Þingað um þörunga
Alþjóðleg þörungaráðstefna, Arctic Algea, verður haldin í Reykjavík 4. og 5. september.
Þetta er í annað sinn sem slík ráðstefna fer fram hér á landi. Þörungarækt er í hraðfara vexti í heiminum. Markmið Arctic Algae er að skapa aukna umræðu um þörungastarfsemi og tengja saman fólk úr geiranum til þess að kynnast og læra hvað af öðru.
Á ráðstefnunni verður fjallað um hagræn- og umhverfisáhrif tengd smá- og stórþörungastarfsemi. Ræktun og fullvinnsla smáþörungaafurða er í mikilli sókn og hér á landi hefur byggst upp þörungavinnsla á heimsvísu. Talið er að engin matvælaframleiðsla úr hafinu hafi vaxið jafnhratt á síðustu áratugum og ræktun og fullvinnsla þörunga.
Arctic Algae fer fram í höfuðstöðvum Arion banka við Borgartún og er stýrt af Rækt nýsköpunarmiðstöð lagareldis með Samtökum þörungafélaga og unnin í samstarfi við evrópsku þörungasamtökin EABA. Auk ráðherra matvæla og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar, innlendra aðila og framkvæmdastjóra World Wildlife Fund, taka þátt fulltrúar stærstu félaga í Færeyjum, Noregi og Bandaríkjunum í stórþörungaræktun og fullframleiðslu.