Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum
Fréttir 1. júní 2016

Umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Stjórnvöld og bændur undirrituðu nýja búvörusamninga þann 19. febrúar 2016. Þar á meðal samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar og rammasamning fyrir landbúnaðinn í heild. Sauðfjársamningurinn var samþykktur með 60,4% gildra atkvæða í almennri atkvæðagreiðslu en rammasamningurinn var samþykktur á Búnaðarþingi 2016.

Almennt er hér á eftir talað um sauðfjársamninginn en sérstaklega tekið fram ef vísað er til rammasamningsins. Landssamtök sauðfjárbænda telja báða samningana framsækna og líklega til að stuðla að því að hægt verði að ná meginmarkmiðum eins og þau eru sett fram í 1. gr. sauðfjársamningsins:
„[A]ð efla íslenska íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni og verðmætasköpun eru höfð að leiðarljósi. Það verði gert með því að hlúa að þeirri menningu sem tengist sauðfjárrækt um leið og stuðlað er að framþróun, nýsköpun, nýliðun og eflingu byggðar um allt land.“

Að baki því sem samninganefnd sauðfjárbænda kom með að borðinu liggja samþykktir aðalfundar 2015 og aukaaðalfundar sem haldinn var í nóvember sama ár. Á þeim fundi var staða samningaviðræðna kynnt og fundurinn veitti samninganefndinni sérstakt umboð til að halda áfram á sömu braut. Þá var einnig stuðst við skýrslur Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (Samfélagsleg þýðing sauðfjárbúskapar og Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings), KOM ráðgjafar (Stefnumörkun um markaðssókn íslenskra sauðfjárafurða) og RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (Úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt – 1. áfangi). Tengla á þessar skýrslur o.fl. má finna aftast í umsögninni. Að auki var stuðst við minnisblað frá Landgræðslunni, ýmsar aðrar tölulegar staðreyndir, upplýsingar og efni.
Landssamtök sauðfjárbænda og samninganefnd bænda unnu þannig mikla stefnumótunarvinnu og höfðu skýr samningsmarkmið varðandi nýliðun, grænar áherslur, jafnrétti og aukið virði afurða, sem byggðu á stefnu og samþykktum samtakanna, vinnu samninganefndar, formanns og framkvæmdastjóra. Hér á eftir verður farið yfir með hvaða hætti þessar áherslur rötuðu inni í samningana.

Nýliðun
Í nýjum sauðfjársamningi felast umfangsmiklar breytingar á því stuðningskerfi sem nú er við lýði. Jafnvel þótt framleiðslustýring, eða eiginlegt kvótakerfi, hafi verið afnumið fyrir rúmum tveimur áratugum er enn í gildi greiðslumarkskerfi, sem eru leifar gamla kvótakerfisins. Það þýðir að jafnvel þótt hverjum sem er sé frjálst að framleiða ótakmarkað lambakjöt, þá þurfa þeir sem vilja hefja búskap hugsanlega að fjárfesta í landi, tækjum, bústofni og ærgildum – eða réttinum til að fá opinberan stuðning.

Samkvæmt nýja samningnum verður greiðslumarkskerfið afnumið í skrefum á samningstímanum, hægt til að byrja með en svo hraðar eftir því sem á líður, sbr. 3. gr. samningsins og tafla 1 í I. viðauka við hann. Fjármunir munu færast yfir á aðra liði, t.d. gripagreiðslur og býlisstuðning. Sérstakt ákvæði í 5. gr. samningsins kveður á um að heimilt sé að beita stuðlum svo nýliðar geti fengið hærri gripagreiðslur. Við lok samningsins nægir að uppfylla tiltekin skilyrði til að njóta opinbers stuðnings en ekki þarf lengur að kaupa þann rétt líkt og nú.

Þessi almenna aðgerð kemur misjafnlega niður á bændum eftir greiðslumarksstöðu og ásetningshlutfalli. Tekið er tillit til þeirra sem gætu tapað stuðningsgreiðslum með margvíslegum hætti, m.a. með því að binda breytingarnar við aukningu afurðarverðs til bænda, sbr. gr. 15.2 og eins er gert ráð fyrir tveimur endurskoðunum á samningstímanum, þ.e. árin 2019 og 2023, sbr. gr. 15.2 og 15.4. Sambærileg ákvæði er ekki að finna í núgildandi samningi.

