Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Tveir gallagripir sæðingastöðvanna
Mynd / Hrútaskráin
Fréttir 30. maí 2022

Tveir gallagripir sæðingastöðvanna

Höfundur: smh

Á vef Ráðgjafarmiðstöðvar land­búnaðar­ins (RML) hefur verið upplýst að tveir sæðinga­stöðvahrútar sem hafa verið í notkun á undanförnum árum hafi reynst gallagripir.

Annar þeirra heitir Glæpon 17-809, en grunur vaknaði um að hann hafi gefið af sér afkvæmi með gula fitu eftir að tveir synir hans gáfu lömb síðasta haust sem metin voru gul í sláturhúsi. Hinn heitir Galli 20-875, sem kom nýr inn á sæðingastöð í desember, en hann reynist með áhættuarfgerð fyrir riðusmiti. Vegna mannlegra mistaka virðist sem sá hrútur hafi verið tekinn inn á sæðingastöð á fölskum forsendum.

Glæpon var felldur eftir þriggja ára notkun á sæðingastöðvunum en hann hafði verið í notkun árin 2018 til 2020. Bændur eru hvattir til að hafa samband við RML eða Matís ef grunur vaknar um að þessi galli sé til staðar í tiltekinni ræktunarhjörð. Sama á við um ef fæðast vansköpuð lömb sem rekja ættir til sæðingahrútanna að þá er mikilvægt að koma upplýsingum um það til RML.

Um helmingur afkvæma Galla sem nú fæðast um allt land mun bera áhættuarfgerðina og er mælst til þess að afkvæmi hans sem koma til álita næsta haust sem ásetningslömb, séu arfgerðargreind svo áhættuarfgerðin sé ekki framræktuð.

Gallinn verður ljós þegar búið er að lóga

Eyþór Einarsson, sauðfjárræktar­ráðunautur hjá RML, segir að gul fita sé fyrst og fremst útlitsgalli, en sé meinlaus og hafi ekki áhrif á bragð. Mjög slæmt sé að dreifa slíkum galla en hingað til hafi verið erfitt að sjá þetta fyrir. „Þessi galli kemur ekki fram fyrr en búið er að lóga gripnum og sýnir sig eingöngu hjá gripum sem eru arfhreinir fyrir gallanum. Þannig að ef fram koma lambsskrokkar sem eru gulir, er ljóst að bæði faðir og móðir bera þennan erfðagalla. Góðu fréttirnar eru þær að nú eygir loks í að hægt sé að prófa gripi fyrir þessum erfðagalla með DNA prófi. Við höfum verið að vinna með Matís í því að þróa próf fyrir þessu, en það er ekki langt síðan að erlendir vísindamenn fundu gen sem virðast stjórna þessari arfgerð. Prófað hefur verið að greina sýni úr Glæpon og virðist hann arfblendinn fyrir gulri fitu. Grunur vaknaði þegar í ljós kom að tveir synir hans gáfu gula skrokka. Þannig að það eru býsna sterkar líkur á því að Glæpon sé sekur,“ segir Eyþór.

Tekinn inn á stöð á röngum forsendum

Eyþór segir að mál Galla 20-875 frá Hesti sé líklega vegna mannlegra mistaka. „Upphaflega er tekið sýni úr Galla ásamt öðrum tilvonandi ásetningshrútum á Hesti haustið 2020. Þá voru greind þessi tvö hefðbundnu sæti, 136 og 154, á príongeninu. Reyndist Galli hlutlaus í þeim sætum og tekinn inn á sæðingastöð á þeim forsendum. Síðan tókum við sýni úr honum nú í vetur, til að greina hin fjögur sætin á príongeninu sem nú eru til skoðunar. Þá kemur önnur niðurstaða, það er að segja að hann reynist með áhættuarfgerð í sæti 136. Ákváðum við að tilkynna þetta strax þar sem menn hafa verið að taka sýni í vor vegna arfgerðargreininga á príonpróteininu.

Hins vegar eigum við eftir að fara aðeins betur ofan í saumana á því hvar þessi skekkja liggur.

Ábyrgð og skaðabætur

Áður en hrúturinn verður felldur verður hann bæði greindur einu sinni enn með tilliti til þess hvort þetta sé nú ekki 100 prósent rétt að hann sé með þessa áhættuarfgerð og hins vegar ætterni staðfest með DNA greiningu. Þegar búið er að skoða þetta betur er a.m.k. hægt að átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis,“ segir Eyþór.

Spurður um hvar ábyrgð liggi og mögulegar skaðabætur, segir Eyþór að fyrst sé rétt að átta sig á því hvar villurnar liggja. „Fjárhagslegt tjón bænda vegna þessa máls felst aðallega í greiningum á sýnum úr lömbum undan Galla, þannig að tryggt sé að áhættuarfgerðin sé ekki framræktuð en helmingur afkvæmanna ætti að vera í lagi.

Væntanlega munu margir stefna að því hvort sem er að greina alla þá hrúta sem koma til álita sem ásetningshrútar á komandi hausti.“

Varðandi gulu fituna og aðra erfðagalla þá held ég að sé langsótt að gera einhvern skaðabótaskyldan fyrir slíkum uppákomum. Sæðið yrði þá bara að vera dýrara ef ætti að vera einhver skaðabótasjóður til hjá sæðingastöðvunum. Þetta er bara áhætta sem fylgir ræktunarstarfinu og menn eru að sjálfsögðu að gera sitt besta til að forðast.

Við erum þó að vinna í því að öðlast vopn til að geta greint þessa erfðagalla. Í gegnum sæðingarnar höfum við framræktað stofninn í heild með ákaflega góðum árangri. Við eigum hér einstaklega harðgeran stofn sem jafnframt er vel gerður með tilliti til holdfyllingar og skilar miklum afurðum. Sæðingastarfsemin hefur verið einn af lykilþáttunum í því að ná þessum framförum í stofninum – við skulum ekki gleyma því,“ segir Eyþór.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...