Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Vaxandi pressa á Kanadamenn um að miðla vatni til Bandaríkjanna
Fréttir 6. maí 2015

Vaxandi pressa á Kanadamenn um að miðla vatni til Bandaríkjanna

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í Kanada horfa menn nú til vaxandi möguleika á sölu á neysluvatni í kjölfar þess alvarlega vatnsskorts sem blasir við Bandaríkjamönnum. Talað er um Kanada sem leiðandi vatnssöluþjóð á heimsvísu. 

Jay Famiglietti, vísindamaður hjá NASA í Bandaríkjunum, skrifaði grein  í Los Angeles Times í byrjun þessa mánaðar og sagði að Kalifornía ætti aðeins eftir um eins árs birgðir af vatni í sínum vatnsbólum. Jeffrey Kightlinger, forstjóri Metropolitan Water District í Suður-Kaliforníu, segir að málið sé kannski ekki alveg svo slæmt en spurning hvar menn dragi lágmarksmörkin. Hann segir að sitt veitukerfi, sem þjóni 19 milljónum manna, eða um helmingi Kaliforníubúa, hafi yfir að ráða vatnsbirgðum sem dugi til þriggja ára ef fyllsta aðhalds sé gætt.

„Það er samt bara til þriggja ára. Stjórnvöld ríkisins verða að finna leiðir til að glíma við þurrkana nú þegar. Engin leið sé til að komast hjá því. Borgarbúar og bændur verði að draga úr vatnsnotkun. Í einhverjum tilvikum mun reynast nauðsynlegt að neyða þá til þess,“ segir Kightlinger.

Sumir bændur þegar orðnir vatnslausir

Bendir hann á að fólk verði að draga úr sturtunotkun, vatnsnotkun við uppvask og fleira. Um 80% af vatnsnotkuninni fer til ræktunar ávaxta og annarra nytjajurta á þessu sólríka svæði. Á síðasta ári neyddi vatnsskortur bændur til að hætta ræktun á um 160 þúsund hekturum. Þá munu bændur ekki sá í um 400.000 hektara á þessu ári. Sumir bændur í Kaliforníu eru reyndar þegar orðnir algjörlega vatnslausir. Ef menn vilji fá ávexti og grænmeti frá þessu svæði er það þegar orðið stórmál. Á árinu 2013 voru fluttar út landbúnaðarvörur frá Kaliforníu fyrir um 21 milljarð dollara. Þar hefur farið fram um helmingur hneturæktunar Bandaríkjanna. Án vatns verður þessi ræktun sem og ræktun sítrusávaxta og fleiri tegunda að engu.

Vandinn er víðtækur

Vandinn er síður en svo einskorðaður við Kaliforníu, því samkvæmt mælingum NASA er hratt gengið á grunnvatnsbirgðir víða um Bandaríkin og út um allan heim. Það sem gerir vanda Kaliforníu þó enn meiri er að snjósöfnun í fjöllunum hefur verið með allra minnsta móti í vetur. Því sagði ríkisstjórinn Edmund G. Brown Jr. það í yfirlýsingu þann 1. apríl sl. að meiri þurrkar í ríkinu en nokkru sinni hafi sést kalli á óvenjulegar aðgerðir. Er yfirlýsingin nákvæmlega útfærð í 20 liðum. Þá sagði Brown: „Sem Kaliforníubúar verðum við að vinna saman að því að spara vatn með öllum tiltækum ráðum.“

Fela neyðaráætlanir ríkisstjórans í sér mjög víðtækar heimildir til aðgerða. Í þeim felst m..a skipun um að Kaliforníubúar dragi úr vatnsnotkun sinni um 20%. Þá er hvatt til þess að yfirvöld uppfæri lagaheimildir sínar til að draga úr vatnsnotkun í landbúnaði.

Harðar reglur um vatnssparnað

Samkvæmt reglum sem settar hafa verið í Kaliforníu er nú bannað að nota vatnsúðakerfi í görðum allan sólarhringinn, að nota neysluvatn í gosbrunna og til að þrífa gangstéttir og götur. Þá er bannað að nota úðara til að þvo bíla. Veitingastaðir mega aðeins bjóða gestum sínum upp á vatn ef það er sérstaklega beðið um það. Þá verða hótel og mótel að bjóða gestum sínum upp á að handklæði og fatnaður sé ekki þveginn daglega. Vatnsveitur verða að setja reglur sem takmarka vatnsúðun utanhúss. Upplýsa viðskiptavini sína um mögulegan  leka í vatnslögnum þeirra, skila mánaðarlegum upplýsingum um vatnsnotkun og endurbætur. 

Þessar ákvarðanir eiga sér drjúgan aðdraganda, því viðvarandi þurrkar hafa staðið yfir síðan 2012. Í maí 2013 fékk Brown samþykktar aðgerðir til að tryggja yfirvöldum vatnsréttindi. Í desember 2014 lét hann stofna sérstaka þurrkaneyðarsveit Drought Task Force til að undirbúa aðlögun að yfirvofandi vatnsskorti. Í þessari neyðarsveit eiga sæti menn úr auðlindaskrifstofu ríkisins, ráðuneyti vatnsmála, stjórn vatnsauðlinda og neyðarþjónustu ríkisins.

Hafa hugmyndir manna um lausn á vatnsvanda Kaliforníubúa nú leitt til umræðu um að dæla vatni frá Kanada um leiðslur til Kaliforníu. Hefur þessi hugmynd skotið upp kollinum í tengslum við fyrri hugmyndir manna um að flytja olíu frá Kanada sömu leið.