Það er vilji samningsaðila að lokað verði fyrir það að rétturinn til opinbers stuðnings verði eign sem gengur kaupum og sölum og eins að leikreglur séu skýrar og almennar. Afskaplega mikilvægt er að samningurinn sé til langs tíma svo aðlögunin verði sem auðveldust. Greiðslur samkvæmt nýjum sauðfjársamningi á fyrsta ári hans eru 4.932.000 kr. en 4.470.000 kr. á lokaári. Þetta þýðir um 9,4% vatnshalla á sauðfjársamningi, sem er umtalsvert meira en á búvörusamningunum í heild, þar sem vatnshallinn er um 8,1%.

Í samningunum er bundinn möguleiki að hægja á ferlinu eða færa fjármuni á milli liða ef þurfa þykir, sbr. 13. gr. samningsins. Þar að auki er kveðið á um sérstakan svæðisbundinn stuðning í 8. gr. hans en þar er Byggðastofnun falið að útfæra hvernig honum er útdeilt. Líklegt má telja að hann fari að stórum hluta til þeirra svæða sem nú reiða sig hvað mest á sauðfjárrækt. Jafnframt fylgir rammasamningnum sérstök bókun um byggðamál.

Auk þessa er fjármunum sérstaklega varið til nýliðunar, sbr. 6. gr. rammasamningsins. Þá er fé samkvæmt samningnum einnig lagt í jarðræktarstyrki, sbr. 5. gr., Framleiðnisjóð landbúnaðarins, sbr. 13. gr., lífræna framleiðslu, sbr. 7. gr., landgreiðslur, sbr. 5. gr., fjárfestingastuðning, sbr. 9. gr., o.fl. sem koma ætti ungum bændum og nýliðum til góða. Reikna má með því að stór hluti þessara greiðslna renni til sauðfjárbænda, enda er sauðfjárrækt fjölmennasta búgreinin. Vænta má þess að skilgreining á því hver telst vera nýliði verði sett í reglugerð. Landssamtök sauðfjárbænda leggja mikla áherslu á að við þá vinnu verði jafnréttissjónarmið höfð að leiðarljósi.

Jafnréttisákvæði
Landssamtök sauðfjárbænda fengu RIKK - Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands til að gera úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt á Íslandi. Fyrsti áfangi þeirrar úttektar fólst í gagnasöfnun og gloppugreiningu sem sett var fram í skýrslu í febrúar 2016. Höfundar hennar eru Ásta Jóhannsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Erla Hlín Hjálmarsdóttir. Aftast í þessu skjali má finna tengil á skýrsluna.

Þar kom fram að nokkuð hallar á konur innan stéttarinnar, m.a. vegna kerfislægrar villu sem felst í því að aðeins annað hjóna eða sambýlisfólks getur verið skráð fyrir opinberum stuðningsgreiðslum, þótt þau séu með sameiginlegan búrekstur. Við þessu er brugðist í sauðfjársamningum og nú er í fyrsta skipti þar að finna sérstakt jafnréttisákvæði. Samkvæmt ákvæði 2.3 í samningnum geta hjón og sambýlisfólk sem standa saman að búrekstri óskað eftir að greiðslum samkvæmt samningnum sé skipt jafnt á milli þeirra.

Sambærilegt ákvæði hefur ekki verið að finna í sauðfjársamningum fram til þessa.

Landssamtök sauðfjárbænda og RIKK - Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands vinna nú að fjármögnun og undirbúningi næsta hluta þessarar rannsóknar. Sú rannsókn mun verða ítarlegri og fela í sér tölfræðilegar rannsóknir, djúpviðtöl, rýnifundi, samanburð milli svæða á Íslandi sem og við önnur lönd o.s.frv. Rannsóknin er á faglegu forræði RIKK og vænta má niðurstaðna í árslok 2017.

Grænar áherslur
Í nýja sauðfjársamningnum er aukin áhersla lögð á gæðastýringu, sbr. 4. gr. og tafla 1 í I. viðauka samningsins en hún er eitt öflugasta sjálfbærniverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Gæðastýringu í sauðfjárrækt var komið á  árið 2003 að frumkvæði bænda. Helstu markmið með henni eru að bæta sauðfjárbúskap, renna styrkari stoðum undir afkomu sauðfjárbænda og tryggja markaðnum vörur sem framleiddar eru á ábyrgan og siðlegan hátt. Samkvæmt henni undirgangast bændur ákveðnar kvaðir varðandi skýrsluhald, hirðingar, aðbúnað, fóðuröflun og lyfjanotkun.

