Tilboðsmarkaður opinn
Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.
Nú þegar hefur verið opnað fyrir tilboð en fresturinn til að skila þeim rennur út á miðnætti 10. mars skv. tilkynningu matvælaráðuneytisins. Að hámarki verður hægt að óska eftir kaupum á 50.000 lítra framleiðslurétti. Þrír tilboðsmarkaðir eru haldnir árlega og geta kúabændur því aukið kvótann sinn um 150.000 lítra á tólf mánuðum á þessum vettvangi.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu er vakin sérstök athygli á breytingu á reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 348/2022 sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn er varðar markaðsframkvæmd. Þar segir að kaupandi skuli inna af hendi greiðslu fyrir andvirði greiðslumarksins eigi síðar en tuttugu dögum eftir markaðsdag. Að öðrum kosti falli kaupin niður. Nánari upplýsingar um markaðinn má finna á afurd.is og mar.is.