Starfsskilyrði greinarinnar efst á baugi
Deild kjúklingabænda innan Bændasamtaka Íslands mun ekki leggja fram tillögu á Búnaðarþing að þessu sinni. Starfsskilyrði greinarinnar og tollamál eru það sem er efst á baugi hjá greininni. Fulltrúar deildar kjúklingabænda á Búnaðarþingi 2022 eru Jón Magnús Jónson og Eydís Rós Eyglóardóttir.
Að sögn Jóns verða starfsskilyrði greinarinnar og landbúnaðar í heild efst á baugi hjá kjúklingabændum á þinginu.
„Við í greininni viljum eins og aðrir í landbúnaði fá að njóta viðunandi starfsskilyrða og þar eiga tollamál stóran þátt.“
Ójöfn samkeppni
„Töluvert er flutt inn af fuglakjöti sem er okkur mikið áhyggjumál. Erfitt er fyrir innlend fyrirtæki að keppa við erlenda framleiðslu sem kemur frá risastórum fyrirtækjum. Þar eigum við litla möguleika ef keppa á í verði en alla möguleika ef litið er til gæða framleiðslunnar og heilnæmi.“
Jón segir að þessi staða sé ekki einsdæmi hjá kjúklingabændum því hún eigi við nánast alla landbúnaðarframleiðslu í landinu.
Eldið í góðum farvegi
„Sem betur fer er íslenskt alifuglaeldi vel statt hvað varðar alifuglasjúkdóma og eldið í góðum farvegi. Skimað er reglulega fyrir þeim sjúkdómum sem algengir eru erlendis og engir stofnar eru fluttir inn til framleiðslunnar nema í gegnum einangrunarstöðvar. Þannig lágmörkum við áhættuna á að hingað berist nýir sjúkdómar og með því höldum við niðri notkun á sýklalyfjum,“ segir Jón.
Alifuglabændum hefur fækkað
Að sögn Jóns leggur deild kjúklingabænda ekki fram tillögu á Búnaðarþingi að þessu sinni.
„Alifuglabændum hefur fækkað á síðustu árum. Þó eru starfandi allnokkrir bændur sem hafa þessa atvinnu með öðrum búskap eða starfsemi. Þetta styrkir sveitirnar bæði með atvinnu og ýmsa þjónustu sem þarf við þessi bú.“