Vaxtalækkun lána
Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefði samþykkt lækkun álags á óverðtryggðum lánum til landbúnaðar.
Fór álagið úr 3,5% á REIBOR í 2,5% á REIBOR. Þá fór álag á lánum til kynslóðaskipta í landbúnaði úr 3,3% á REIBOR í 2,0% álag á REIBOR. Að auki hefur stofnunin komið til móts við bændur með frestun greiðslna og öðrum breytingum á skilmálum lána til að létta undir eins og kostur er.
Nýsköpun og frekari uppbygging
Samkvæmt frekari upplýsingum frá forstöðumanni fyrirtækjasviðs, Hrund Pétursdóttur, lækkuðu að sama skapi kjör óverðtryggðra lána Byggðastofnunar í lánaflokkunum nýsköpunarlán, græn lán og lán til stuðnings atvinnureksturs kvenna nú um áramótin.
„Lánaflokkarnir eiga það sammerkt að ýta undir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í lands- byggðunum og þá sérstaklega í viðkvæmari byggðarlögum. Er markmiðið því að styðja betur við þau verkefni sem þegar hafa fengið fjármögnun úr þessum lánaflokkum og hvetja til frekari uppbyggingar í byggðum landsins. Hafa bændur einnig sótt fjármagn í þessa lánaflokka, t.d. með virkjun bæjarlækja eða til nýsköpunar í framleiðslu.“
Þessu er við að bæta að stjórn Evrópska fjárfestingasjóðsins (EIF) samþykkti á fundi sínum þann 8. febrúar að hefja samninga-viðræður við Byggðastofnun um aðild að InvestEU ábyrgðasamkomulagi sjóðsins. Byggðastofnun var áður aðili að COSME ábyrgðasamkomulagi EIF en það hefur gert stofnuninni kleift að m.a. bjóða fyrrnefnd lán til kynslóðaskipta í landbúnaði þar sem lægri krafa um eigið fé og aukinn sveigjanleiki með greiðslur í upphafi gerir ungum bændum auðveldara um vik að hefja búskap.
Aukinn og rýmri stuðningur
Þátttaka Íslands í InvestEU áætlun Evrópusamstarfsins gefur fyrirheit um stórauknar fjárfestingar í nýsköpun, stafrænni væðingu og grænum lausnum hér á landi.
„Í samtalinu við EIF um aðild að InvestEU ábyrgðasamkomulaginu nú verður áfram horft til þess að styðja við nýliðun í landbúnaði.
Þá verða lán til grænna verkefna útvíkkuð frekar auk þess sem lánaflokkur til brothættra byggða er á teikniborðinu. Vonir eru bundnar við að endanlegt samkomulag liggi fyrir í vor, en takist það munu hinar dreifðari byggðir landsins áfram njóta góðs af,“ segir Hrund Pétursdóttir.