Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ein af glærum Karls Eðvaldssonar, framkvæmdastjóra Resource International ehf., á fundinum. Þarna má sjá tölur um magn brennanlegs úrgangs sem féll til í mismunandi landshlutum á árinu 2018. Þarna er höfuðborgarsvæðið með 179.290 tonn, Suðurnes með 11.016 tonn, Vesturland með 14.425 tonn, Vestfirðir með 3.712 tonn, Norðvesturland með 9.048 tonn. Norðausturland með 27.071 tonn, Austurland með 6.597 tonn og Suðurland með 10.081 tonn.
Ein af glærum Karls Eðvaldssonar, framkvæmdastjóra Resource International ehf., á fundinum. Þarna má sjá tölur um magn brennanlegs úrgangs sem féll til í mismunandi landshlutum á árinu 2018. Þarna er höfuðborgarsvæðið með 179.290 tonn, Suðurnes með 11.016 tonn, Vesturland með 14.425 tonn, Vestfirðir með 3.712 tonn, Norðvesturland með 9.048 tonn. Norðausturland með 27.071 tonn, Austurland með 6.597 tonn og Suðurland með 10.081 tonn.
Fréttir 14. janúar 2021

Vegna aðgerðarleysis í sorpeyðingarmálum stefnir í stórfelldan útflutning á sorpi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Aðgerðarleysi í uppbyggingu sorpbrennslustöðva á Íslandi virðist nú vera að koma í bakið á mönnum. Ljóst er að á árinu 2023 verður endanlega lokað fyrir urðun sorps í Álfsnesi sem tekur við stærstum hluta sorps af landinu. Bendir þá flest til þess að þá taki við stórfelldur útflutningur á sorpi, eða allt þar til byggð hefur verið ný hátæknisorporkustöð á Íslandi.  

Þetta kom m.a. fram í mjög fróðlegum erindum sem haldin voru á fjölmennum netfundi sem Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir mánudaginn 11. janúar um hátæknibrennslu sem framtíðarlausn. Þar kom einnig fram að nú er ekki lengur neinn tími eftir til að velta vöngum yfir hvað skuli taka til bragðs. Tímaglasið er þegar tómt og að mati flestra sem fluttu erindi á fundinum þarf án tafar að taka ákvarðanir um næstu skref varðandi byggingu sorporkustöðvar fyrir um 100 þúsund tonn af sorpi á ári. Kostnaður við byggingu getur oltið á tugum milljarða króna og allt ferlið við slíka byggingarframkvæmd getur hæglega tekið sex til átta ár.    

Um 160 þátttakendur skráðir á fundinn

Guðjón Bragason, sviðsstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, stýrði fundinum þar sem skráðir voru um 160 þátttakendur. Sagði hann að það hafi lengi verið sinn draumur að menn kæmust á þetta stig að ræða stóru myndina í sorpeyðingarmálum og þá sérstaklega uppbyggingu innviða. Sagði hann það reyndar markmiðið með fundinum að komast að því hvað þyrfti að gera næst til að hrinda byggingu brennslustöðvar í framkvæmd. Á fundinum voru flutt fjölmörg erindi. Flutningsmenn voru Karl Eðvaldsson, framkvæmdastjóri Resource International ehf., Páll Guðjónsson verkefnastjóri, Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku, Teitur Gunnarsson, verkfræðingur hjá Mannviti  verkfræðistofu, og Helgi Þór Ingason, fyrrverandi framkvæmdastjóri SORPU.

Skýrsla um greiningu á þörf sorpbrennslustöðva á Íslandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hóf umræðuna á fundinum og fagnaði útgáfu skýrslu sem Resource International vann fyrir Umhverfisstofnun að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og sem heitir „Greining á þörf sorpbrennslustöðva á Íslandi“.

„Mér fannst nauðsynlegt að kalla eftir faglegri úttekt á þeim möguleikum sem okkur standa til boða varðandi brennslu með orkunýtingu, því ljóst er að alltaf verður eitthvert magn úrgangs sem ekki verður hægt að endurnota og endurvinna og þá er betra að brenna það en að urða. Skýrslan er mikilvægt innlegg inn í umræðu um tilhögun sorpbrennslumála á Íslandi til næstu ára og áratuga og nú stendur fyrir dyrum að vinna málin áfram í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Gleymum því samt ekki að auðvitað á mest áhersla að vera á að koma í veg fyrir að hráefni verði að úrgangi, og nauðsynlegt að stórauka endurvinnslu, ekki síst innanlands, í takti við hringrásarhagkerfið,“ sagði ráðherra. 

