Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sorfin gil Vatnsdalsár eru ægifögur.
Sorfin gil Vatnsdalsár eru ægifögur.
Mynd / Elva Björg Einarsdóttir
Viðtal 7. september 2023

Auðlindum fylgir ábyrgð

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Einn fegursti og sögufrægasti fjörður Barðastrandarsýslu, Vatnsfjörðurinn, hefur verið í umræðunni um nokkurt skeið vegna virkjunarhugmynda Orkubús Vestfjarða – en samkvæmt upplýsingum þaðan er staðan í raforkumálum á Vestfjörðum ósjálfbær. Taka skal fram að Vatnsfjörðurinn er friðaður, en Orkubú Vestfjarða hefur farið fram á að friðunarskilmálum svæðisins verði aflétt að hluta, svo hægt verði að framkvæma umhverfismat vegna mögulegrar virkjunar.

Elva Björg Einarsdóttir vinnur ötullega að því að viðhalda friðun Vatnsfjarðar.

Elva Björg Einarsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði og útgefandi göngubókarinnar Barðastrandarhreppur, er fædd og uppalin á bænum Seftjörn á Barðaströnd. Hefur hún undanfarið unnið að því að viðhalda friðun Vatnsfjarðar, sem hefur verið í gildi síðan árið 1975.

Nýverið gekk hún, ásamt móður sinni, Bríeti Böðvarsdóttur, sem búsett er á Seftjörn, á fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og lögðu þær mæðgur ríka áherslu á áframhaldandi friðun Vatnsfjarðarins. Í kjölfarið lagði þingflokkur Vinstri grænna land undir fót og hélt í vettvangsferð um Vatnsfjörðinn ásamt Eddu Kristínu Eiríksdóttur, sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun. Eftir ánægjulega ferð voru göngugarparnir sammála um að vernda þyrfti heild svæðisins, skoða alla kosti með opnum hug og finna lausnir sem henta.

Skiptar skoðanir um áform virkjunar

Ekki eru allir á sama máli um ágæti virkjunar í Vatnsfirði og má segja að umræðan skipti samfélaginu í tvennt þó að mishátt heyrist í fólki. Annars vegar eru þeir sem eru fylgjandi áframhaldandi friðun í firðinum og hins vegar þeir sem telja framtíð Vestfjarða hverfast um slík áform.

Landið hefur verið friðað í nær hálfa öld, sögufrægt svæði sem geymir íslenskt landslag eins og best lætur og því má ætla að hugmynd um virkjun sé mörgum afar fjarri. Fengu ábúendur fregnir af mögulegri virkjun fyrst á öldum ljósvakans og þótti undrun sæta hvernig staðið var að málum.

„Föðurfjölskylda mín hefur leigt gömlu Brjánslækjarjörðina frá því upp úr 1940, tekur Elva til máls. Foreldrar mínir stofnuðu nýbýlið Seftjörn út úr þeirri jörð um 1960 og hafa leigt hana síðan þá, móðir mín nú eftir lát föður míns 2013. Það var því í hæsta máta undarlegt að fólkið á Seftjörn og Brjánslæk skyldi frétta fyrst af áformum um virkjun í friðlandinu í Vatnsfirði í fréttunum.“

Segir Elva frá því að Þjóðhátíð Vestfirðinga hafi verið haldin árið 1974 í tilefni ellefu alda byggðar Íslands, enda Vatnsfjörðurinn skrifaður í handrit sögunnar síðan Hrafna-Flóki Vilgerðarson nam þar land og nefndi landið Ísland. Fjölmenntu Vestfirðingar á hátíðina hvaðanæva af landinu en um 12.000 manns fögnuðu þessum tímamótum.

Hér sér yfir dalinn og glittir í Vatnsdalsvatn lengst í burtu. Þetta er eins og sjá má algjörlega ósnert svæði.

