Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Skólamötuneyti noti sem mest af íslensku hráefni
Mynd / HKr.
Fréttir 16. maí 2019

Skólamötuneyti noti sem mest af íslensku hráefni

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Við vitum ekki nákvæmlega hvernig staðan er hjá skólamötuneytum í Eyjafirði, en fannst ástæða til að minna á kosti þessa að versla inn íslenskt hráefni,“ segir Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. 

Sambandið skoraði á bæjar- og sveitarstjórnir í Eyjafirði að beita sér fyrir því að mötuneyti grunn- og leikskóla noti sem mest af íslensku hráefni. 

Sigurgeir segir eðlilegt að sveitarfélög setji sér þá stefnu að nota sem mest af íslensku hráefni í skólamötuneytum, þannig fái nemendur hollan mat og um leið sé hægt að auka vitund þeirra á íslenskri framleiðslu og gildi hennar fyrir samfélagið. Ekki síst bendir Sigurgeir á að matur úr héraði fari betur með umhverfið, fótsporið sem flutningur matvæla frá útlöndum er sé mun meira.

Ekki horft á heildarmyndina

„Okkur er kunnugt um að veitingastaðir bjóða upp á kjöt frá útlöndum, það á meðal annars við um nautakjöt og helstu rökin þá að það sé ódýrara. Þá er kannski ekki verið að horfa á heildarmyndina og kolefnisfótsporið sem innflutningurinn veldur. Með þessari ályktun viljum við vekja athygli á þessu máli og að við Eyjafjörð er stundaður öflugur landbúnaður sem og einnig sjávarútvegur, það er okkar hagur að matarinnkaup séu sem mest úr heimahéraði,“ segir Sigurgeir. 

„Það þarf að skapa metnað fyrir því að nota heimafengnar vörur, mat úr héraði eins og stundum er sagt. Víða erlendis er greinilegt að slíkur hugsunarháttur er sterkur en sú hefð hefur ekki skapast hér að mér finnst.“ 

Áhersla á góða og holla næringu

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, segir að sveitarfélagið sé með samning við verktaka um rekstur mötuneytis í grunnskólum og öðrum leikskóla af tveimur, en hinn sé með matráð.  Í skólastefnu Dalvíkurbyggðar sé áhersla lögð á að nemendur fái góða og holla næringu, þ.e. lagt er upp með að nemendum bjóðist fjölbreytt, holl og heilbrigð fæða og hráefnið sé vandað. Annað sé ekki tilgreint í samþykktum stefnum.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tekur í svari til BSE undir með sambandinu, en í sveitarfélaginu er í gildi samningur við rekstraraðila um rekstur mötuneytis. Ályktun sambandsins var komið á framfæri í útboðsgögnum sem verið er að vinna varðandi áframhaldandi rekstur mötuneytisins.

Þröstur Friðfinnsson, sveitar-stjóri Grýtubakkahrepps, segir að sveitarstjórn taki undir með sambandinu og að hún muni kappkosta að nýta íslenskt hráefni og hráefni úr nærumhverfi hér eftir sem hingað til. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps  hefur komið skilaboðum bréfsins áleiðis til þeirra sem sjá um innkaup á matvælum á vegum Svalbarðsstrandarhrepps.

Mögulega er eitthvað innflutt

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir í sínu svari til sambandsins að fram hafi komið í samantekt frá fjársýslusviði að mest allt hráefni sem keypt sé í mötuneyti á vegum Akureyrarbæjar sé innlent og eftir fremsta megni sé reynt að kaupa afurðir úr héraði. Allt kjöt og álegg sem notað er í mötuneytum skólanna á Akureyri er keypt af aðila í héraði, að því er fram kemur í svarinu, en einnig að mögulegt sé að eitthvað af því sé innflutt, svo sem svína- og nautakjöt. Allur fiskur er keyptur á Akureyri, kjúklingur keyptur af innlendum aðila, en hugsanlegt að eitthvað af honum sé innflutt. Sama gildi um grænmeti og ávexti sem að hluta eru innfluttir en reynt að kaupa grænmeti úr heimahéraði. Nýjar kartöflur komi frá Sílastöðum í nágrenni Akureyrar, en forsoðnar kartöflur séu frá Hollandi. Þurrvara sé að mestu leyti innflutt en hluti af henni pakkað hér á landi. 

„Akureyrarbær er sífellt að endurskoða innkaup sín og að sjálfsögðu er reynt að kaupa af aðilum í heimahéraði,“ segir Ásthildur, bæjarstjóri á Akureyri, í svari sínu. 

Sigurgeir segir að greinilega vilji menn bjóða upp á íslensk matvæli í mötuneytum skólanna, en vekur á því athygli að í sumum tilvikum viti þeir kannski ekki hvað verið er að kaupa, samanber að Akureyrarbær kaupi hráefni af aðila heima í héraði, en mögulega sé eitthvað af því innflutt. Þeir aðilar séu ef til vill að flytja inn kjöt en viðskiptavinur stendur í þeirri trú að um innlenda vöru sé að ræða. 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...