Varnarlínur breytast
Með nýjum tólum er líklegt að áherslan á varnarlínur og niðurskurð minnki í baráttunni við búfjársjúkdóma.
Með innflutningi á sauðfé komu til landsins áður óþekktar pestir. Mæðiveiki, garnaveiki og riða ollu miklum búsifjum en með sauðfjárveikivörnum tókst að útrýma fyrstnefndu sóttinni. Með bóluefni hefur tekist að halda garnaveiki niðri.
Á síðustu misserum hafa orðið þáttaskil í baráttunni gegn riðu eftir að arfgerðir sem eru alþjóð- lega staðfestar sem riðuónæmar fundust í íslensku sauðfé. Með því verði hægt að rækta upp ónæmi í sauðfjárstofninum sem breyti nálguninni í sauðfjárveikivörnum. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir rétt að leggja mat á gildi núverandi fyrirkomulags í ljósi þess að við séum komin með fleiri verkfæri í verkfærakistuna.
Sérfræðingahópur skipaður af matvælaráðherra er að rýna tillögur frá fulltrúum sauðfjárbænda um breytingar á sauðfjárveikivörnum. Þær snúi í fyrsta lagi að uppbyggingu hjarðar eftir riðuniðurskurð. Í öðru lagi útfærslu á aðgerðum þegar riðuveiki greinist. Í þriðja lagi hvernig standa skuli að ræktun gegn riðuveiki. Von er á niðurstöðum 1. nóvember næstkomandi.
Sjá nánar á bls. 20–21. í nýju Bændablaði sem kom út í dag