Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fréttir 2. nóvember 2015
Vaxtarmöguleikar Vestfjarða líða fyrir lélega vegi og fjarskipti
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sextugasta Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið var á Patreksfirði dagana 2. og 3. október síðastliðinn gerir þá kröfu að staðið verði við verkefni í samgönguáætlun 2011–2022 nú við endurskoðun áætlunarinnar.
Í ályktun þingsins segir að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafi gefið fyrirheit um að verkefni í samgöngumálum á Vestfjörðum fái forgang. Hagkerfi og vaxtarmöguleikar Vestfjarða líði fyrir það að vegir og fjarskipti eru á mörgum stöðum árum og áratugum á eftir því sem gengur og gerist í nútímasamfélagi. Brýnustu úrlausnarefnin eru:
-
Vegagerð um Gufudalssveit í Barðastrandarsýslu á Vestfjarðavegi 60 með útboði eigi síðar en haustið 2016.
-
Að standa við áætlanir og fyrirheit um gerð Dýrafjarðarganga 2016–2019 með útboði fyrir árslok 2016 og að endurgerð vega um Dynjandisheiði verði flýtt eins og kostur er.
-
Að vinna að uppbyggingu nýs vegar í Árneshreppi þar sem næsti áfangi er Veiðileysuháls í framhaldi af útboði á Bjarnafjarðarhálsi.
-
Endurbygging stofnvega með einbreiðu slitlagi, þar sem brýnust er endurbygging Djúpvegar 61 í Seyðisfirði og Hestfirði í samræmi við áherslur Vegagerðarinnar.
-
Áfram verði unnið að því að útrýma einbreiðum brúm á Vestfjörðum.
-
Að jarðgöng á milli Ísafjarðar og Súðavíkur komist inn á samgönguáætlun, sem næstu jarðgöng á eftir Dýrafjarðargöngum.
Með þessum áföngum verður loks hægt að segja að allir þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum og öll byggðarlög hafi komist í ásættanlegt vegasamband innan héraðs og við aðra landshluta. Fjórðungsþing Vestfirðinga minnir síðan á, að á meðan stór hluti vega á Vestfjörðum er ekki kominn með bundið slitlag, er mikilvægt að tryggja fjármuni til viðhalds vegakerfisins. Viðhald vega er mikilvægur öryggisþáttur sem ekki má gleymast, ekki síst nú með vaxandi umferð ferðamanna árið um kring.
Hrafnseyrarheiði er lokuð vegna snjóa marga mánuði á ári.
Fjórðungsþing Vestfirðinga lýsir ánægju sinni með 7 daga mokstur en krefst þess að þjónustustig verði hækkað úr flokki þrjú í flokk tvö, gildir það um Vestfjarðaveg 60 sem og Djúpveg 61.
Fjórðungsþing Vestfirðinga krefst þess einnig að farið verði í endurbætur á vegum að helstu ferðamannaperlum Vestfjarða, svo sem Látrabjargi, Dynjanda, Trékyllisvík og Kaldalóni til að styðja uppbyggingu ferðaþjónustu og auka öryggi vegfarenda. Ljóst má vera að íslenskt þjóðfélag verður af miklum tekjum á ári hverju vegna lélegs ástand vega á þessum stöðum.
Flugsamgöngur
Innanlandsflug til Ísafjarðar, Bíldudals og á Gjögur eru almenningssamgöngur.
Áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, Bíldudals og Gjögurs eru mikilvægustu almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins. Brýnt er að standa vörð um þá þjónustu og öryggi sem flugsamgöngur veita íbúum á Vestfjörðum. Fagnað er að lokið er lagningu slitlags á flugvöllinn á Gjögri en samtímis er þess krafist að auknu fjármagni verði veitt til viðhalds og endurbóta á flugvöllunum á Þingeyri, Bíldudal og Ísafirði. Þá minnir Fjórðungsþing á að mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir samgöngur á milli landsbyggðar og höfuðborgar verður aldrei of oft ítrekað.
Fjórðungsþing skorar á stjórnvöld að gerð sé úttekt á mögulegum nýjum flugvallarstæðum á Vestfjörðum sem geti þjónað innanlands og millilandaflugi. Bent er á stækkun þjónustusvæðis slíks flugvallar með tilkomu Dýrafjarðarganga og nýs vegar um Dynjandisheiði. Nýr flugvöllur er mikilvæg forsenda fyrir frekari atvinnuuppbyggingu í landshlutanum.
Um hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði
Hringtenging ljósleiðara um Vestfirði er alger forsenda þess að atvinnulíf og samfélag Vestfjarða nái að standa jafnfætis öðrum byggðarlögum í landinu.
Því er fagnað að ljúka eigi við lagningu ljósleiðara frá Hrútafirði til Hólmavíkur á þessu ári og fjármagn er sett til að ljúka lagningu ljósleiðarans frá Hólmavík til Súðavíkur. Bent er á að Drangsnes er eini byggðakjarninn á Vestfjörðum sem er án ljósleiðara og nauðsynlegt er að tryggja fjármagn til verkefnisins.
Aukið fjármagn þarf hins vegar til að ná þeim markmiðum sem starfshópur stjórnvalda setti fram um tengingu dreifbýlis og skorar Fjórðungsþing Vestfirðinga á Alþingi að tryggja fjármagn til þessa verkefnis í fjárlögum 2016.