Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hnusað upp í vorvindinn og spáð í stöðuna.
Hnusað upp í vorvindinn og spáð í stöðuna.
Mynd / ÁBB
Fréttir 4. maí 2020

Út í vorið

Höfundur: Árni Brynjar Bragason ráðunautur, Búfjárræktar- og þjónustusvið - ab@rml.is
Einn vandasamasti tíminn við fóðrun á sauðfé er þegar ánum er sleppt af húsi með lömbin. Þrátt fyrir bætta fóðrun og aðbúnað er þessi vandi um margt meiri en var þegar ærnar gengu meira við opið og voru minna fóðraðar. Þá var frjósemi umtalsvert minni en nú er almennt og margar ær gengu aðeins með eitt lamb. 
 
Ærnar voru í alullu og oftast vanari útiveru að vorinu þegar þeim var sleppt af gjöf. Víða bar féð jafnvel úti og ærnar ekki teknar inn nema þess nauðsynlega þyrfti vegna veðra eða aðhlynningar. Afurðir eftir hverja á voru jafnframt mun minni en nú þykir ásættanlegt. Árvissari heygæði, meiri fóðrun, haustrúningur og markvissar kynbætur er meðal þeirra þátta sem hafa aukið frjósemi í íslenska fénu til muna og þar með afurðir eftir hverja á. Nú er markmiðið að helst allar ær fari út með tvö lömb á eftir sér og hafi jafnframt verið rúnar að hausti og vetri til að ullin flokkist sem söluvara. Þessi aukna fóðrun og afurðakrafa gerir það að verkum að viðbrigðin við að fara af fullri gjöf á húsi yfir á beitina geta verið mikil og jafnvel leitt til þess að mjólkin minnkar í ánum ef illa tekst til. Í þessari grein er farið yfir nokkra þætti sem geta mildað þessa fóðurbreytingu, þannig að ærnar haldi fullri nyt og mjólki lömbum sínum vel þessar fyrstu vikur í lífi þeirra. Vöxtur lamba fyrstu sex til átta vikurnar hefur mjög mikil áhrif á hvaða þroska má vænta hjá þeim að hausti og þar með á tekjur búsins. 
 
Lambféð gengur að skjólinu vísu í vor. Eitt af þremur vorskjólum á Gaul í Staðarsveit. Mynd / Heiða Helgadóttir
 
Ástand ánna á síðustu vikum fyrir burðinn
 
Á síðustu vikum meðgöngu aukast fóðurþarfir ánna verulega á sama tíma og átgetan minnkar vegna aukinna rýmisþarfa fósturs og fylgju. Fóðrun á þessu tímabili þarf að taka mið af því í hve miklum holdum ærnar eru þegar að þessum tíma kemur. Þær þurfa að hafa nokkurn forða utan á sér um burð sem þær geta nýtt til mjólkurmyndunar fyrir lömbin og eins og eðli þeirra stendur til. Það er samt  ekki æskilegt að ærnar séu akfeitar við burð og talið æskilegra að þær séu örlítið farnar að taka af sér síðustu eina til tvær vikurnar fyrir burð svo viðbrigðin við að fara yfir í mjólkurmyndun séu þeim léttari. Það eykur einnig átlyst strax eftir burð ef ærin er örlítið farin að taka af holdum áður en hún ber. Það verður þó alltaf að horfa til þess í hvaða holdum ærin er. Hér kemur til góða að ærnar hafi getað nýtt veturinn til þess að bæta á sig holdum til að eiga talsvert af að taka um og eftir burðinn. Það er annars ekki ætlunin að fara djúpt í fóðrun sauðfjár í þessum pistli en góð lesning um fóðrun er t.d. 4. kafli í bókinni Sauðfjárrækt á Íslandi, Fóðurþarfir og fóðrun sauðfjár, eftir Jóhannes Sveinbjörnsson. 
 
