Tekur aftur upp verðviðmið
Auðhumla mun aftur taka upp viðmið varðandi úrvalsmjólk og verðfellingar á grundvelli líftölumælinga frá og með 1. ágúst nk.
Í tilkynningu frá samvinnufélaginu er sagt að vel hafi verið fylgst með mælingum líftöluvélarinnar og að undanfarnar vikur hafi hún gengið mjög vel og mælingar verið stöðugar og án vandkvæða. Því muni félagið aftur miða við að greiða fyrir úrvalsmjólk og verðfella hrámjólk miðað við hefðbundin viðmið sem má nálgast á vefsíðu Auðhumlu.
Í mars sl. gaf félagið það út að vafi léki á réttmæti á niðurstöðum líftölumælinga og því notaði það ekki þær tölur til verðfellingar á hrámjólk frá 16. janúar sl. Á sama tíma var viðmiðunum vegna úrvalsmjólkur breytt tímabundið.
Frá 1. ágúst nk. mun Auðhumla miða við að greiða fyrir úrvalsmjólk sem er undir 20.000 ein/ml og verðfella hrámjólk miðað við hefðbundin viðmið, þ.e. hrámjólk sem fær hærri líftölugildi en 80.000 ein/ml falli í 2. flokk með 16% verðfellingu af lágmarksverði mjólkur, hrámjólk sem fari yfir 200.000 ein/ml falli í 3. flokk með 36% verðfellingu af lágmarksverði mjólkur og hrámjólk sem fer yfir 500.000 ein/ml falli í 4. flokk með 60% verðfellingu af lágmarksverði mjólkur.