Skýrt verði hver er handhafi kolefnisbindingar skóga í samningum bænda við Skógræktina
„Það þarf að skýra það í samningum bænda við skógrækt ríkisins að bændur séu handhafar þeirra kolefniseininga sem skógrækt þeirra bindur og stjórni alfarið nýtingu þeirra,“ segir í tillögu sem samþykkt var á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar sem haldinn var í Hlíðarbæ á dögunum.
Skorar fundurinn á umhverfis- og auðlindaráðherra að skýra sem fyrst hver sé handhafi kolefnisbindingar skóga sem ræktaðir eru í gegnum samninga bænda við skógrækt ríkisins.
Ríkið greiði hluta kostnaðar við fornleifaskráningu á skógræktarsvæðum
Aðalfundurinn skorar einnig á sama ráðherra að beita sér fyrir því að íslenska ríkið taki á sig kostnað vegna skráninga fornminja við skipulagningu á skógræktarsvæðum að hluta til eða öllu leyti.
Fram kemur í greinargerð með tillögunni að aukin kolefnisbinding sé nauðsynleg til að íslenska ríkið geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum að slæmt sé að mikill kostnaður landeigenda við skráningu fornminja sé farinn að standa í vegi fyrir því að skógræktarsvæði séu skipulögð.
„Ef ríkið tæki á sig þennan kostnað að hluta eða öllu leyti er ljóst að það myndi flýta fyrir aukinni skógrækt og þar af leiðandi aukinni bindingu á kolefni,“ segir í greinargerðinni.
Ólíðandi að sitja undir endalausum áróðri hagsmunaafla
Þá var einnig samþykkt tillaga á aðalfundi BSE þar sem stjórn Bændasamtaka Íslands var hvött til að láta rannsaka og reikna út íslenska staðla fyrir kolefnisbindingu íslensks landbúnaðar, úr íslensku umhverfi þar sem gróið land og túnrækt fái rétta niðurstöðu um bindingu kolefnis í jarðvegi.
Einnig verði reiknuð út losun á allri íslenskri framleiðslu landbúnaðarvara miðað við íslenskan raunveruleika og að óheimilt verði að nota erlenda staðla. Þá vill BSE að Bændasamtökin annist frekari útfærslu á málinu og feli RML að vinna verkefnið.
Fram kemur í tillögu með þessari greinargerð að alltof oft hafi komið fram óvandaðar og rangar fullyrðingar um íslenskan landbúnað í umræðunni um loftslagsmál. Bændur verði að taka málið í sínar hendur og vera skrefinu á undan og stýra umræðunni.
„Það er með öllu ólíðandi fyrir landbúnaðinn að sitja undir endalausum áróðri hagsmunaafla, sem oft og tíðum nota erlenda staðla sem ekki eiga við hér á landi,“ segir í greinargerðinni.