Væta hefur aftrað dúntekju hjá Vigurbændum
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
„Það er búið að vera hræðilegt veður fyrir æðafugla á þessu svæði, bæði hvasst og óvanalega mikil væta. Þetta hefur væntanlega þau áhrif að dúntekja verður töluvert minni,“ segir Salvar Ólafur Baldursson, bóndi í Vigur í Ísafjarðardjúpi. Vegna votviðris var dúntekja ekki hafin í í byrjun júní en Salvar vonaðist eftir að geta hafist þá handa sem fyrst.
Varp hófst á svipuðum tíma og undanfarin ár og er nú fullsest. „Æðarkollurnar setjast upp fyrr en hann gerði fyrir 20 árum. Það munar um viku. Nú erum við að finna orpið 2 .–3. maí en það var alltaf í kringum 10.–11. maí áður fyrr.“
Salvar ætlar að árlega séu í Vigri um 2.500–3.500 hreiður æðarfugla en fjöldinn hafi haldist svipaður sl. 20–30 ár.
Verðfall ekki áhyggjuefni
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 525 kíló af hreinsuðum æðardún flutt út á fyrstu þremur mánuðum ársins. Fyrir það fengust tæplega 110,7 milljónir á svokölluðu FOB-verði. Á sama tíma í fyrra höfðu 789 kíló verið flutt út fyrir um 165,4 milljónir og árið 2015 höfðu fengist 256 milljónir fyrir 724 kíló.
Salvar segir verð á dún líklega vera að gefa eftir út af gengi íslensku krónunnar. „Menn gátu aðeins tryggt sig gagnvart gengisstyrkingunni en mér sýnist það gæti orðið svolítið erfitt að halda verðinu.“ Þetta valdi mönnum þó litlum áhyggjum enda eru æðarbændur vanir verðflökti. „Við höfum oft upplifað verðfall á dúninum. Menn vita að það skiptast á skin og skúrir. Stundum er verðið gott og stundum lélegra,“ segir Salvar.
Ekkert lát er heldur á lundanum í Vigur og að sögn Salvars er nokkuð mikið um hann í ár. Þá sé krían nytsamlegur vinnufélagi í æðarbúskap. „Hér er þó nokkuð mikið kríuvarp, en það er gott að hafa hana. Hún skrattast í mávunum og hröfnum og maður sér þá hvað um er að vera.“