Einn mikilvægasti hluti gæðastýringar snýr að landnýtingu og landbótum. Þeir bændur sem taka þátt verða m.a. að gera ítarlega grein fyrir því landi sem þeir hyggjast nýta til búskaparins. Matvælastofnun afgreiðir landbótaáætlanir í samvinnu við Landgræðsluna og ætla má að u.þ.b. 300.000 hektarar hafi verið verndaðir fyrir beit í gegnum kerfið. Í ár hefur Matvælastofnun afgreitt u.þ.b. 40 landbótaáætlanir og um 10 eru enn í vinnslu.

Nú þegar eru yfir 94% dilkakjötsframleiðslunnar í landinu undir hatti gæðastýringar. Vægi álagsgreiðslna gæðastýringar er í samningnum aukið úr 35% af heildargreiðslum hans árið 2017 í 56% heildargreiðslna árið 2026.

Tekin verður ákvörðun um það við endurskoðun samningsins árið 2019 hvort gripagreiðslur, sem verða um 23% heildarfjárhæðar samningsins við lok hans, verði háðar því að viðkomandi bú sé í gæðastýringu, sbr. 5. gr. Tilgangurinn er sá að hvetja alla bændur til að taka þátt í gæðastýringunni, enda yfirlýst markmið forystumanna bænda að hún verði algilt viðmið. Þá er stöðugt unnið að endurbótum á kerfinu.
Beina opinbera styrki til landbúnaðar má sem dæmi flokka í tvo megin flokka, þ.e. annars vegar framleiðsluhvetjandi og hins vegar ekki. Núverandi beingreiðslur, býlisstuðningur, gripagreiðslur og fleira af því tagi hvetur ekki sérstaklega til framleiðslu, enda er stuðningurinn óháður eiginlegum afrakstri bús. Álagsgreiðslur gæðastýringar eru hins vegar greiddar m.v. framleidd kg og geta því virkað framleiðsluhvetjandi en þær fara eins og áður sagði úr því að vera þriðjungur heildarstuðningsins yfir í að vera rúmur helmingur. Í nýjum sauðfjársamningi er sérstakur fyrirvari í gr. 15.3, sem ekki var að finna í eldri samningi, er kveður á um mögulegar aðgerðir ef fé fjölgar umfram 10% í landinu.

Þó eru litlar líkur á fjölgun vegna þess hversu stór hluti greiðslnanna er ekki framleiðslutengdur. Þá hefur fé fækkað mikið undanfarna áratugi, eða úr 827.927 vetrarfóðruðum kindum árið 1980 í 480.654 árið 2015 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þessi þróun virðist halda áfram þótt e.t.v. hafi dregið úr hraða hennar og t.d. var ásetningur verulega minni s.l. haust en árið á undan. Meðalaldur sauðfjárbænda sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni um samningana var 56,4 ár. Eðlilegt er að ætla að sumir þeirra muni bregða búi á næstu árum fyrir aldurs sakir. Landssamtök sauðfjárbænda telja því ekki raunverulega hættu á offramleiðslu á lambakjöti með nýjum sauðfjársamningi, bæði vegna fyrirvara og varnagla í samningnum sjálfum en ekki síður í ljósi þess að stöðugt hefur dregið úr framleiðslu undanfarna áratugi sem og vegna félagslegra og lýðfræðilegra þátta.

Samkvæmt 8. gr. rammasamningsins er lagt nýtt fé, samtals 300.000.000 kr., til að kortleggja gróðurauðlindina á Íslandi og koma á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi á landi, sem mun hjálpa til við skynsamlega beitarstjórnun og stuðla að sjálfbærni til framtíðar. Meðal annars er horft til þeirra rannsókna sem þegar hafa verið gerðar hér á landi af hálfu Landgræðslunnar, Náttúrfræðistofnunar og fleiri aðila, en einnig til þeirrar aðferðafræði sem Hafrannsóknarstofnun beitir, sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna o.fl. þátta. Unnið er að undirbúningi þessa verkefnis í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Mikilvægt er að þetta verkefni takist vel svo hægt verði að beina sauðfjárrækt í framtíðinni, þá sérstaklega nýliðun, inn á þau svæði sem eru best til þess fallin, bæði af náttúrufarslegum og samfélagslegum ástæðum.

