Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Stór hluti kartöfluframleiðslu hér á landi byggir á innlendu útsæði.
Stór hluti kartöfluframleiðslu hér á landi byggir á innlendu útsæði.
Fréttir 4. nóvember 2021

Uggandi yfir aðfluttu útsæði

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Kartöflubændur á Suðaustur­landi eru órólegir yfir myglu sem herjar á kartöflugarða á Suðurlandi. Þeir hafa róið öllum árum að því að koma í veg fyrir að myglan berist á suðausturhorn landsins, en þar hefur kartöflumygla ekki greinst í áratugi. Engar reglur eða varnir koma algjörlega í veg fyrir að sýktar kartöflur berist landshluta á milli.

Bændur gerðu kartöflumyglu að umtalsefni á bændafundi í Hornafirði á dögunum. Fjórir kartöflubændur eru starfandi á landsvæðinu, þrír matarkartöfluframleiðendur og Bjarni Hákonarson í Dilksnesi sem stundar stofnútsæðisrækt.

„Við höfum reynt að halda okkur sér, enda erum við langt frá öðrum stórum framleiðendum. Við gerum það með því að nota eingöngu útsæði frá svæðinu og flytjum ekkert inn, nema stofnútsæði að norðan. Eins hafa menn gætur á sér með tæki og annað sem flutt er á milli. Við takmörkum beinan samgang við svæðin þar sem myglan hefur komið upp, en við vitum ekki hvað við sleppum lengi,“ segir Bjarni.

Hann setur spurningarmerki við sölu á aðfluttu útsæði í verslunum. „Umfang heimilisræktunar er ekki mikið og flestir snúa sér beint til bændanna til að fá útsæði. En við sjáum engu að síður aðflutt útsæði í búðum.“

Það liggi ekki stórir viðskipta­hagsmunir undir í þessum vörum fyrir verslanirnar, en hins vegar myndi rekstrargrundvöllur bænda liggja undir ef mygla bærist í kartöfluakra með þessu aðflutta útsæði.
Bjarni minnir því bæði verslanir og einstaklinga á að hafa slíkt í huga. „Það er ekkert ólöglegt við að gera þetta en það er rétt að vera á tánum yfir öllum smitleiðum.“

Kartöfluuppskera á Suðaustur­landi hefur verið með besta móti í ár. Þrátt fyrir kalt vor var sumarið gjöfult, að sögn Bjarna.

Mest flutt inn frá Þýskalandi

Stór hluti kartöfluframleiðslu hér á landi byggir á innlendu útsæði. Þó er alltaf eitthvað flutt inn. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun voru 274,5 tonn af útsæði flutt hingað til lands árið 2020. Tæp 200 tonn komu frá Þýskalandi og 50 tonn frá Hollandi og rúm 25 tonn frá Danmörku. Árið áður var nær allt innflutt útsæði, 223 af 258 tonnum, frá Þýskalandi en restin kom frá Hollandi. Í ár hafa 122,8 tonn verið flutt frá Þýskalandi, 40,25 tonn frá Danmörku og 23,95 tonn frá Hollandi.

Erfitt að útiloka smit algerlega

Samkvæmt reglugerð um kartöfluútsæði þurfa ræktendur þess hér á landi að hafa leyfi frá Matvælastofnun til að framleiða, dreifa og selja útsæði. Leyfishafar lúta tilteknum kröfum við framleiðslu, dreifingu og sölu, m.a. að fylgjast með einkennum sjúkdóma, tilkynna og bregðast við ef þeir verði þeirra varir við tilkynningaskylda sjúkdóma, gæta þess að útsæði komist aldrei í snertingu við matarkartöflur og fleira. Engar hömlur eru á dreifingu innlends útsæðis milli landsvæða.

Brynjar Rafn Ómarsson, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, segir þó erfitt að hindra algjörlega hvers kyns smitleiðir. Kartöflumygla geti borist með matarkartöflum, innlendu sem og erlendu útsæði.

„Það er leyfilegt að flytja inn og selja innflutt kartöfluútsæði að því gefnu að það uppfylli sömu kröfur og innlent útsæði. Allt kemur inn með heilbrigðisvottorð, en það er ekki staðfesting þess að vara sé laus við sjúkdóma, heldur yfirlýsing frá þeirri opinberu stofnun sem sér um plöntuheilbrigði í útflutningslandi að varan uppfylli innflutningskröfur Íslands, þ.m.t. að hún sé laus við tiltekna sjúkdóma sem lagt hefur verið bann við samkvæmt íslenskum reglugerðum. Hins vegar eru þetta lifandi vörur úr lifandi landi og því aldrei hægt að útiloka smit algerlega,“ segir hann.

Fróðleiksmolar um kartöflumyglu og innflutt útsæði

Sigurgeir Ólafsson plöntusjúkdómafræðingur skrifaði fræðandi grein um kartöflumyglu og innflutt útsæði í Bændablaðið árið 2015. Í henni kemur fram að myglan hafi verið landlæg frá Snæfellsnesi austur um til Reyðarfjarðar frá um 1890 og fram yfir 1960, þegar veður kólnaði og mygluskilyrði minnkuðu. Nokkrir myglufaraldrar herjuðu svo á Suðurlandið á níunda áratugnum og hefur hún verið viðloðandi á Suðurlandi síðan árið 1999. Talið er að smit hafi borist frá innfluttum kartöflum frá Noregi árið 1990 og frá Hollandi árið 1999.

Til þess að myglan taki sig upp þarf veðurfar að vera hagstætt yfir lengri tíma um sumarið, hlýindi og raki, rétt eins og tíðarfarið hefur verið í ár.

Enn fremur segir í grein Sigurgeirs að hægt sé að bregðast við myglu með myglulyfjum, annars vegar fyrirbyggjandi lyfjum en einnig eru til efni sem geta stöðvað myglu í smitaðri plöntu og varið nývöxt í einhvern tíma. Venjan er erlendis að úða fyrirbyggjandi gegn myglu. Lítil hætta er því talin á að smit berist með innfluttu útsæði ef vel er haldið utan um mygluvarnir á ræktunarstað þess.

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...