Söguleg verðmæti

Var það samdóma álit þjóðhátíðargesta að þarna væri um dýrmætt svæði að ræða sem þyrfti að varðveita vegna þeirra landgæða, fegurð og sögu sem umhverfið býr yfir. Staðurinn er mikilvægur þjóðinni allri og ætti í raun að vera þjóðgarður ásamt öðrum friðuðum svæðum á sunnanverðum Vestfjörðum, líkt og til stóð að stofna í kjölfar gjafar RARIK á jörðinni Dynjanda til ríkisins 2019.

Umhverfi þjóðgarðs héldi þá m.a. utan um Hrafnseyri – fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, Surtarbrandsgil þar sem finna má leifar skóga í um það bil 12 milljóna ára gömlum setlögum, táknmynd þess að Vestfirðir séu elsti hluti landsins – fossinn Dynjanda í allri sinni dýrð auk aðkomu Hrafna-Flóka eins og áður var nefnt.

(Síðla árs 1974 hélt Náttúruverndarráð fund í Flókalundi og varð niðurstaða þess fundar að friðlýsa skyldi þessa auðlind okkar Íslendinga.)

„Mér finnst,“ segir Elva með áherslu, að við ættum að láta þetta landsvæði, þennan þjóðgarð, kallast á við Þingvöll. Þetta er svo mikilvægur staður fyrir þjóðina og á svo marga vegu. Við þurfum að athuga, landsmenn, að fara ekki offari. Nú er það nýfrjálshyggjan sem stekkur á orkuskiptavagninn, vill virkja allt bæði í vind og vatni en áttar sig ekki á að auðlindir okkar felast ekki síst í því víðerni og þeirri ósnertu náttúru sem við eigum.“

Fossaraðir í Heimari Útnorðursá.

Vanda þarf til verka

„Við eigum hérna á Íslandi – og berum ábyrgð á – 43% af ósnertu víðerni Evrópu, heldur hún áfram. Það er einstakt og við eigum virkilega að passa hvernig farið er með. Á allan hátt. Líka er kemur að ferðaþjónustunni og þeim straumi fólks á landsvæðin.“

Elva bendir á að fjölmargar rannsóknir, bæði innlendar sem alþjóðlegar, sýni fram á að virkjanir rýri náttúrugæði og upplifun ferðamanna af svæðum enda í raun tilviljunum háð hvort samruni virkjana og náttúru gangi upp. „Nú þegar Vatnajökulsþjóðgarður er kominn að þolmörkum væri einstakt og eftirsóknarvert fyrir Vestfirðinga að hafa tækifæri til að byggja upp þjóðgarð á þeim svæðum Vestfjarða sem eru friðuð nú þegar og stýra ferðamönnum áður en þeir koma.“

Nokkuð er ljóst að þeir sem eru hvað hrifnastir af hugmyndum um virkjun séu aðilar sem aldrei hafa litið svæðið augum.

„Ég hef persónulega haft samband og rætt við fjölda manns er standa að þessu á einn eða annan hátt, í orkugeiranum og annars staðar. Áheyrn eða svör frá umhverfis-, orku- og loftslags-
ráðherra hafa hins vegar látið standa á sér þrátt fyrir ítrekaða beiðnir.“

Elva var í janúar sl. boðuð á fund samstarfshóps ráðherra um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum þar sem hún talaði máli þjóðgarðs og náttúruverndar og fékk góða áheyrn. Fundinum lauk þó með því að formaður hópsins kvaðst ekki vilja vekja hjá henni vonir, verkefni hópsins væri skýrt.

„Þar átti hann við að málefni hans væri hvort tveggja þjóðgarður og lausn á raforkumálum Vestfirðinga. Ég var nokkuð hugsi eftir fundinn og fannst í raun eins og ég hefði farið erindisleysu þar sem þegar væri búið að ákveða hver niðurstaða hópsins yrði. Mín skoðun er,“ heldur Elva áfram, „að þeir sem hugsa einungis um að virkja og láta sér detta í hug atvinnumöguleika sem eru verulega orkufrekir, eru að nota gömul viðmið til framtíðarlausna. Það gengur ekki. Við verðum að tileinka okkur nýja hugsun og gera okkur grein fyrir að við erum hluti af jörðinni en ekki aðskilin frá henni. Gísli Pálsson mannfræðingur hefur lýst þessum tengslum fallega og talar um þau sem jarðtengsl.