Í rúman aldarfjórðung hafa bændur og Landgræðslan unnið saman að verkefninu Bændur græða landið. Um 35.000 hektarar lands hafa verið græddir upp og verkefnið þykir hafa heppnast með eindæmum vel. Er það hluti af heildarstefnumótun í málaflokknum, þótt ekki sé fjallað um það með beinum hætti í sauðfjársamningnum. Skipulagning og umgjörð Bændur græða landið er haft til fyrirmyndar við undirbúning verkefnis um ræktun beitarskóga sem Landssamtök sauðfjárbænda vinna nú að með Skógræktarfélagi Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ljóst er að kolefnisfótspor íslenskrar sauðfjárræktar er í minna lagi sé miðað við sömu búgrein í öðrum löndum og ýmsa aðra kjötframleiðslu. Áburðarnotkun á hektara hér er minni en víðast hvar, notkun sýklalyfja með því minnsta sem þekkist, hormónar bannaðir  og varnarefni óþekkt. Þá þarf ekki heldur að fjölyrða um hversu umhverfisvænna það er að rækta matvörur í nágrenni við helsta markaðinn í samanburði við innflutning. Ekki liggur þó fyrir hversu mikið kolefnisfótspor sauðfjárræktarinnar raunverulega er en það stendur þó til bóta. Kortlagning á kolefnisfótsporinu er hluti af heildarverkefni Bændasamtakanna og stjórnvalda á þessu sviði og vænta má niðurstaðna úr þeirri vinnu í haust.

Kortlagnir og  rannsóknir eru grundvöllur þess að hægt verði að gera skynsamlegar áætlanir til að draga úr loftslagsáhrifum sauðfjárræktarinnar. Vilji Landssamtaka sauðfjárbænda stendur til þess að það verði gert.
Æ fleiri eru tilbúnir að borga hærra verð fyrir náttúrulegar og sjálfbærar hágæða landbúnaðarvörur sem framleiddar eru á siðlegan og umhverfisvænan hátt, undir ströngu regluverki á fjölskyldubúum þar sem einstakar aldagamlar hefðir og þjóðmenning blómstra. Bændur eru vörslumenn landsins og gera sér skýra grein fyrir því að sjálfbær landnýting felur í sér að hver kynslóð skili landi af sér í jafn góðu eða betra ástandi en hún tók við því. Nýr sauðfjársamningur styður við þessa viðleitni.

Aukið virði sauðfjárafurða
Íslensk sauðfjárrækt stendur á þröskuldi ónýttra tækifæra bæði innan lands og utan í ljósi aukinnar neytendavitundar og áherslu á náttúruvernd og gæði afurða. Einstakir framleiðsluhættir, menningartenging og hreinleiki opna fjölmargar dyr inn á kröfuhörðustu markaði heims fyrir upprunavottað lambakjöt sem framleitt er undir ítarlegum skilyrðum gæðastýringar með sjálfbærni að leiðarljósi. Styðja þarf við nýtingu þessara tækifæra með tilheyrandi fjölgun arðbærra starfa, styrkingu byggðar og margföldun á verðmætasköpun.

Mótuð hefur verið markaðsstefna fyrir íslenska sauðfjárrækt þar sem horft er til þess sem vel hefur verið gert, bæði í greininni sjálfri, í sjávarútvegi og út um heiminn. Sauðfjárrækt er hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum og greinin stendur undir um 2.000 beinum störfum auk fjölda afleiddra starfa, t.d. í ferðamennsku, verslun, ullarvinnslu, veitingarekstri o.s.frv. Landssamtök sauðfjárbænda vilja efla sauðfjárrækt á komandi árum á umhverfisvænan hátt og telja að þannig megi skjóta styrkari stoðum undir greinina, styrkja búsetu til sveita, stuðla að aukinni sjálfbærni, auka arðsemi og bæta afkomu bænda. Öll þessi markmið stuðla að því að draga fram styrkleika hennar og sérstöðu á sjálfbæran hátt.

Landssamtök sauðfjárbænda og Markaðsráð kindakjöts hafa unnið langtíma markaðsstefnu á þessum nótum og meðal annars fengið KOM ráðgjöf til liðs við sig. Aftast í þessu skjali er að finna tengil á skýrslu ráðgjafafyrirtækisins. Hluti þeirrar vinnu var að skilgreina gildi íslenskrar sauðfjárræktar sem eftirfarandi; fjölskyldubú, menningu, hreinleika, gæði, dýravelferð, fagmennsku, fjölbreytni og sjálfbærni til framtíðar. Flest ákvæði samningsins taka mið af þessu en m.a. eru þak og gólf á býlisstuðningi, sbr. gr. 6.2 og kveðið á um hámarksgreiðslur samkvæmt sauðfjársamningi í gr. 11.2. Tilgangurinn er að styrkja fjölskyldubú í sessi sem hornstein í íslenskri sauðfjárrækt, enda litið á fyrirbærið fjölskyldubú sem sérstök og einstök verðmæti, bæði í samfélagslegum og markaðslegum skilningi.

