota hann í kennslu á Hvanneyri þar sem nemendur fá að kryfja tvíkelfinginn.