Órjúfanleg tengsl manneskja og náttúru, við erum mótuð af umhverfi okkar líkt og umhverfið mótast af okkur. Þessu eigum við að bera virðingu fyrir og haga okkur samkvæmt því.

Hér mætast Útnorðursá og Vatnsdalsá.

Misvísandi upplýsingaflæði

Vattarfjörður er þar-þarnæsti fjörður við Vatnsfjörðinn en í samantekt Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri vegna fjórða áfanga Rammaáætlunar kemur fram að Orkubú Vestfjarða sækir um leyfi fyrir Tröllárvirkjun í Reykhólahreppi, nýta þar rennsli Vattardalsár og Tröllár. Virkjunin yrði um 13,7 MW og lagðar yrðu niðurgrafnar þrýstipípur að um 180 m3 stóru stöðvarhúsi innarlega í botni Vattarfjarðar.

Áhugavert er að í nýjustu skýrslu varðandi eflingu samfélags Vestfjarða, – frá skipuðum starfshópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undir formennsku Einars K. Guðfinns- sonar – er ekki minnst á þessa virkjun. Er skýrslan fyrst birt á vef stjórnarráðsins í júní nú í ár.

Komið hefur fram hjá forsvarsmönnum orkumála hérlendis að virkjun á Vestfjörðum er ekki ætluð Vestfirðingum einum og sér heldur fari hún inn á dreifikerfi landsins. Til viðbótar sé heldur ekkert til í því að landsfjórðungar þurfi að vera sjálfbærir um orku. Orkuöryggi byggist á dreifikerfi raforku. Þetta kemur t.d. skýrt fram í aðsendri grein orkumálastjóra, Höllu Hrundar Logadóttur, í vor þar sem hún hvetur til þess að forgangsraða heimilum og smáum fyrirtækjum í landinu þegar kemur að orkunotkun; forgangsröðunin „grunnskyldur við þegna landsins“. Forgangsröðun er afar mikilvæg og að allt sem að því lýtur fari inn í rammaáætlun en sé ekki einungis ákvörðun ráðherra.

Málið er hins vegar það, segir Elva, að fólk hefur verið matað á villandi upplýsingum varðandi orkuöryggi á Vestfjörðum og því skiljanlegt að einhverjir séu uggandi um þau mál. Áform um virkjun í friðlandinu í Vatnsfirði sé matreidd þannig að þeir sem á hlýða telja enga framtíð á Vestfjörðum án slíkra inngripa í friðað land. Sem að sjálfsögðu er ekki rétt.

„Það þarf að gera dreifikerfið betra þannig að sú orka sem fyrir er sé betur nýtanleg, þá með tilliti til forgangsröðunar heimila og lítilla fyrirtækja í landinu. Þetta kemur inn á þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem tekinn var fyrir á Alþingi árið 2019 og er svohljóðandi:

„Stjórnvöldum ber að skilja á milli raforkumarkaðs, stórnotenda sem keppa á frjálsum markaði og gera leynilega langtímasamninga við raforkuframleiðendur annars vegar og almenna notendur, þá heimili og smærri fyrirtæki hins vegar. Semsagt í samræmi við innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins í íslenska löggjöf, þá ber stjórnvöldum að skilgreina hver njóti svokallaðrar alþjónustu á innlendum orkumarkaði.“

„Með þetta í huga ætti að vera hægt að leggja skyldur á opinbera aðila á borð við Orkustofnun er kemur að því að tryggja raforkuöryggi með íhlutun. Heimilum og litlum fyrirtækjum verður að forgangsraða, segir Elva með þunga.

„Við þurfum að vanda okkur. Passa upp á þá náttúruauðlind sem við eigum og hlúa að. Við eigum, eins og áður sagði, stærsta hluta Evrópu er kemur að ósnertu víðerni. Ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir því eða hversu mikil ábyrgð er í því fólgin og í raun og veru krafa um að hvert og eitt okkar leggi því lið til framtíðar og kannist við jarðsambönd sín.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt