Þrettán nemendur frá sjö löndum útskrifast
Nemarnir þrettán sem útskrifuðust frá Landgræðsluskólanum í ár koma frá Eþíópíu, Gana, Mongólíu, Úganda, Malaví, Namibíu og Kirgistan. Sjö konur og sex karlar.
Útskrift nema úr árlegu sex mánaða námi skólans fór fram síðastliðinn fimmtudag, 17. september.
Markmið Landgræðsluskólans er að byggja upp færni sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu, umhverfisstjórnun og sjálfbærri landnýtingu. Þetta er gert með því að þjálfa sérfræðinga sem starfa við landgræðslu- og landnýtingarmál í samstarfslöndum Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu.
Sérfræðingarnir sem koma til náms við Landgræðsluskólann hafa allir háskólagráðu sem tengist viðfangsefnum skólans og starfa við stofnanir í heimalandi sínu.
Landgræðsluskólinn hefur starfað frá árinu 2007 og standa Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins að rekstri skólans. Landgræðsluskólinn er fjármagnaður af íslenska ríkinu sem hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.
Í ávörpum við útskriftina var lögð áhersla á mikilvægi landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar í baráttunni gegn landeyðingu og vísað í því samhengi í ný alþjóðamarkmið SÞ um sjálfbæra þróun sem verða samþykkt á allsherjarþingi SÞ í lok þessa mánaðar.
Landgræðsluskólinn vinnur í anda þess að stöðva landeyðingu, græða upp illa farið land og koma í veg fyrir eyðingu lands með því að stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa.
Ávinningurinn af því að bæta landgæði mun auka fæðuöryggi og minnka þar með hungur og fátækt, stuðla að betri heilsu og tryggara aðgengi að hreinu vatni og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.