Sviðin jörð í Úkraínu
Veruleiki bænda og staða landbúnaðar í Úkraínu í dag er hörmuleg, segir Olga Trofimtseva, fyrrverandi landbúnaðarráðherra landsins, en hún var stödd hér á landi á dögunum í tilefni Matvælaþings.
Mikil eyðilegging blasir við á landbúnaðarsvæðum í suður- og austurhluta landsins. Skepnur eru dauðar, húsnæði ónýtt og akrar brunarústir. Hún nefnir sérstaklega svæði kringum hernumdu borgina Kherson, sem var nýlega frelsuð eftir að hafa verið undir stjórn Rússa frá fyrstu viku innrásar. Vatnsveitur og öll orkukerfi svæðisins eru eyðilögð. Eitt stærsta alifuglabú í Suður- Úkraínu var í héraðinu. Þar voru um fjórar milljónir fugla. Þegar Rússar tóku yfir svæðið rufu þeir rafmagn að búinu og hafa síðan ekkert gert. Allir fuglarnir hafa líklega drepist á innan við 48 tímum án rafmagns, loftræstingar og ljóss. Hræ fjögurra milljón fugla hafa því legið þarna síðan þá og Olga segir aðkomuna hafa verið hörmulega, hún talar um vistfræðilegt stórslys.
Landbúnaður ríkisins var í miklum blóma fyrir innrás Rússa. Það sýndi sig í sífellt auknum útflutningi á matvælum. Olgu telst til að 17–18% af landsframleiðslunni hafi flokkast sem landbúnaðar- og matvælaframleiðsla og að rúmlega 44% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar hafi komið til vegna útflutnings landbúnaðarvara. Beint tjón landbúnaðarins vegna innrásarinnar er metið á um 6,6 milljarða bandaríkjadala en óbeint tjón nemur 34 milljörðum dala, samkvæmt útreikningum Kyiv School of Economics.
Sjá nánar á bls. 32–33. í nýjasta tbl. Bændablaðsins sem kom út í dag !