Skógar felldir í þjóðgörðum
Þrátt fyrir undirskrift samninga og stór orð um verndun skóga í Gana og Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku halda framleiðendur kakós áfram að fella skóga og fara þannig á bak orða sinni um verndun skóga.
Áætluð ólögleg skógareyðing vegna kakóræktunar í suðvesturhluta Fílabeinsstrandarinnar einni það sem af er þessu ári er talin vera tæpir 14 þúsund hektarar, sem er jafngildi um 15 þúsund knattspyrnuvalla.
Stór súkkulaðiframleiðslufyrirtæki og stjórnvöld í Gana og Fílabeinsströndinni halda áfram að styðja við framleiðslu kakóbauna og um leið styðja við ólöglega skógareyðingu þrátt fyrir undirskrift alþjóðasamninga um friðun skóga. Fyrirtækin sem ásökuð eru um að kaupa kakóbaunir frá Gana og Fílabeinsströndinni sem ræktaðar eru á landi í þjóðgörðum þar sem skógar hafa verið felldir ólöglega eru meðal annarra Mars, Nestlé og Monndelez, sem allt eru stórir framleiðendur súkkulaðis.
Gervihnattamyndir sýna að margar nýjar og stórar skógarlendur í löndunum tveimur hafa á liðnum árum verið felldar og teknar undir kakórækt.
Verst er ástandið sagt vera á Fílabeinsströndinni og talið að landið hafi misst allt að 90% af skóglendi sínu frá 1960.
Kakórækt í löndunum tveimur er aðallega stunduð af smábændum sem hvattir eru til að halda ræktuninni áfram af milliliðum. Bændunum er sagt að þeir geti ræktað baunirnar hvar sem er án hættu á lögsókn. Bændurnir, sem eru fátækir, fá lágar greiðslur frá milliliðunum sem selja baunirnar svo til fulltrúa vestrænna súkkulaðifyrirtækja sem selja baunirnar með mörg hundruð- eða þúsundföldum hagnaði.
Auk þess sem verið er að fella skóga er gengið á búsvæði margra dýrategunda með ræktuninni.