Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum
Enn er opið fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum sbr. reglugerð um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Matvælastofnun (MAST) opnaði fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum í byrjun mánaðar og lýkur umsóknarfresti 29. febrúar. Tekið er fram í tilkynningu frá MAST að hann verði ekki framlengdur.
Stuðningur fyrir hverja framkvæmd getur að hámarki numið 44% af stofnkostnaði við vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa.
Heimilt er að greiða árlega framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á vegum eigenda lögbýla þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum. Nær heimildin til allra lögbýla í landinu þar sem landbúnaður er stundaður í þeim mæli að talist geti búrekstur eða þáttur í búrekstri. Jafnframt er skilyrt að umsækjendur hafi ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein og virðisaukanúmer.
Undanskildar eru þó þær jarðir og jarðarhlutar sem liggja innan skipulagðra þéttbýlissvæða sveitarfélaga. Þá eru framlög ekki veitt vegna framkvæmda á lögbýlum sem hafa ekki verið setin í tvö ár eða lengur næst á undan framkvæmdarári, eða eru nytjuð frá öðrum lögbýlum nema byggingar á jörðinni séu nytjaðar til búrekstrar sem krefst aðgangs að vatni eða fyrir liggi heimild til stofnunar lögbýlis þar skv. jarðarlögum.