Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hermann Th. Ólafsson á nýjustu viðbótinni á safninu í Grindavík, Fordson árgerð 1918.
Hermann Th. Ólafsson á nýjustu viðbótinni á safninu í Grindavík, Fordson árgerð 1918.
Mynd / VH
Fréttir 18. ágúst 2023

Úr sarpi Bændablaðsins: Klappar vélunum stundum á húddið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í tæplega 400 fermetra húsi í Grindavík er að finna eitt glæsilegasta einkasafn landsins af gömlum dráttarvélum og fornbílum. Vélarnar eru allar gangfærar, spegilbónaðar og ótrúlega glæsilegar á að líta.

Fyrsti traktorinn sem Hermann eignaðist, MCCormick Cub, kveikti áhugann.

Hermann Th. Ólafsson útgerðarmaður er einn eigenda Stakkavíkur. Hann stundar einnig búskap og er með hundrað ær ásamt nokkrum félögum sínum og fjölskyldu. Auk þess stundar hann ræktun á um 50 hestum. Hermann og fjölskylda á eitt glæsilegasta einkasafn landsins af gömlu dráttarvélum og fornbílum.

Útgerðarfélagið Stakkavík í Grindavík er stærsta útgerð landsins í krókaaflamarkskerfinu auk þess að reka ferskfiskvinnslu. Stakkavík gerir út 12 báta og er að láta smíða tvo glæsilega báta í smábátakerfinu.

Hundrað kindur á gjöf

„Föðurfjölskylda mín er ættuð úr Staðarhverfinu sem er nokkra kílómetra frá Grindavík og afi var með rollur þar og pabbi eftir hann og svo tók ég við þeim eftir pabba.

Ég og félagar mínir erum með kindurnar af því að okkur finnst gaman af því og vinnan við þær skiptist á milli okkar. Það borgar sig engan veginn að standa í þessu fjárhagslega og tómt rugl, en samt er skemmtilegt að gefa og hugsa um kindurnar. Hugmyndin er reyndar að fækka þeim en ekki að hætta alveg.“

Féll kylliflatur fyrir Farmal Cub

Hermann segist alltaf hafa haft áhuga á gömlum munum og hafa verið safnari frá því hann var barn.

„Ég safnaði frímerkjum þegar ég var gutti og allt gamalt dót höfðar til mín. Fyrir tæpum áratug var ég að fara með ull í Álafoss og varð litið inn í skúr þar sem ég sá tvo gamla traktora, nýsprautaða Farmal Cub, og mann sem var að gera þá upp. Ég varð strax hugfanginn og fór að tala við manninn og í framhaldinu spurði ég hvort traktorarnir væru til sölu. Hann sagði svo ekki vera en að það væri örugglega hægt að redda slíkum. Nokkrum vikum seinna hringir maðurinn í mig og segist vera kominn með nýuppgerðar Farmal Cub með sláttuvél og öllu. Eftir að hafa skoða traktorinn féll ég kylliflatur og hann er upphafið að safninu.

Hugmyndin var að eiga einn traktor enda taldi ég að þá yrði ég mettur. Það var þó af og frá og ég fékk traktorsbakteríuna sem er skelfileg veiki enda ekkert til við henni nema annar traktor. Lengi hélt ég að þetta tæki enda eða þá að mér tækist að kaupa upp allar áhugaverðustu vélarnar. Svo er þó ekki því það er alltaf verið að glenna framan í mann einhverjum freistingum.“

MCCormick Farmal er í hávegum hafður á safninu.

Á marga Farmala og Fergusona

„Dellan ágerðist mjög hratt og fór svo að ég fór að kaupa upp gamla uppgerða traktora af öllum sortum og gerðum víða um land. Ég á til dæmis allmarga MCCormick Farmal og Ferguson, tvo Duetz og tvo Ford. Efst á óskalistanum í dag er að eignast Allis-Chalmers sem mér finnst mjög fallegir. Nýjasta viðbótin í safnið er gangfær Fordson árgerð 1918, sá eini á landinu, sem ég fékk fyrir skömmu. Auk þess sem mig langar að eignast nokkra tegundir til viðbótar til að bæta í safnið.“

Hermann segist alltaf verða glaður þegar hann hittir aðra áhugamenn um gamlar dráttarvélar og ekki síst ef þeir safna þeim líka. „Sem betur fer eru þeir allmargir og ég er ekki einn í heiminum með þetta ruglaða áhugamál.“

Guli Fergusoninn var lengi notaður á golfvellinum á Djúpavogi. Hermann segir að hörðustu Ferguson-aðdáendur séu ekki hrifnir af litum en að erlendis sé algengt að menn leiki sér með liti þegar þeir eru gerðir upp.

Fjölskyldan taldi mig geðveikan

Hermann segir að fyrst eftir að hann fór að kaupa gamla traktora hafi fjölskyldan talið að hann væri endanlega genginn af göflunum og talaði í alvöru um að senda hann í einhvers konar meðferð.

„Í sjálfu sér er ekkert skrýtið við það. Ég var farinn að pukrast með kaupin og safna í traktorskaupasjóð sem ég hélt leyndum fyrir konunni. Stundum keypti ég tvo sama daginn og lét líta út fyrir að það hefði bara verið einn og var með alls konar feluleiki í kringum þetta.

Svo datt ég í harðari efni og fór líka að safna gömlum bílum.

Sem betur fer hefur mér smám saman tekist að vinna fjölskylduna á mitt band og í dag eiga allir fjölskyldumeðlimir að minnsta kosti einn grip á safninu og hún er farin að vinna með mér í þessu sem gerir allt mun auðveldara.“

Allar vélarnar eru gangfærar

Að sögn Hermanns er að sjálfsögðu dýrt að halda úti safni fyrir gamla traktora og bíla. „Auðvitað er dýrt að gera upp gömul tæki en ég hef reynt að fá allar vélarnar á góðu verði. Ég hef alltaf unnið mikið og þetta er mitt áhugamál og ég set mikið í það í stað þess að stunda golf eða eitthvað annað.

Mér hefur reyndar komið á óvart hvað er auðvelt að fá varahluti í gamlar dráttarvélar og ég er viss um að það sé hægt að panta heilan traktor í pörtum ef maður vill.“

Í húsinu þar sem Hermann geymir gripina eru 25 traktorar og tólf bílar, eitt mótorhjól, allt með skoðun og gangfært, og einn gamall barnavagn. Flest tækin eru í eigu Hermanns og fjölskyldu en nokkur eru í eigu annarra en eru hluti af safninu. Auk þess á Hermann nokkur óuppgerð farartæki sem eru í geymslu annars staðar.

Jeep, Jaguar og Chervolet-pallbíll.

Langar að opna safnið fyrir almenningi

Hermann segir að fyrst eftir að hann kom traktorunum og bílunum í hús hafi hann stundum farið þangað á kvöldin til að horfa á tækin og klappa þeim á húddið vegna þess að hann var svo ánægður með þau.

„Draumur minn er að opna safnið fyrir almenningi og ferðafólki og að einn góðan veðurdag verði það aðdráttarafl sem laðar ferðamenn til Grindavíkur og geti þannig haldið áfram að vaxa og dafna. Ekki bara sem dráttarvéla- og fornbílasafn heldur líka safn með vélum sem tengjast sjávarútvegi og bara alls konar gömlum munum með sögu.

Ég er opinn fyrir því að geyma fyrir fólk gripi sem ekki eru þegar til á safninu og auka gildi þess. Munirnir mundu að sjálfsögðu vera áfram í eigu viðkomandi þótt þeir væru til sýnis á safninu.

Til að gera safnið enn betra langar mig að viða að mér meiri upplýsingum um sögu farartækjanna og gera hana aðgengilega gestum safnsins og auka gildi þess þannig enn frekar,“ segir Hermann Th. Ólafsson, útvegsbóndi í Grindavík.

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...