Það er ákaflega misjafnt milli bæja hve mikið ám er hleypt út yfir gjafatímann. Rúningur að hausti og aftur seinnipart vetrar er mjög almennt búskaparlag og fyrst eftir rúning geta ærnar ekki farið út nema í blíðviðri. Ef vel er fóðrað ullast þær þó fljótt og því er mjög æskilegt að hleypa þeim út öðru hvoru til að hreyfa sig aðeins. Þetta á ekki síst við undir lok meðgöngunnar og er það trú margra bænda að útvera og hreyfing fyrir burðinn minnki þörf á burðarhjálp. Einar Kári Magnússon skoðaði áhrif útivistar áa á síðari hluta meðgöngu á burðarerfiðleika, fæðingarþunga og vaxtarhraða lamba í BS verkefni sínu við LBHÍ árið 2009. Rannsóknin var gerð á tilraunabúi LBHÍ að Hesti og voru bornir saman tveir hópar áa. Annar hópurinn hafði aðgang að útivist en hinn ekki. Helstu niðurstöður voru að ekki kom fram marktækur munur á burðarerfiðleikum á milli hópa. Burðarerfiðleikar voru þó aðeins meiri í útihópnum enda voru lömb útiánna þyngri við fæðingu og þau uxu jafnframt heldur hraðar fram að fjallrekstri. Það kom einnig fram í þessari rannsókn að ærnar sem gengu við opið héldu holdum betur og þyngdust meira en ærnar í innihópnum. Þetta má hugsanlega túlka á þann veg að fæðingarþungi lamba hafi meiri áhrif á þörf á burðarhjálp en útivera og hreyfing ánna fyrir burðinn. Fæðingarþungi lamba hefur síðan sterk tengsl við fóðrun ánna síðustu vikurnar fyrir burð. 
 
Margar ær slíta klaufum ekki nægjanlega vel í húsvistinni þó gólfgerðir hafi þar  mikil áhrif. Mikilvægt er að snyrta klaufir á ánum eftir þörfum áður en þeim er sleppt af húsi og er best að snyrta klaufir á öllu fénu t.d. 4-6 vikum fyrir burð. Það er óþarfa álag á fætur hjá ánum að vera með ofvaxnar og skældar klaufir á síðustu vikum meðgöngunnar. Það er einnig mikill léttir á sauðburðarvinnunni að þurfa lítið sem ekkert að huga að klaufsnyrtingum þegar svo ótal margt annað kallar á.  
 
Sleppt af húsi
 
Í flestum sveitum hér á landi hagar þannig til að þörf er á að nýta túnbeit að vori til að brúa bilið þar til úthagi er tilbúinn til beitar. Algengt er að lambám sé beitt á tún í tvær til fjórar vikur að vorinu. Þessi tími er mjög mikilvægur þar sem þarna á ærin að vera að auka nyt sína í takt við vaxandi næringarþarfir lambanna. 
 
Tímasetning sauðburðar á mjög mörgum búum miðast við að í meðalári sé hægt að setja lambfé út á beit eftir u.þ.b. viku innistöðu eftir burð. Næringarþörf ánna er best sinnt með nýgræðingnum þó seint sé hægt að uppfylla fóðurþarfir alveg og mjólkurlagnar ær ganga á eigin forða eins og þarf til að fullnægja eftirspurn lambanna. 
 
Oft þurfa þær sem fyrst bera að bíða lengur en viku eftir grængresinu. Það er heldur ekki alltaf hægt að reikna með meðal árferði eða þaðan af betra. Það er því  mjög mikilvægt að hafa ríflegt pláss, ef ekki á húsi þá nálægt húsum í skjólgóðum útihólfum þar sem hægt er að gefa fénu fulla gjöf. 
 
Breytilegt er milli ára hvenær heppilegt er að byrja á að sleppa lambánum á túnin og þar með reikna með að þær sæki viðurværi sitt þangað að mestu. Það er ekki nóg að á túnin sé komin grænn litur og best er ef blaðvöxtur er komin vel af stað. 
 
Ef farið er að beita túnin of snemma eru þau lengur að ná sér af stað í sprettu og bera ekki eins mikla beit og annars hefði verið. Ef mögulegt er að staldra aðeins við með fyrstu hópana og gefa þeim heldur í minni hólfum heima við hús þá getur munað verulega um hvern daginn sem grösin fá til að komast af stað í sprettu óáreitt. Vitanlega fer þetta þó einnig eftir stærð landsins og fjölda fjár sem þangað er látin. Það getur verið komin næg beit fyrir fáar lambær en grösin hafa e.t.v. ekki undan að halda uppi nægu framboði ef stórum hópum er dembt á túnin í byrjun gróandans og beitarframboðið getur þannig orðið minna en það var. Hólfaskipting krefst fjárfestingar en getur skilað sér í betri beitarnýtingu og minni vanhöldum lamba. Þetta á  t.d. við ef hægt er að hafa gemlinga með lömb í sérstöku hólfi, sérstakt hólf fyrir ær með þrjú lömb og ær/lömb sem öruggara er að hafa undir sérstöku eftirliti um tíma.
 
Margir gefa ánum ormalyf um leið og sleppt er af húsi. Það hjálpar til við að minnka hættu á að sníkjudýrasmit byggist upp í vorbeitarhólfunum. Eftir vorbeit á túnum og þrengri hólfum getur verið gott að gefa  lömbunum ormalyf þegar þeim er sleppt í sumarhagana, jafnvel allri fjölskyldunni ef þörf er talin á. Hníslar eru sumsstaðar vandamál og þarf þá að beita viðeigandi ráðum í samráði við dýralækni. Mest hætta er á umtalsverðu orma- og hníslasmiti í þröngbeittum hólfum og þá ekki síst ef þannig er farið bæði að vori og hausti.
 
