Úrkoman kom í hæfilegum skömmtum
Ágætar uppskeruhorfur eru sunnanlands fyrir útiræktað grænmeti nú í lok ágústmánaðar.
Á Norðurlandi má hins vegar búast við tveggja til þriggja vikna seinkun á markaðssetningu grænmetisins miðað við meðalárferði.
Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands, segist hafa nýlega heyrt í bændum á Suðurlandi, sem segja að allt stefni í að flest allar útiræktaðar grænmetistegundir berist í verslanir á svipuðum tíma og venjulega – þeir séu nú þegar byrjaðir fyrir nokkru að uppskera. Norðlenskir bændur séu hins vegar enn í talverðri óvissu því alltaf sé hætta á því að það frysti á þessum árstíma – sem geti haft afdrifarík áhrif á flestar grænmetistegundir.
Á pari við meðalárið
„Það má kannski segja að það sé einmitt um þetta leyti [í kringum 15. ágúst] sem bændur hér sunnanlands vanalega byrja að taka upp gulrætur og kartöflur í einhverju magni til að setja á markað. Held það sé alveg óhætt að segja að uppskeruhorfur núna á Suðurlandi fyrir útiræktað grænmeti séu á pari við meðalárið.
Blómkál og brokkólí kemur svo alltaf aðeins seinna á markað, en káltegundirnar eru líka alveg á réttu róli,“ segir Axel.
Kaldur og blautur júlímánuður
„Það var ofboðsleg bjartsýni í maí og byrjun júní meðal bænda, en svo var júlí bara mjög kaldur og blautur. Þá hægði á öllu en nú lítur allt út fyrir að þetta verði bara meðalár hérna á Suðurlandi – kannski aðeins betra. Kartöflumyglan hrjáir ekki kartöflubændur þetta sumarið eins og í fyrra þegar hún olli miklum skaða. Þeir voru undirbúnir og gátu gripið til fyrirbyggjandi aðgerða. Eini selleríræktandi landsins, á Hverabakka II, er fyrir nokkru farinn að pakka því á fullu fyrir markaðssetningu og sömuleiðis er kínakálið á leið í búðir,“ segir Axel.
Hann bætir því við að ef til vill hafi einhverjir búist við verri horfum á Suðurlandi, vegna vætutíðar, en það sem hafi í raun ráðið mestu er að úrkoman kom í hæfilegum skömmtum – að ekki rigndi samfleytt í langan tíma.
Kalt og blautt á Norðurlandi
„Bændur á Norðurlandi fara heldur verr út úr þessu sumri. Þar er búið að vera ofboðslega kalt og blautt. Uppskeran þar verður tveimur eða jafnvel þremur vikum á eftir áætlun – sem þýðir að ekki er hægt að búast við miklu á markað í ágústmánuði frá norðlenskum garðyrkjubændum í útiræktun.
Ef hins vegar ágústmánuður verður góður og ekki frystir þannig að þeir geti geymt grænmetið lengur í görðunum, þá er alveg möguleiki á því að heildaruppskeran þar verði allt í lagi. En það má alls ekki frysta, sem þó er alltaf mögulegt í ágúst,“ segir Axel.
Stuðningurinn við útiræktun
Á undanförnum misserum hefur ítrekað komið fram í áherslum stjórnvalda hvað varðar fæðu- öryggismál og grænmetisframleiðslu á Íslandi, að auka þurfi hlutfall innlendrar framleiðslu verulega.
Sömuleiðis hefur ítrekað komið fram að vegna þess hversu stór fjárfesting það er fyrir unga garðyrkjubændur að hefja eigin framleiðslu – og fjármögnunarleiðir séu þeim ekki greiðar – þá verði ekki sú fjölgun í stétt garðyrkjubænda né nýliðun sem nauðsynleg sé til að nægilegur vöxtur geti orðið.
Axel segir að mikilvægir tímar séu fram undan þar sem undirbúningsvinna fyrir endurskoðun búvörusamninga muni eiga sér stað. „Ég hef í sumar verið að benda aðeins á þörfina fyrir betri stuðningi við greinina, en það er erfitt á þessum árstíma að fá einhvern hljómgrunn hjá stjórnsýslunni fyrir samtali. Það sem bíður okkar er að undirbúa vel núna í haust og byrjun vetrar endurskoðun búvörusamninga sem verða á næsta ári. Við verðum tilbúin með góðar tillögur að því sem við viljum sjá að verði gert til að mæta þessum áherslum stjórnvalda varðandi aukna innlenda grænmetisframleiðslu.“
Hann segir enn fremur að til að ná fram markmiðum um aukna hlutdeild innlendrar grænmetisframleiðslu sé ljóst að það þurfi að koma til mun meiri fjárhagslegur stuðningur við garðyrkjubændur. „Það verður svo verkefni að finna út úr því hvernig sá stuðningur nýtist greininni sem best; til dæmis til nýliðunar og þeim bændum sem fyrir eru – til að viðhalda því úrvali grænmetis sem er fyrir en þannig að hægt sé að auka talsvert við bæði í tegundum og í magni. Það er vilji stjórnvalda og við búumst við því að honum verði komið til leiðar í gegnum búvörusamningana,“ segir Axel.