Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Afleiðingar flóðsins á dögunum, algjör uppskerubrestur hefur orðið í sumum garðalöndum en óvissa er með önnur og kemur ekki í ljós fyrr en við uppskeru.
Afleiðingar flóðsins á dögunum, algjör uppskerubrestur hefur orðið í sumum garðalöndum en óvissa er með önnur og kemur ekki í ljós fyrr en við uppskeru.
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar hluti ræktarlanda þeirra fór á kaf í kjölfar mikillar rigningar og vegna áhrifa af veglagningu yfir sameiginlegt útfall Laxár og Hoffellsár, vestan við Hornarfjarðarflugvöll.

Veglagning Vegagerðarinnar og brúargerð, sem er hluti af verkefninu við styttingu hringvegarins yfir Hornafjarðarfljót, hindrar þannig náttúrulegt útfall ánna á leið til sjávar í Hornafirði með þeim afleiðingum að það flæddi yfir karöflugarða bænda.

Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum.
Ekki tekið tillit

„Það hefur verið óvenju þurrt hérna hjá okkur frá því að þeir byrjuðu á framkvæmdunum við þverun á þessum árfarvegi. Svo fyrir nokkrum vikum þá gerði nokkurt rigningarveður og þá sáum við fyrst hvað gæti verið í vændum, því þá fór vatn að flæða aðeins upp á árbakkana beggja vegna og náði ekki að skila sér almennilega í rennslið niður af svæðinu,“ segir Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum.

„Ég talaði strax við Vegagerðina þegar ég var að fara að setja niður í vor, af því að ég hafði áhyggjur af þessu. Garðlöndin standa svo lágt þarna að við þessar breyttu aðstæður eru bein áhrif á þau ef vatnavextir verða svo miklir í ánum.

Við hönnun á þessum mannvirkjum hefur hins vegar ekkert tillit verið tekið til okkar athugasemda um þessa hættu.“

Samanlagt tjón nemi tugmilljónum

„Ég var sem betur fer búinn að taka upp úr svolitlum hluta af þessum görðum sem fóru alveg á kaf, sem samtals eru meira en hektari af stærð, enda eru þetta okkar bestu ræktarlönd og þaðan kemur venjulega fyrsta uppskeran frá okkur. Það eru bein áhrif á aðra þrjá hektara lands þar sem viðvarandi bleyta er vegna hærri grunnvatnsstöðu. Við erum svo með aðra fimm hektara sem við ákváðum að hvíla frá kartöfluræktun þar sem við óttuðumst að þeir gætu lent í vatnstjóni,“ heldur Hjalti áfram.

„Við erum að fá allt að 20 tonnum í uppskeru af hverjum hektara hér í Nesjum þannig að við metum að tjónið gæti hlaupið á tugum milljóna, ef við tökum saman tjón okkar og nágranna okkar í Akurnesi líka. Tjónið verður hins vegar ekki að fullu ljóst fyrr en búið verður að taka alveg upp úr görðum á þessu svæði,“ segir Hjalti sem óttast að varanleg neikvæð áhrif verði á alla fjóra kartöfluframleiðendur svæðisins.

Getur rignt miklu meira

Hjalti segir að ekki sé ljóst hvaðan bætur muni berast vegna tjónsins. „Ég held að Vegagerðin hljóti þó að vera ábyrgðaraðili á því. Við heyrðum það þó í samskiptum okkar við fulltrúa Vegagerðarinnar að við þyrftum aldrei að hafa áhyggjur af mögulegum flóðum.

Í raun höfum við sloppið sæmilega hingað til því það hafa bara komið tvisvar svona miklar rigningar í sumar. Núna er verið að vinna veginn þarna yfir og það hefði verið hægt að gera ráðstafanir til að minnka líkurnar á að svona tjón verði, til dæmis með því að rjúfa veginn. Verktakinn hafði sem betur fer vit á því að gera það og bjarga því að ekki færi verr. Það hefði þó átt að gera það fyrr.

Ég held að tjón geti orðið miklu meira þegar alvöru vatnsveður verður, það getur rignt miklu meira en þetta,“ segir Hjalti.

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...