Tíu hrossaræktarbú verða heiðruð á ráðstefnunni Hrossarækt 2015
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Tíu hrossaræktarbú voru tilnefnd til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, ræktunarbú ársins.
Valið stóð á milli 53 búa sem náð höfðu athygliverðum árangri á árinu. Aðstandendur hrossaræktarbúanna munu hljóta viðurkenningar á ráðstefnunni Hrossarækt 2015 sem haldin verður í Samskipahöllinni í Spretti laugardaginn 7. nóvember næstkomandi.
Brautarholt
Brautarholt er tómstundajörð á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem bræðurnir Björn, Snorri og Þrándur Kristjánssynir stunda hrossarækt. Ræktunin byggir að stærstum hluta á heiðursverðlaunahryssunni Öskju frá Miðsitju og dætrum hennar. Alls voru fjögur hross sýnd frá búinu í ár og var meðalaldur þeirra 5,75 ár. Meðalaðaleinkunn þeirra reyndist 8,14. Hæst dæmda hross frá Brautarholti í ár er næstyngsta afkvæmi Öskju, Arða, en hún hlaut 8,25 í aðaleinkunn, 7,98 fyrir sköpulag og 8,43 fyrir kosti.
Drösull frá Brautarholti undan Krák frá Blesastöðum 1A og Öldu frá Brautarholti.
Hann hlaut einkunnina 9,5 fyrir tölt og stökk. Knapi er Árni Björn Pálsson.
Mynd / Hólmfríður Birna Björnsdóttir
Flagbjarnarholt
Feðgarnir Bragi Guðmundsson og Sveinbjörn Bragason rækta hross kennd við Flagbjarnarholt í Landsveit. Ræktunin byggir að mestu leyti á hryssunni Surtsey frá Feti. Alls voru 5 hross sýnd frá búinu í ár og var meðalaldur þeirra 5,2 ár. Meðalaðaleinkunn sýndra hrossa var 8,09. Hæst dæmda hross frá búinu er Nagli frá Flagbjarnarholti, en hann hlaut 8,39 í aðaleinkunn, 7,91 fyrir sköpulag og 8,70 fyrir kosti. Þetta er í annað sinn sem Flagbjarnarholt hlýtur tilnefningu Bændasamtakanna en það hlaut einnig tilnefningu í fyrra.
Þórey frá Flagbjarnarholti undan Surtsey frá Feti og Oliver frá Kvistum.
Knapi er Árni Björn Pálsson.
Ketilsstaðir
Syðri-Gegnishólar
Olil Amble og Bergur Jónsson eiga og reka ræktunarbúið Ketilsstaði/Syðri-Gegnishóla í Flóahreppi. Í ár hlutu 14 hross frá búinu fullnaðardóm. Meðalaldur hrossanna er 4,86 ár og meðaleinkunn hrossa með fullnaðardóm 8,05. Hæst dæmda hross frá búinu er stóðhesturinn Álfarinn undan heiðursverðlaunahrossunum Keili frá Miðsitju og Álfadís frá Selfossi. Ketilsstaðir/Syðri-Gegnishólar hefur verið valið ræktunarbú ársins tvisvar sinnum áður, árið 2010 og 2012.
Fákur frá Ketilsstöðum undan Álffinni frá Syðri-Gegnishólum og heiðursverðlaunahryssunni
Framkvæmd frá Ketilsstöðum. Knapi er Bergur Jónsson.
Hof I
Þorlákur Örn Bergsson ræktar hross kennd við Hof I í Öræfum. Alls komu fimm hross frá búinu til kynbótadóms árið 2015. Meðalaldur sýndra hrossa var 6 ár og meðaleinkunn hrossa með fullnaðardóm er 8,16. Þrjú af hrossunum eru undan heiðursverðlaunahryssunni Þrumu frá Hofi I og eitt þeirra er barnabarn hennar. Hæst dæmda hross frá búinu í ár er Svarthöfði sem hlaut 8,35 í aðaleinkunn, 8,11 fyrir sköpulag og 8,50 fyrir kosti.
Aldís frá Hofi I undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Vöku frá Hofi I.
Knapi er Hekla Katharína Kristinsdóttir.
Stóra-Vatnsskarð
Benedikt G. Benediktsson ræktar hross kennd við Stóra-Vatnsskarð í Skagafirði. Fjögur hross voru sýnd frá búinu í ár og er meðalaldur þeirra 6 ár. Meðaleinkunn þeirra er 8,20. Hæst dæmda hross frá búinu í ár er hryssan Hnota en hún hlaut 8,44 í aðaleinkunn, 8,15 fyrir sköpulag og 8,64 fyrir kosti. Þetta er í fyrsta sinn sem búið hlýtur tilnefningu Bændasamtakanna.