Tíðarfarið hefur vitanlega mikil áhrif á beitarframboðið, á köldum og þurrum dögum gerist lítið sem ekkert en í hlýju og rekju æðir grasið upp og féð hefur alls ekki við að éta allt jafnharðan. Til þess að styðja við sprettuna á túnum sem eru beitt að vori er mjög æskilegt að bera á þau a.m.k. hálfan áburðarskammtinn áður en beitin hefst. Þannig þolir grasið betur beitina og áhrif vorbeitar á heyuppskeruna verða væntanlega minni.  Hvernig þetta spilast er í raun aldrei eins milli ára. Það eru ákveðin plön sem jafnan lagt er upp með en það er í raun stöðug vakt hvernig skuli brugðist við duttlungum vorgyðjunnar til að tryggja hagsmuni lambánna sem best. Þar er tvennt sem getur skipt miklu, annarsvegar nægt framboð af lystugu heyi með beitinni og hinsvegar skjól eftir þörfum. Þó ærnar sýni heyi lítinn áhuga fyrst eftir að þeim er sleppt á nýgræðinginn þá leita þær í heyið síðar, jafnvel þó beitarframboðið sé allgott. Gott hey með beitinni mildar fóðurbreytinguna og svo er það algerlega nauðsynlegt ef sprettan er hæg og gengur verulega á þá nál sem komin er. En hvaða mælikvarðar voru notaðir á árum áður við annað búskaparlag þar sem ekki var lagt upp með að beita fyrst á tún? Hér er tvö dæmi þar um; a) Ljónslappi hefur breitt úr blöðum sínum, geldfé á að getað bjargað sér. b) Birki alllaufgað, nægur gróður fyrir tvílembu í úthaga. Það er sjálfsagt að hafa gamla mælikvarða á bakvið eyrað þó nú séu aðrir tímar. Hver plöntutegund þarf ákveðin veðurskilyrði til að komast af stað og gróandinn hefur sín föstu þrep en misjafnt milli ára hvaða dag þau eru stigin. 
 
Skjólið skiptir sköpum
 
Skjól í beitarhólfum er mjög mikilvægt, hvort sem er frá náttúrunnar hendi, af trjágróðri eða af einhverskonar mannvirkjum. Aðstæður eru mjög mismunandi milli jarða, víða eru góð skjól frá náttúrunnar hendi og þau svæði gjarnan nýtt sem vorbeitarhólf en það er einnig algengt að vorbeitarhólfin séu flatlend og skjóllítil. Við þær aðstæður er mikið gagn af manngerðum skjólgjöfum hverskonar og verulega má draga úr neikvæðum áhrifum vorhreta á féð ef það getur leitað í skjól fyrir harðasta veðrinu. 
 
Skjólið sem ærnar hafa utan á sér getur þó verið enn mikilvægara, einkum ef vorbeitarsvæðin eru skjóllítil. Almennt séð er óráðlegt að alrýja ærnar ef minna en sex vikur eru í burð hjá þeim. Þegar svo stutt er í burðinn ná þær ekki að ullast að gagni fyrir burð og eru því „illa klæddar“ ef tíðarfar er rysjótt eftir að þær eru komnar út. Alla jafna er því ráðlegt að snoðrúningi/vetrarrúningi ljúki fyrir vorjafndægur en fer þó vitanlega eftir burðartíma. Athugandi er að skilja eftir ull á eldri ám og í því sambandi rétt fyrir hvert bú að meta hve vel er hægt að hlúa að ánum eftir burð ef gerir leiðinlega tíð. Óþarft er að hreinsa snoð innan úr lærum eða af kvið. Þó góð ullarhirða sé af hinu góða og sumum þyki „snyrtilegra“ að hvergi megi sjá mislanga lokka á ánum, má gæta sín á að hafa þær ekki alveg berskjaldaðar gegn vosbúð og kulda þegar út er komið.
 
Það má segja að á flestum búum sé til einhvers konar viðbragðsáætlun við mismunandi sviðsmyndum vorsins. Þessar viðbragðsáætlanir eru vitaskuld engin nýlunda hjá bændum en þær er þó mjög mismunandi vel útfærðar ef bregður til hins verra. Einhverjir mega ugglaust velta meira fyrir sér hvernig brugðist skuli við svartari sviðsmyndum og hvort efla megi forvarnir, svo dottið sé nú inn í ríkjandi málfar liðinna veiru-vikna.  Megi vorið 2020 verða landsmönnum hagfellt bæði  til sjávar og sveita.
Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...