Skrítið að sekta fyrir nagladekk á sumrin en ekki fyrir sumardekk í vetrarófærð
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson - liklegur@internet.is
Ég hef oft tjáð mig um það hvað á að gera við þann sem er ekki rétt útbúinn til aksturs í hálku og snjó og lendir í þeirri aðstöðu að þurfa hjálp. Þá á viðkomandi aðeins að fá eina tegund aðstoðar. Hann á að fá hjálp til að koma sér strax af veginum og úr umferðinni.
Í gildi eru reglur sem kveða á um mynsturdýpt hjólbarða. Þannig er lágmarks mynsturdýpt 3 millimetrar (mm) yfir vetrartímann, frá 1. nóvember til 14. apríl, en utan þess tíma þarf mynsturdýptin að vera að lágmarki 1,6 mm. Þessar kröfur ná til fólksbíla, vörubíla og rútubíla og eru reglurnar settar til að tryggja sem best veggrip hjólbarða og þar með öryggi allra vegfarenda. Keðjur og neglda hjólbarða má ekki nota á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna.
Engar refsingar fyrir að vera á ónýtum dekkjum í snjó og hálku
Það er frekar undarlegt að hvergi er hægt að finna refsiákvæði í umferðarlögum ef ekið er á sumardekkjum eða ónýtum vetrardekkjum í hálku og snjó, en hins vegar ef ekið er á nagladekkjum utan leyfilegs tíma er sektin 20.000 á hvern hjólbarða, svolítið skrítin regla því þótt ekið sé á nagladekkjum í auðu skerðast aksturseiginleikar bíls lítið. Sé ekið á sumardekkjum eða á mjög slitnum dekkjum í hálku og snjó getur bíll hreinlega verið algjörlega stjórnlaus og stórhættulegur sjálfum sér og öðrum sem í umferðinni eru.
Strangar reglur í Noregi og háar sektir
Noregur flytur mjög mikið af vörum landleiðina svipað og hér á Íslandi, en í Noregi eru margir fjallvegir og mishæðótt land. Norskir vöruflutningabílar verða að vera á vetrardekkjum frá 1. október og er sekt flutningabíla fyrir að vera tekinn á röngum hjólbörðum, það er 1.000 kr. norskar á dekk ef mynstur eða dekk er ekki M+S merkt og 750 kr. norskar ef það vantar keðju. Við þetta má bæta að 1. október 2020 tvöfaldast allar vetrarsektir í Noregi.
Ef flutningabíll er með 10 hjólbarða verður hann að vera með lágmark 7 keðjur meðferðis.
Eitt af stærri vandamálum í Noregi eru bílar sem koma frá Evrópu til að sækja vörur (aðallega fisk). Þessir flutningabílar eru oftast ekki á dekkjum sem eru lögleg á veturna og til að reyna að komast inn í landið eru sumir með hangandi utan á bílunum keðjur á öll hjól. Norska landamæralögreglan hefur mikið vald og oftar en ekki hefur bílum verið snúið við vegna þess að bílstjórarnir kunnu ekki að setja keðjurnar undir bílinn.
Vantar að klára vetrarreglugerðina fyrir Ísland
Það var klárlega stórt skref í rétta átt að lágmarka mynstursdýpt hjólbarða á Íslandi yfir vetrarmánuðina, en það vantar að koma á pappír refsingum og heimild til að taka ökutæki úr umferð (kyrrsetja ökutæki tímabundið vegna lélegra hjólbarða). Einnig vantar sektarákvæði inn í íslensku vetrarreglurnar.
Það eru víða reglur erlendis um sérstakan útbúnað yfir vetrarmánuðina. Á Ítalíu, Austurríki og Þýskalandi er bílum t.d. snúið við á fjallvegum sem ná vissri hæð nema að á hjólbörðum séu merkingarnar M+S og að í bílnum séu keðjur.
Mætti bæta upplýsingar Vegagerðarinnar um vetrarfærð
Á vef Vegagerðarinnar er mjög góður þjónustuvefur sem er mjög reglulega uppfærður og sýnir mismunandi færð á vegum merkt inn á kort með mismunandi litum. Við litina sem merkja þæfing og þunga færð hefði mátt bæta við að það sé eingöngu fyrir fjórhjóladrifsbíla (4x4), sem búnir eru góðum vetrardekkjum, nagladekkjum og/eða keðjum.