Stærsta fjárfesting Arla frá upphafi
Um mánaðamótin maí-júní tók norður-evrópska afurðafélagið Arla Foods í notkun nýja viðbót við afurðastöð sína í Pronsfeld í Þýskalandi.
Um er að ræða langstærstu einstöku fjárfestingu félagsins sem er í eigu kúabænda í sjö löndum í norðurhluta Evrópu. Um var að ræða nýja vinnslustöð sem er sérhæfð í mjólkurduftsframleiðslu en alls nam þessi eina fjárfesting Arla Foods tuttugu og einum milljarði íslenskra króna.
Skýringin á þessari miklu fjárfestingu felst í mikilli eftirspurn eftir næringarríku mjólkurdufti og til að mæta stöðugt vaxandi eftirspurn var ákveðið að stækka afurðastöðina í Pronsfeld. Þar var fyrir gríðarlega stór vinnslustöð sem var þó mest sérhæfð í framleiðslu á geymsluþolinni mjólk og öðrum geymsluþolnum mjólkurvörum og nam afkastageta stöðvarinnar fyrir stækkunina 1,5 milljörðum lítra. Eftir stækkunina mun félagið vinna úr 2,2 milljörðum lítra á ári, eða um 6 milljón lítrum á degi hverjum allt árið um kring.
Alls mun nýja þurrkstöðin, sem m.a. telur 51 metra háan þurrkturn, geta framleitt um 90 þúsund tonn af mjólkurdufti á ári, sem verður
sent út til þeirra 70 markaða sem félagið selur vörur sínar á í dag. Við framleiðsluna í Pronsfeld í heild starfa nú um eitt þúsund manns og nær afurðastöðin í dag yfir um 55 hektara landsvæði. Eftir þessa stækkun er afurðastöðin í Pronsfeld ein sú stærsta í heimi og mun styðja enn frekar við uppbyggingu og vöxt félagsins en reiknað er með að umsvif félagsins muni aukast um 5-7% á þessu ári. Það eru einna helst markaðir félagsins í Mið-Austurlöndum, Vestur-Afríku og Suðaustur-Asíu, sem eru með mesta eftirspurn eftir ódýrum og næringarríkum mjólkurvörum, sem eru að bera upp þennan mikla vöxt félagsins.