Verð komið í 6 þúsund krónur á skinn og stendur undir framleiðslukostnaði
„Þetta er rosalega ánægjulegt,“ segir Einar Eðvald Einarsson, loðdýrabóndi á Syðra-Skörðugili í Skagafirði og formaður Sambands loðdýrabænda, um nýafstaðið uppboð á skinnum í Kaupmannahöfn. Því lauk í byrjun vikunnar og fengust um 6 þúsund krónur fyrir skinn að meðaltali.
Það er um eða yfir 20% hærra verð fyrir skinn en á síðasta uppboði sem var í febrúar. Þá hafði verð á milli uppboða hækkað um 79%, þ.e. frá uppboðinu sem var í september 2020. Einar segir að brúnin á loðdýrabændum hafi lyfst töluvert við þessar nýju vendingar og meiri bjartsýni ríki í hópi þeirra bænda sem enn stunda loðdýrarækt á Íslandi.
Uppboðið í Kaupmannahöfn stóð yfir í 7 daga og var rafrænt. Alls voru boðin um 2,8 milljónir skinna og seldist allt sem í boði var, eftirspurn var meiri en framboð að sögn Einars. Hann gerir ráð fyrir að á þessu uppboði hafi á bilinu 15 til 20% íslensku framleiðslunnar selst.
„Þetta lofar góðu og mér sýnist þetta nú allt vera á uppleið. Það eru tvö uppboð eftir á þessu ári, í júní og september, og mér sýnist þessi tvö fyrstu lofa mjög góðu um framhaldið,“ segir hann. Verðið sem fékkst nú, 6 þúsund krónur fyrir skinn, er yfir framleiðslukostnaði og er það í fyrsta sinn í um fimm ár sem það gerist. „Það var kominn tími til, þetta er mjög jákvætt,“ segir Einar. Loðdýrabúin hafi verið rekin með tapi undanfarin ár.
Verð í sögulegu hámarki árið 2013
Verð á minkaskinnum náði sögulegu hámarki á árinu 2013 þegar yfir 12 þúsund krónur fengust fyrir skinn að meðaltali. Árin á eftir voru að sögn Einars líka góð, þ.e. 2014 og 2015, en þá fór að halla undan fæti.
„Það var þannig að þegar vel gekk og skinn seldust á gríðarháu verðu sáu margir sér leik á borði að ná sér í skjótfenginn gróða, það byrjuðu margir í loðdýrarækt, einkum í Asíulöndum þar sem skamma stund getur tekið að koma sér upp búum. Menn sáu pening í þessu og hann var þar vissulega um skeið, en svo fór allt á hliðina, framboð varð of mikið og allt fór á hvolf.
Það er farsælast ef hægt er að halda nokkurn veginn jafnvægi í þessari atvinnugrein, þannig að bændur fái ríflegan framleiðslukostnað og geti auk þess að greiða sér laun fjárfest og haldið búum sínum í þokkalegu horfi,“ segir Einar.
Áttum von á hækkun en ekki svona bratt
Hann segir að því hafi verið spáð að verð myndi hækka á árinu 2020, en sáu þá vitanlega ekki fyrir þau miklu áhrif sem kórónuveiran hafði í för með sér.
„Það er nokkuð merkilegt að þessi hækkun er að koma til á fyrsta ársfjórðungi, menn áttu von á hækkun á árinu, en ekki að það gerðist svo bratt og svona snemma árs,“ segir Einar en gerir ráð fyrir að mikil uppsöfnuð vöntun hafi verið á skinnum. Hjólin séu á ný farin að snúast í atvinnulífinu og af meiri krafti eftir faraldurinn, til að mynda víða í Asíulöndum þar sem verið er að ræsa verksmiðjur hverja á fætur annarri. Þær reyni af fremsta megni að næla sér í hráefni. Eins nefnir hann að niðurskurður á öllum bústofni í Danmörku á liðnu ári hafi líka sín áhrif, framboðið sé umtalsvert minna þegar Danir séu úr leik.
Fáir eftir í loðdýraræktinni
Einar segir sorglegt hversu margir loðdýrabændur hafi brugðið búi liðin ár, frá því samdráttarskeiðið hófst á árinu 2016. Nú eru eftir tíu bændur í loðdýrarækt á Íslandi. Þó svo að bjartari tímar virðist fram undan í greininni segist Einar ekki hafa heyrt af því að bændur ætli sér að hoppa á vagninn og hefja búskap með loðdýr á ný.
„Við höfum misst marga úr okkar röðum í niðursveiflunni en það er svo ég viti til ekki í farvatninu að menn ætli sér að byrja aftur,“ segir hann.