Sif endurkjörin formaður Geitfjárræktarfélags Íslands
Höfundur: smh
Aðalfundur Geitfjárræktarfélags Íslands 2015 var haldinn 21. mars í Geitfjársetrinu að Háafelli. Sif Matthíasdóttir var endurkjörin formaður.
Að sögn Sifjar kemur fram í ályktunum fundarins að markmið félagsins sé að fjölga félögum, kynna starfsemina og hvetja bændur – og aðra sem vilja veg geitarinnar sem mestan – að flykkjast í félagið. „Einnig eru þeir sem halda geitur hvattir til að senda inn skýrslur, skrá vanhöld og senda dautt geitfé í krufningu því við lærum mest af því að finna út hvers vegna kiðin drepast og sama gildir um eldri einstaklinga. Sigurður Sigurðarson er að þýða bækling um sjúkdóma í geitum. Jóhanna fór á ostanámskeið í Svíþjóð og sagði frá því og margt fleira var til umfjöllunar á fundinum,“ segir Sif.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson var gerður að heiðursfélaga í Geitfjárræktarfélagi Íslands og er þar með kominn í félagsskap með Sigurði Sigurðarsyni dýralækni, sem hafði áður hlotið þessa nafnbót.
Aðrir í stjórn eru Guðni Indriðason gjaldkeri, Gunnar Júlíus Helgason varaformaður, Birna Baldursdóttir ritari og Íris Aðalsteinsdóttir meðstjórnandi. Varamenn eru Anna María Lind Geirsdóttir og Bettina Wunsch.