Viðskiptahindrunum verður rutt úr vegi og samningur sagður auka matvælaöryggi
Evrópusambandið og Mercosur-ríkin - Argentína, Brasilía Paragvæ og Úrúgvæ, náðu þann 28. júní síðastliðinn pólitísku samkomulagi um alhliða viðskiptasamning ríkjanna.
Samkvæmt sameiginlegri fréttatilkynningu ESB og Mercosur er Evrópusambandið nú stærsti viðskiptaaðili Mercosure ríkjanna og seldi þangað vörur fyrir 45 milljarða evra árið 2018 og 23 milljarða evra árið 2017.
Þá eru fyrirtæki inna Evrópusambandsins öflugust af öllum erlendum fjárfestum innan Mercosur ríkjanna. Þannig var fjárfest af hálfu félaga innan ESB fyrir 52 milljarða evra í þessum Suður-Ameríkuríkjum árið 2017.
Markmiðið að fjarlægja viðskiptahindranir
Markmiðið með nýjum viðskiptasamningi ESB og Mercosur ríkjanna er að fjarlægja viðskiptahindranir eins og tolla til að auðvelda og efla viðskipti milli þessara svæða. Fullyrt er í fréttatilkynningunni að mikill ávinningur verði af þessum samningi fyrir báða aðila, með auknum viðskiptatækifærum, auknum vexti og fjölgun atvinnutækifæra. Þá sé meiningin að auka gagnkvæm réttindi verkafólks, tryggja umhverfisvernd og hvetja fyrirtæki til að sýna aukna ábyrgð. Þá eigi samningurinn einnig að auka matvælaöryggi.
Milljónir evrópskra bænda hafa mótmælt samningnum
Þessi samningur sem unnið hefur verið að um langa hríð hefur verið mjög umdeildur, ekki síst er varðar tollfrelsi á innflutning á landbúnaðarafurðum frá Suður- Ameríkjuríkjunum til Evrópu.
Hafa 22 milljónir evrópskra bænda sem standa á bak við Copa Cogea, landbúnaðarviðskiptasamtök ESB, og og samstarfsfyrirtækja þeirra í landbúnaði mótmælt harðlega í aðdraganda þessarar samningsgerðar. Óttast evrópskir bændur neikvæð áhrif á evrópskan landbúnað. Hann geti ekki keppt við þann suður-ameríska á sömu forsendum og þar er heimilt að beita við framleiðsluna.
Forðast að tala um innflutning landbúnaðarafurða til ESB
Í kynningu ESB á samningnum sem birt er á vef Evrópuráðsins vekur athygli að megin áhersla er lögð á að útlista hvað hann hafi jákvæð áhrif á viðskipti frá Evrópu til Mercosur landanna með tollalækkunum.
Hins vegar er forðast að minnast á þá hluti sem vakið hafa gagnrýni, þ.e. möguleg neikvæð áhrif á evrópskan landbúnað vegna gagnkvæmra tollalækkana og innflutnings t.d. á kjöti til Evrópu. Ekkert er á það minnst en hins vegar skilmerkilega greint frá því að tollar lækki á útfluttar mjólkurvörur frá ESB ríkjum um 28%, um 20% á súkkulaði og sælgæti, um 35% á sterkt áfengi og um 27% á léttvín. Þá lækki tollar vegna bílaútflutnings frá ESB löndum um 35%, um 14-20% af vélum, um 18% af kemískum efnum og um 14% af lyfjum.