Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Guðmundur Ingi Guðbrands­son  umhverfis- og auðlinda­ráð­herra,
Guðmundur Ingi Guðbrands­son umhverfis- og auðlinda­ráð­herra,
Fréttir 18. október 2018

Þetta er augljóslega afar sérkennilegt segir umhverfis- og auðlindaráðherra

Höfundur: Hörður Kristinsson

Bændablaðið óskaði eftir svörum frá Guðmundi Inga Guðbrands­syni  umhverfis- og auðlinda­ráð­herra þann 24. ágúst sl. um afstöðu hans til sölu íslenskra orku­fyrirtækja á hreinleika­vottorðum. Í svari ráðherrans kemur m.a. fram að honum þyki sala slíkra vottorða koma mjög spánskt fyrir sjónir.

Í forsíðufrétt Bændablaðsins 23. ágúst sl. er frétt um sölu íslenskra orkufyrirtækja á „hreinleika­vott­orðum“ til erlendra orku- og iðn­fyrirtækja. Þar kom fram að samkvæmt gögnum Orku­stofnunar var hlutfall hreinnar endur­nýjanlegrar raforku á Íslandi þá komið niður í 13% af heildar­framleiðslunni árið 2017 vegna sölu á hreinleikavottorðum. Þá var raforka framleidd með kolum, olíu og gasi sögð vera 58% af heildinni og 29% var sögð framleidd með kjarnorku. Samanlagt er þetta 87%. Koldíoxíð sem Íslendingar voru sagðir spúa út í andrúmsloftið í fyrra vegna raforkuframleiðslu nam 447,12 g/kWh og geislavirkur  úrgangur 0,87 mg/kWh.

Ef það er sett í samhengi við þá mengun sem Íslendingar tóku á sig í fyrra fyrir erlend orkuver og verksmiðjur, þá sitjum við uppi eftir vottorðasöluna á síðasta ári með 8,6 milljónir tonna ígildis af koldíoxíði og 16,74 tonn  af geislavirkum úrgangi.

Ljóst er að erlend orkufyrirtæki sem framleiða raforku með kolum, olíu, gasi eða kjarnorku, nota íslensk hreinleikavottorð til að fegra sína ímynd og segjast framleiða hreinni orku en þau gera í raun. Það gefur þeim síðan möguleika á að framleiða áfram óáreitt raforku með jarðefnaeldsneyti. Þetta skýtur mjög skökku í allri umræðu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þess sem orkuframleiðsla af þessum toga er utan sviga í samningum eins og Parísarsamkomulaginu um að draga úr losun CO2.

Á árinu 2017 náði heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuframleiðslu nýjum hæðum, eða 32,5 gígatonnum af CO2 og jókst þá á milli ára um 420 milljónir tonna. Aukningin samsvarar mengun frá 170 milljónum bíla. Stendur losun CO2 vegna orkuframleiðslu fyrir um 25% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á heimsvísu. Ef iðnaður er tekinn með, sem er líka fyrir utan sviga, þá er hlutfallið 46% samkvæmt tölum IPPC.

Kemur mjög spánskt fyrir sjónir

Bændablaðið spurði um afstöðu umhverfis- og auðlindaráðherra varðandi þessa vottorðasölu frá Íslandi. Svar barst 16. október og þar segir m.a.:

„Þetta kann að virka vel í Evrópu þar sem raforka getur flætt frá einu landi til annars, og skapað hvata fyrir endurnýjanlega orku. Hérlendis orkar þetta hins vegar mjög svo tvímælis, enda alveg ljóst að við framleiðum t.d. ekki kjarnorku – og því kemur mjög spánskt fyrir sjónir að rafmagnsreikningurinn sýni eitthvað slíkt. 

Hér á landi heyrir málið undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sem lét vinna skýrslu árið 2016 um upprunaábyrgðir raforku í íslensku samhengi. Í henni er meðal annars bent á að sala upprunaábyrgða úr landi geti skaðað ímynd Íslands, þ.e. þá ímynd að orkuframleiðsla landsins sé hrein og endurnýjanleg (og þar með orkunotkun). Undir þetta tek ég.”

Samræmist ekki markmiðum stjórnvalda

„Ég er sammála því sem kom fram þegar skýrslan var kynnt að ef markmið stjórnvalda er að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu á Íslandi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg raforka, þá virðist sala orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi ekki samræmast því markmiði.“

Einnig var spurt hvort það sé  eðlilegt að Íslendingar taki á sig ómælda mengun á pappírunum vegna sölu hreinleikavottorða, á sama tíma og íslensk stjórnvöld hafa það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Það þykir mér ekki. – Rétt er þó að undirstrika að þetta breytir engu um okkar alþjóðlegu skuldbindingar í loftslagsmálum, hvorki hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku né loftslagsbókhald, enda byggir bókhald okkar þar á raunframleiðslu íslenskrar raforku. Sala hérlendra orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum þýðir þannig til dæmis ekki að Ísland fái bókfærða losun frá kolaorkuverum í Evrópu.

Þetta tengist alþjóðlegum skuldbindingum okkar í loftslags­málum með öðrum orðum ekkert, en er á hinn bóginn til dæmis ímyndarmál. Og sem slíkt tel ég það slæmt,“ segir ráðherra.

– Sjá nánar um svör ráðherra og Landsvirkjunar við fyrirspurnum Bændablaðsins um sama mál á  bls. 20 og 21 

Skylt efni: orkumál | syndaaflausnir

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...