Þrjár konur í fimm manna úrslitahópi Kokkur ársins 2019
Úrslitakeppnin Kokkur ársins 2019 verður haldin í Hörpu laugardaginn 23. mars næstkomandi. Athygli vekur að þrjár konur voru meðal þátttakenda í forkeppninni, sem var haldin í gær, en það telst met í þessari keppni. Þær komust allar áfram til þátttöku í úrslitunum.
Í tilkynningu frá Klúbbi matreiðslumeistara, sem stendur að skipulagningu keppninnar, er þessi keppni einn af hápunktunum í viðburðardagatali matreiðslumanna. Nokkrir af allra bestu matreiðslumeisturum Íslands keppa um hinn eftirsótta titil. Forkeppnin fór sem fyrr segir í gær þar sem tíu kokkar kepptu um fimm pláss í lokakeppninni sjálfri.
Haft er eftir Birni Braga Bragasyni, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, að það sé mikið fagnaðarefni að sjá aukningu skráðra kvenna í keppninni. „Það er okkur metnaðarmál að ná hlutfalli þeirra til jafns við karla. Ylfa Helgadóttir var meðal annars þjálfari Kokkalandsliðsins í Lúxemborg þar sem liðið vann til gullverðlaunan sem ég held að sé okkur góð hvatning. Stéttin hefur verið mjög karllæg og öll skref í átt að meira jafnvægi eru góð skref í átt að tryggja öfluga og fjölbreytta stétt fagfólks.“
Þeir sem keppa til úrslita um titilinn í ár eru:
- Snædís Xyza Mae Jónsdóttir Ocampo, Hótel Saga Mímir Restaurant
- Iðunn Sigurðardóttir, Íslenski Matarkjallarinn
- Kolbrún Hólm Þorleifsdóttir, Deplar Farm
- Rúnar Pierre Heriveaux, Grillið Hótel Sögu
- Sigurjón Bragi Geirsson, Garri
Á síðasta ári bar Garðar Kári Garðarsson sigur úr býtum í þessari keppni og er því Kokkur ársins 2018.
Sigurvegarinn fær þátttökurétt í Nordic Chef of the Year 2020 fyrir Íslands hönd.