Sara frá Stóra-Vatnsskarði undan Lukku frá Stóra-Vatnsskarði og Orra frá Þúfu.
Sara hlaut m.a. 9,5 fyrir fegurð í reið. Knapi hennar og eigandi er Hans Þór Hilmarsson.
Mynd / Sabine Girke
Torfunes
Hrossarækt Baldvins Kr. Baldvinssonar í Torfunesi hófst árið 1978 og er þetta í þriðja sinn sem þetta rótgróna bú hlýtur tilnefningu. Í ár hlutu fjögur hross fullnaðardóm. Meðalaldur hrossanna var 4,75 ár og meðalaðaleinkunn 8,08. Hæst dæmda hross frá búinu í ár er Eðall, með 8,27 í aðaleinkunn, 7,96 fyrir sköpulag og 8,47 fyrir kosti. Torfunes var á dögunum valið ræktunarbú Hrossaræktarsamtaka Eyfirðinga og Þingeyinga árið 2015.
Gullbrá frá Torfunesi undan Hróðri frá Refsstöðum og Myrkvu frá Torfunesi.
Hún hlaut 8,40 fyrir byggingu, þar af 9,5 fyrir höfuð. Mynd/Hermann Bárðarson
Þóroddsstaðir
Ræktunin að Þóroddsstöðum er gamalkunn en ræktunin er nú einkum í höndum feðganna Bjarna Þorkelssonar og Bjarna Bjarnasonar. Í ár voru fimm hross sýnd frá búinu og var meðalaldur þeirra 6,4 ár. Meðalaðaleinkunn hrossanna var 8,27. Þar á meðal var hæst dæmdi 4 vetra hross ársins, Trausti. Hæst dæmda hross frá búinu í ár er Hnokki, með 8,59 í aðaleinkunn.
Trausti frá Þóroddsstöðum er undan Þresti frá Hvammi og Snót frá Þóroddsstöðum.
Hann hlaut einkunnina 9 fyrir tölt, hægt tölt og vilja og geðslag.
Ytra-Vallholt
Að Ytra-Vallholti í Skagafirði stunda Björn Grétar Friðriksson og Harpa H. Hafsteinsdóttir hrossarækt. Í ár voru fjögur hross frá búinu sýnd, en meðalaldur þeirra var 6 ár. Meðalaðaleinkunn hrossanna var 8,21. Hæst dæmda hross frá búinu í ár er stóðhesturinn Hlekkur með 8,42 í aðaleinkunn, 8,24 fyrir sköpulag og 8,54 fyrir kosti. Þetta er í annað sinn sem Ytra-Vallholt hlýtur tilnefningu Bændasamtakanna.
Stóðhesturinn Hlekkur, 5 vetra, undan Arnoddi frá Auðsholtshjáleigu og Gnótt frá Ytra-Vallholti.
Hlekkur hlaut 8,54 fyrir kosti og einkunnina 9 fyrir vilja og geðslag.
Mynd/Harpa Hafsteinsdóttir
Þúfur
Gísli Gíslason og Mette Mannseth rækta hross kennd við Þúfur í Skagafirði. Sex hross voru sýnd frá búinu í ár og er meðalaldur þeirra 5,5 ár. Meðalaðaleinkunn hrossanna var 8,05. Hæst dæmda hross frá búinu í ár er Þögn með 8,19 í aðaleinkunn, 7,91 fyrir sköpulag og 8,38 fyrir kosti.
Þrjú hross með lágmörk til afkvæmaverðlauna
Við uppfærslu kynbótamats í haust uppfylltu þrjú hross lágmörk til afkvæmaverðlauna. Hryssan Stjarna frá Kjarri hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, en hún er með 117 í aðaleinkunn kynbótamats og á nú 5 dæmd afkvæmi. Stjarna er 17 vetra undan Gusti frá Hóli og Þrumu frá Selfossi. Meðalaðaleinkunn afkvæma hennar er 8,1 en hæst dæmdur af þeim er stóðhesturinn Spói frá Kjarri, með 8,30.
Enginn stóðhestur uppfyllir lágmörk til heiðursverðlauna. Til að hljóta 1. verðlaun þurfa stóðhestar að hafa 118 stig í aðaleinkunn kynbótadóms og eiga amk. 15 dæmd afkvæmi. Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum uppfyllir lágmörkin en hann er nú með 126 í aðaleinkunn kynbótamats og hafa 15 afkvæmi hans hlotið kynbótadóm. Auk þessa uppfyllir stóðhesturinn Natan frá Ketilsstöðum lágmark til afkvæmaverðlauna, en hann er með 122 stig i aðaleinunn kynbótamats og 15 afkvæmi hans hafa hlotið dóm. Natan drapst drapst árið 2012, þá 11 vetra gamall.