Nýjung í sauðfjársamningi er að sértakt eyrnamerkt fé er lagt í aukið virði sauðfjárafurða samkv. 10. gr. Landssamtök sauðfjárbænda vilja horfa langt fram í tímann og telja nauðsynlegt að ráðast í ýmis ný verkefni til að efla greinina og breyta nálgun á önnur. Þessa sér víða stað bæði í  sauðfjársamningnum og rammasamningum, sbr. umfjöllun hér framar um græn verkefni og jafnrétti.

Sóknarfæri íslenskrar sauðfjárræktar liggja ekki í því að framleiða meira, enda er hvergi gert ráð fyrir framleiðsluaukningu í nýju samningunum og hreinlega slegnir varnaglar við fjölgun fjár, eins og áður var vikið að. Hins vegar er gert ráð fyrir því að auka verðmæti þess sem þegar er framleitt. Mikilvægur hluti af því er að sérstaða, sjálfbærni og fjölbreytni séu höfð að leiðarljósi í íslenskri sauðfjárrækt. Hvergi má slaka á í þeirri viðleitni. Nú þegar er unnið að því að útrýma með öllu erfðabreyttu fóðri úr greininni að frumkvæði sauðfjárbænda, sjálfbær landnýting hefur verið styrkt og samstarfs leitað við fjölmarga aðila, t.d. félagasamtök, fræðimenn, ráðuneyti og stofnanir til að gera greinina enn umhverfisvænni.

Hingað til hefur helsta áhersla við markaðssetningu sauðfjárafurða verið á heimamarkaði. Lambakjöt á Íslandi er ódýrt eða um þriðjungi lægra en að meðaltali í ríkjum OECD, þrátt fyrir ótvíræð gæði. Á þessu hagnast íslenskir neytendur sem fá hágæða vöru á lágu verði. Þannig vilja sauðfjárbændur áfram hafa það á innanlandsmarkaði og hlúa að einstöku sambandi bænda og neytenda, en um leið liggja í greininni mikil útflutningstækifæri. Þótt útflutningsverðið sé almennt ekki hátt eru dæmi þess að íslenskt lambakjöt sé selt háu verði erlendis, enda ætti íslenska kjötið að vera með því dýrasta á alþjóðlegum mörkuðum ef miðað er við gæði og framleiðsluhætti.

Mikil tækifæri eru fólgin í fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi og í raun má skilgreina sölu til erlendra ferðamanna sem einfaldasta og nærtækasta form útflutnings. Nú hafa markaðir fyrir íslenskar sauðfjárafurðir verið skilgreindir upp á nýtt sem; innanlandsmarkaður, erlendir ferðamenn á Íslandi og útflutningur. Markaðsráð kindakjöts hefur þegar farið af stað með öflugt markaðsstarf gagnvart erlendum ferðamönnum í samvinnu við ýmsa aðila í ferðaþjónustu, framleiðslu, veitingarekstri og smásölu undir sérstöku upprunamerki og yfirskriftinni ‘‘Icelandic Lamb – Roaming Free Since 874“. Útskýrt er í ítarefni að átt sé við að féð gangi frjálst að sumarlagi innan skilgreindra svæða og undir ströngu regluverki.
Nú þegar hafa verið gerðir samningar við um 50 aðila um notkun upprunamerkisins, sem er mun betri árangur en reiknað var með. Ætla má að um 300 - 500 veitingastaðir, ferðamannaverslanir, handverksframleiðendur o.fl. geti selt vörur undir þessu merki innan fimm ára. Árangur síðustu mánaða er framar björtustu vonum, en 25,1% söluaukning varð á kindakjöti fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 miðað við sama tíma í fyrra samkvæmt tölum Matvælastofnunar.