Mat lagt á þrjár sviðsmyndir

Karl Eðvaldsson, framkvæmdastjóri Resource International ehf., flutti erindi undir fyrirsögninni „Greining á þörf fyrir brennslu úrgangs til framtíðar“. Lýsti hann þar niðurstöðum skýrslunnar sem gerð var fyrir stjórnvöld. Markmið þeirrar vinnu hafi verið að meta þróun óendurvinnanlegs úrgangs á Íslandi til næstu 25 ára, eða til 2045. Settar voru upp þrjár sviðsmyndir. Í fyrsta lagi hversu mikið af sorpi kæmi til brennslu við óbreytt ástand hvað varðar endurnýtingu og annað. Í örðu lagi hver staðan yrði ef uppfyllt yrðu öll markmið sem Ísland hefur undirgengist að taka þátt í. Í þriðja lagi var reynt að meta hvað þurfi að gera til að bestu mögulegu útkomunni verði náð. 

Í erindi Karls kom fram að samsetning úrgangs á Íslandi hafi breyst árið 2014 þegar farið var að taka jarðefni inn í þær tölur samkvæmt Evrópustöðlum. Á árinu 2018 var hlutfall jarðefna 42,2% af heildarumfangi úrgangs á Íslandi og jarðvegur 9,5% á meðan blandaður heimilisúrgangur var 11,6%. Efnaúrgangur var þá 9,6%.

Samkvæmt skýrslunni er áætlað að heildarmagn brennanlegs úrgangs á Íslandi fari úr um 280.000 tonnum og í 380.000 tonn á árinu 2045. Fjölmargar aðgerðir eins og moltugerð, endurvinnsla á pappír og plasti og ýmislegt fleira minnkar þetta magn hins vegar verulega. Á árinu 2018 fóru t.d. 35% af úrganginum í endurnýtingu eða endurvinnslu. 

Brenna þarf um 90 til 120 þúsund tonnum á ári

Við óbreytt ástand er gert ráð fyrir að brennanlegur úrgangur verði á bilinu 182–207 þúsund tonn á ári. Með því að fara að markmiðum ESB um meðhöndlun úrgangs þyrfti væntanlega að brenna 91–121 þúsund tonn á ári. Ef ýtrustu draumar um flokkun, endurvinnslu og minni matarsóun og annað gengur upp, þá ætti ekki að þurfa að brenna meiru en 33–38 þúsund tonnum. Það er þó talið mjög óraunhæft í framkvæmd. 

Niðurstaðan er því sú að verið er að horfa á að reisa sorporkustöð eða stöðvar á Íslandi sem geti annað brennslu á allt að 120 þúsund tonnum á ári. 

Um 73% brennanlegs úrgangs myndast á höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi brennir Kalka um 11 til 12 þúsund tonnum á ári. 

Fram kom á fundinum að taka þurfi ákvörðun um hvort reisa eigi eina brennslustöð eða nokkrar minni. Ljóst er að brennslustöð fyrir 90–120 þúsund tonn þykir ekki stór í alþjóðlegu samhengi og því minni sem stöðvarnar eru, því óhagkvæmari verða þær í rekstri með tilliti til orkunýtingar. 

Árið 2017 voru starfræktar 492 sorporkustöðvar í Evrópu. Þar af voru 18 í Noregi, 26 í Danmörku, 34 í Svíþjóð og 9 stöðvar í Finnlandi. 

Sagði Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku, að rekstarhagkvæmni slíkrar stöðvar lægi í stærðinni og forðast bæri að offjárfesta í mörgum stöðvum með of mikilli brennslugetu. 

Hægt að nýta 72–91% hitaorkunnar

Teitur Gunnarsson, verkfræðingur hjá Mannviti, benti á í sínu erindi að hátæknibrennslustöð þyrfti að vera í rekstri allan sólarhringinn til að skila viðunandi hagkvæmni. Þá væri slík stöð að brenna um 2,5 tonnum eða meiru á klukkustund og jafnvel tíu sinnum meiru. Algengt er nú erlendis að reistar séu brennslustöðvar sem brenna 400 til 500 þúsund tonnum á ári við yfir 850 °C. Þá er gengið út frá því að hægt sé að nýta varmann sem myndast til að hita vatn og til raforkuframleiðslu. Með framleiðslu á heitu vatni og rafmagni er hægt að nýta um 72–91% af varmaorkunni. Einnig er í slíkum stöðvum mjög fullkomin afgashreinsun.  

Helgi Þór Ingason, fyrrverandi framkvæmdastjóri SORPU, benti á að bygging sorpbrennslustöðvar væri sannkallað risaverkefni sem kallaði á mikla útsjónarsemi og vandvirkni svo verkefni fari ekki úr böndum. Þar væru mörg vítin að varast.

Skylt efni: sorp | sorpbrennsla | sorpeyðing

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...