Stórskemmtileg fjárlitasýning í Holtum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Fjárræktarfélagið Litur í Holta- og Landsveit stóð fyrir sinni árlegu fjárlitasýningu í Árbæjarhjáleigu í Rangárþingi ytra.
Var sýningin haldin hjá Kristni Guðnasyni og fjölskyldu hans sunnudaginn 15. október. Á annað hundrað manns mættu til að skoða litfagurt fé og til að fylgjast með dómurum að störfum. Öllum viðstöddum var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð. Þá voru boðin upp tvö falleg lömb.
Gestir sýningarinnar völdu þetta lúðótta lamb litfegursta lamb sýningarinnar en þessi litur er mjög sjaldgæfur. Lambið er í eigu ábúendanna á bænum Húsagarði.
Eiríkur Vilhelm Sigurðsson á Hellu og mæðgurnar frá Skarði, þær Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir og Helga Fjóla Erlendsdóttir, létu sig ekki vanta á sýninguna.
Bjarni Sigurðsson á Torfastöðum í Fljótshlíð og ráðsmaðurinn hans, Ari S. Magnússon, voru á meðal fjölmargra gesta á litasýningunni.