Framboð af fersku íslensku lambakjöti er árstíðabundið í fáeinar vikur á ári. Almennt fæst hærra verð fyrir ferskt kjöt á alþjóðlegum markaði en frosið kjöt. Hið sama á við um kjöt sem sérstaklega er markaðssett á grunni uppruna eða sérstöðu. Í sauðfjársamningi er gert ráð fyrir því að beita megi stuðlum á gæðastýringarálag til að lengja sláturtíma skv. 4. gr. sem getur stutt við þessa viðleitni. Þá var íslenska sauðkindin tekin inn í Bragðörk hinna alþjóðlegu Slow Food samtaka árið 2015 á grundvelli sérstöðu sinnar og framlags til að stuðla að erfðafræðilegum fjölbreytileika í veröldinni. Þessu til viðbótar er unnið að því að fá alþjóðlegar vottanir sem vísa til sérstöðu og uppruna vörunnar.

Mun hærra verð fæst fyrir lambakjöt sem selt er í útlöndum sérstaklega sem íslenskt, miðað við það sem ekki er sérstaklega selt með upprunatilvísun. Að auki er afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda með því allra lægsta sem þekkist í Evrópu, þrátt fyrir gæði, hreinleika og náttúrulega búskaparhætti. Bændur hér, sem fá um þriðjung af útsöluverði í sinn hlut, horfa til bænda annars staðar sem gera kröfu um tvo þriðju. Þessar staðreyndir, ásamt því hversu vel íslenskt lambakjöt kemur út í alþjóðlegum samanburði og því hversu ódýrt það er miðað við sambærilegt kjöt, þýðir að mikil markaðstækifæri eru til staðar ef bændur, sláturleyfishafar og stjórnvöld geta sameinað krafta sína.

Lykillinn að nýtingu þeirra tækifæra sem bíða þess að verða gripin er að hægt verði að beina stærstum hluta útflutningsins um eina gátt. Þetta er langtíma verkefni og mikilvægt að horfa til þess besta sem gert hefur verið í sjávarútvegi hér á landi og markaðssetningu á hágæðavöru erlendis. Borðleggjandi er að heimfæra Whole Foods nálgunina upp á velmegandi Evrópuríki og sækja þar fram á svipuðum forsendum. Slík sókn er líkleg til að skila verulegri hækkun afurðaverðs til íslenskra sauðfjárbænda þegar fram í sækir. Þess vegna er ráðist í sérstakt átaksverkefni til að auka virði sauðfjárafurða í sauðfjársamningi, sbr. 10. gr. samningsins, þar sem markaðssetning til erlendra ferðamanna og útflutningur eru samþætt.

Í undirbúningi er sérstök markaðsskrifstofa fyrir sauðfjárafurðir þar sem bændur, sláturleyfishafar o.fl. leggja saman krafta sína til aukinnar sóknar inn á kröfuhafa markaði erlendis. Einkum er horft til þess að vinna nýja markaði í Evrópu fyrir upprunavottað hágæða lambakjöt.  Vinna undanfarinna ára gefur tilefni til bjartsýni, en íslenskt lambakjöt er nú þegar á boðstólum í nokkrum sælkeraverslunum eins og Whole Foods Market í Bandaríkjunum og á fáeinum virtum veitingastöðum erlendis.

Gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi og hugarfarsbreyting um allan hinn vestræna heim, í átt til aukinnar neyslu á lífrænum, sjálfbærum og heilnæmum mat, opna margar dyr sem áður voru lokaðar. Öflugt markaðsstarf, að hluta til undir nýju upprunamerki fyrir sauðfjárafurðir, mun efla sauðfjárrækt og styðja þannig við strjálbýlustu svæði landsins, fjölga störfum við úrvinnslu, styðja við nýsköpun, vöruþróun og frumkvæði.

Aukin verðmætasköpun er að mati Landssamtaka sauðfjárbænda eina sjálfbæra leiðin til að tryggja til langframa öfluga sauðfjárrækt til framtíðar með tilheyrandi byggðafestu og traustri afkomu bænda. Hlúa þarf að fjölbreytileika í sauðfjárrækt og liðka fyrir nýsköpun og smáframleiðslu á grunni athafnafrelsis og einkaframtaks innan ramma matvælaöryggis, sjálfbærni, dýravelferðar og umhverfissjónarmiða. Markviss stuðningur við slíka nýsköpun skilar sjálfbærri nýrri verðmætaaukningu og velmegun til langrar framtíðar um allt land. Landssamtök sauðfjárbænda telja nýjan sauðfjársamning öflugt skref á þeirri vegferð.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...