Mikilvægi vatnsríkra þjóða mun aukast verulega

Vísað er til þess að eftirspurn eftir ferskvatni á heimsvísu muni aukast um 40% fram til 2025. Þetta mun án efa verða vatn á myllur þjóða sem búa við miklar vatnslindir, eins og Kanada, Íslands, Noregs og Grænlands. Líklega er þarna um auðlind að ræða sem gera mun þessar þjóðir mikilvægari en stærstu olíuríkin eru í dag. Reyndar gæti Rússland og sumar Suður-Ameríkuþjóðir eins og Brasilía einnig tilheyrt þessum ríkjahópi, en þar er vatnsgæðunum reyndar mjög misskipt innan landamæra hverrar þjóðar. Á nokkrum svæðum í Rússlandi er t.d. vatnsskortur eins og á Krímskaga á meðan sum önnur svæði búa við gnægð vatns.

Kanadamenn komi til hjálpar

Sölumöguleikar Kanadamanna á vatni til Bandaríkjanna hafa verið til umræðu í mörg ár. Í febrúar í fyrra sagði Gary Doer, kanadíski sendiherrann í Washington, að Kanadamenn yrðu að búa sig undir diplómatískt vatnsstríð við Bandaríkin.

Ljóst er að í miðvesturríkjum Bandaríkjanna og í Kaliforníu blasir við stórkostlegur vatnsskortur. Í Kaliforníu hafa tapast um 40% þeirra vatnsbirgða sem þar var að finna, og yfirborð stöðuvatna sem og vatnshæð grunnvatns hefur snarlækkað. Eitt stærsta þekkta grunnvatnsforðabúr heims heitir Ogallala og liggur undir ríkjunum Nebraska, Colorado, Kansas, Oklahoma og Nýju Mexíkó. Þetta neðanjarðarvatn myndaðist fyrir milljónum ára vegna bráðnunar jökla í Klettafjöllunum. Með borunum og uppdælingu á þessu grunnvatni hefur verið gengið verulega á birgðirnar. Grunnvatnsstaða í Texas, Oklahoma og Kansas hefur því lækkað um meira en 30 metra samkvæmt upplýsingum landbúnaðarráðuneytis Banda­ríkjanna. Þetta eykur þrýsting á að Kanadamenn komi til hjálpar.

Vatnsstríð sagt í uppsiglingu í Bandaríkjunum

Hluti af þeim vanda sem við blasir í Bandaríkjunum endurspeglast í hugmyndum forsvarsmanna 70 þúsund manna byggðar í Waukesha-borg skammt frá bökkum Michigan-vatns. Þeir lögðu til fyrir um ári síðan að þeir fengju að nota hreinsað vatn úr Michigan-vatni til að leysa þeirra bráðavanda í vatnsmálum. Þetta vakti strax blendnar tilfinningar og ágreining innan Bandaríkjanna. Keith Hobbs, borgarstjóri í Thunder Bay, sagðist þá vilja vernda vatnið þar sem vatnsstaðan væri þegar orðin mjög lág. Það hafi þegar haft mikil áhrif á atvinnugreinar á svæðinu, allt frá iðnaði til ferðaþjónustu. Í því sambandi hefur verið bent á að fyrir hverja tommu sem vatnsyfirborðið lækkar gætu flutningaskip sem sigla um vatnið ekki siglt með eins mikinn farm vegna djúpristu. Því kallaði lækkandi yfirborð á meiri skipaumferð um vatnið til að flytja sama vörumagn með tilheyrandi kostnaði.  

Talsmenn Waukesha sögðu aftur á móti að það sem þeir væru að fara fram á jafnaðist á við að taka teskeiðarfylli úr sundlaug.

Keith Hobbs sagði að ef farið yrði að ósk yfirvalda í Waukesha væri þar með verið að setja hættulegt fordæmi sem gæti vakið vatnsstríð. Það lítur reyndar út fyrir að slík stríð séu í uppsiglingu hvort sem er, segir í grein Gary Mason í The Globe and Mail. Talað er um að ágreiningur um lagnir olíuleiðslu frá Kanada suður til Bandaríkjanna muni líta út sem barnaleikur í samanburði við möguleg átök um vatnið.

Búist við að vatn verði uppspretta vopnaðra átaka

Leyniþjónusta Bandaríkjanna spáði því árið 2012 að þegar kæmi fram á árið 2022 gæti vatnsskortur leitt til vopnaðra átaka og upplausnar ríkja í heiminum. Vatn gæti orðið til að auka hryðjuverk til muna, einkum í Suður-Asíu, Mið-Austurlöndum og í Norður-Ameríku.
Kanadíski sendiherrann Gary Doer sagði í viðtali við The Globe and Mail að möguleg sala á vatni suður til Bandaríkjanna yrði þá væntanlega hluti af samningum um tollfrelsi á milli ríkja í Norður- Ameríku. Um leið og skrúfað væri frá yrði ekki aftur snúið. Þá yrði kanadískt vatn hluti af öryggismálum í Bandaríkjunum.

„Þó það kunni að hljóma ógnvænlegt í augnablikinu, þá ættu menn ekki að útiloka þann möguleika. Vaxandi pressa er frá degi til dags um Kanadamenn miðli af sínu dýrmæta vatni.“

Skylt efni: Umhverfismál | vatn

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...